20.04.1929
Efri deild: 50. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2864 í B-deild Alþingistíðinda. (1742)

123. mál, ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930

Jón Þorláksson:

Jeg var svo sokkinn niður í lestur þingskjala, að jeg gáði þessi ekki að kveðja mjer hljóðs til þess að mæla með brtt. okkar á þskj. 360. Okkur finst alt of langt gengið með því ákvæði að heimila ríkisstj. að taka í sínar hendur umráð yfir leigubifreiðum og gistiherbergjum meðan á hátíðahöldunum stendur. Þvílíkar ráðstafanir munu hvergi þekkjast, nema þegar ófrið ber að höndum. Og enda þótt jeg viðurkenni, að hátíðarnefndin hafi mikið starf að inna af hendi, þá get jeg á engan hátt líkt því við það, að um hernaðarástand sje að ræða. Mjer finst því óhætt að lofa landsmönnum að hafa óskert umráð eigna sinna, þrátt fyrir hátíðahöldin. Hv. þm. Seyðf. sagði, að ef hámarksverð væri sett á bifreiða- og herbergjaleigu, gæti farið svo, að eigendur þessara gæða yrðu kaupsáttir við hátíðarnefndina eða ríkisstj. En jeg vil benda hv. þm. á, að þetta mega aðrir sætta sig við. Þegar menn selja hlut, eiga þeir það undir kaupanda, hve mikið hann vill gefa fyrir hann. Annars álít jeg, að hátíðarnefndin hafi góða aðstöðu til þess að fá nægilegar bifreiðar og herbergi, þar sem hún hefir í fyrsta lagi ríkissjóðinn að baki, og í öðru lagi er hún hjer á staðnum og þarf því eigi úr fjarlægð að sækja um gæði þessi. í þriðja lagi hefir nefndin ráðið fastan framkvæmdastjóra, og á jeg bágt með að trúa, að hann geti ekki, að landslögum óbreyttum, samið svo við eigendur þessara gæða, að engin vandræði eða truflanir þurfi af að hljótast.

Um brtt. okkar er það að segja, að við berum þær ekki fram af því, að við teljum hámarkstaxta æskilegan; síður en svo. En brtt. okkar eru einskonar málamiðlun til þess að ekki þurfi að ganga óhæfilega langt í því að svifta menn umráðum eigna sinna.