18.04.1929
Efri deild: 48. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2863 í B-deild Alþingistíðinda. (1739)

123. mál, ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg tók það fram við 1. umr. þessa máls, að alþingishátíðarnefndin gerir alls ekki ráð fyrir að þurfa að nota heimildina, sem gefin er í II. og III. lið þessa frv. Hinsvegar lítur hún svo á, að það geti komið fyrir, að einstaka menn sýni óbilgirni og okri á húsum og flutningatækjum, og er þá nauðsynlegt, að hægt sje að sporna við því, því að það verður að teljast blettur á þjóðinni, ef farið verður að okra á þeim, sem hátíðina sækja.

Jeg skal geta þess út af ummælum hv. frsm., að það er ekki endanlega búið að ákveða upphæð minnispeninganna, en ef heimildin verður samþ., þá nær hún til allra þeirra minnispeninga, sem slegnir verða.

Það geta altaf verið til þeir menn, sem gætu orðið þjóð sinni til ósóma við svona tækifæri, ef þessi lög væru ekki til, en jeg lít svo á, að ef þau eru til, þá muni ekki þurfa að grípa til þeirra.