16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2845 í B-deild Alþingistíðinda. (1713)

122. mál, Menningarsjóður

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Jeg vil fyrst svara því, sem hv. síðasti ræðumaður nefndi og tók upp eftir hv. 1. þm. Skagf., að ákvæðið um íhlutun Mentamálaráðs hefði verið samþ. við 3. umr. í Nd. á síðasta þingi. En þar er því til að svara, að skrifstofa Alþingis hefir engan tillögurjett á deildarfundum, og breyt., sem þar eru gerðar, verða ekki taldar löglega samþ., þar sem þær eru ólöglega bornar fram. En skilyrði fyrir því, að tillaga sje lögleg, er það, að hún sje borin fram af þingmanni, en ekki af menni úti í bæ, hvort sem það er skrifstofumaður eða prentari. Það ákvæði, sem hjer um ræðir, hefir ekki verið samþ. af Alþingi; vangáin er hjer greinileg, og þótt dómsmrh. hafi lagt þetta fyrir konunginn, þá hafa þeir þó ekki löggjafarvald tveir einir. Samþ. Alþingis er skilyrði fyrir, að nokkuð geti orðið að lögum, og nægir hvorki samþ. dómsmrh. nje konungsins, ef Alþingi hefir hvergi nálægt komið. Forseti Sþ. hefir stungið því að mjer, að slíkar leiðrjettingar sem þessi hafi átt sjer stað í Danmörku, og jafnvel hjer á okkar landi. Jeg innti hann ekki eftir dæmi, en hann kvaðst þekkja dæmi til þeirra í báðum löndum, enda virðist það bersýnilegur hlutur, að það, sem er prentvilla eða vangá, sje ekki sama sem samþ. lög. Það leiðir af sjálfu sjer. Hæstv. forseti þessarar deildar (BSv) þekkir til svipaðs dæmis, þar sem hann ljet gera leiðrjettingu á frv. um búnaðarbankann, þar sem um enga efnisbreyt. var að ræða, heldur aðeins vangá hv. Ed. Mjer finst að þeir, sem eru hræddir við þessa aðferð, ættu að óttast hitt miklu fremur, að lögin um búnaðarbankann verði ekki talin gildandi lög. Og þegar breyt. hefir verið gerð á skrifstofu Alþingis og gengið gegnum deildina fyrir athugaleysi, þá ætti því frekar að mega gera leiðrjetting með dagskrá án nýrrar löggjafar.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að það yrðu engin takmörk fyrir því, hvað menn kynnu að aðhafast hjer á þingi, ef svona rökstudd dagskrá væri samþ. En takmörkin verða nákvæmlega þau sömu og þau hafa altaf verið, þ. e. vilji þingm. Þingviljinn er takmörkunin fyrir því, hvort þessi dagskrá verður samþ. eða ekki, og er líka takmörkunin fyrir allri okkar löggjafarstarfsemi. önnur takmörk verða ekki sett, og þeim takmörkunum er engin hætta búin af dagskránni.