18.05.1929
Efri deild: 74. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2856 í B-deild Alþingistíðinda. (1728)

122. mál, Menningarsjóður

Ingibjörg H. Bjarnason:

Það er vegna þess að jeg á sæti í Mentamálaráðinu, að jeg ætla að segja örfá orð um þetta ágreiningsatriði, sem hefir verið á milli deildanna. Hjer er að ræða um lítilfjörlega íhlutun af hálfu Mentamálaráðsins um það, hverjar bækur skuli á hverjum tíma vera gefnar út fyrir það fje, sem stjórn útgáfudeildar er ætlað að ráðstafa til bókaútgáfu. En hinsvegar veit jeg, að þeir fulltrúar Mentamálaráðsins, sem óska að hafa íhlutun um bókavalið, ætla sjer ekki að grípa fram fyrir hendur þeirra manna, sem eru sjerstaklega skipaðir til að annast bókaútgáfuna. En hinu mælir öll sanngirni með, ef það er eitthvað annað en óhugsaður lagabókstafur, að Mentamálaráðið hafi nokkur áhrif í þessu falli, að það fái að vita um það á hverjum tíma, hvaða bækur stjórn útgáfudeildar ætlar sjer að taka til útgáfu. Það má líka benda á, að það hefir komið fyrir Í öðru sambandi með bókaútgáfu hjer í Reykjavík — á jeg þar við þjóðvinafjelagið —, að þar hafa verið valdar bækur handa alþýðu, sem jeg býst við, að margir muni segja um með mjer, að betur hefði mátt velja bækur en taka þýðingar, sem e. t. v. hafa legið í handriti tugi ára án þess að nokkur forleggjari hafi fengist til þess að gefa þær út.

Nú er það ekki mín meining að segja, að þeir menn, sem hjer eiga í hlut, sjeu líklegir til að velja slíkar bækur. En þar sem þessar bækur eru einmitt ætlaðar alþýðu manna, því þá ekki að leyfa meðlimum Mentamálaráðsins að vita, hverjar bækur skuli gefnar út á hverjum tíma? Það hefir hingað til verið svo góð samvinna innan Mentamálaráðs, að það myndi ekki skapa neina úlfúð eða skaða starf þess, þótt þessi íhlutun Mentamálaráðsins hefði verið látið standa, og Mentamálaráðið hefði sætt sig við það, jafnvel þótt ekki hefði því verið ætlaður annar eða meiri rjettur en sá, sem mentmn. þessarar hv. d. tók upp, sjá brtt. á þskj. 394. Þess vegna finst mjer, að það muni vera af einhverjum hvötum, sem mjer eru ekki kunnar, að verið er að má út öll afskifti Mentamálaráðs um þetta þó ekki svo þýðingarlitla atriði. En svo best verður þessi sjóður að nótum fyrir þjóðarheildina, að það sje einhver trygging fyrir því, að það sje litið á þetta mál frá fleiri sjónarmiðum en aðeins þeirra manna, sem eiga að annast bókaútgáfuna og velja bækurnar. — Jeg fyrir mitt leyti get ekki greitt atkv. með frv. eins og það liggur nú fyrir.