30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2874 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

123. mál, ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930

Pjetur Ottesen:

Það má segja um frv. þetta, að „ekki sje ráð nema í tíma sje tekið“, þar sem með því á að girða fyrir hættu, sem stafað geti af því, að eigendur gistihúsa og bifreiða misnoti aðstöðu sína við hátíðahöldin 1930 þannig, að þeir okri á erlendum ferðamönnum, sem hingað koma til þess að vera viðstaddir hátíðahöldin. En það sýnir best, hversu ástæðulaust er að vera að gera slíkar opinberar ráðstafanir, að þeir menn, sem að þessu máli standa, rísa upp hver á fætur öðrum og lýsa því yfir, að enda þótt farið sje fram á heimild þessa, þá geri þeir ekki ráð fyrir, að til hennar þurfi að taka. Mjer virðist, að frv. þetta sje alveg að ófyrirsynju fram komið, enda veit jeg ekki til, að framkoma Íslendinga — þessarar gestrisnu þjóðar — gagnvart erlendum ferðamönnum hafi verið þannig, að gera þurfi ráð fyrir, að til slíkra ráðstafana sem þessara þurfi að taka. Jeg held því, að þau ákvæði frv., sem að þessu lúta, sjeu með öllu óþörf.

Hvað snertir brtt. hv. fjhn. á þskj. 401, þá er hún aðeins til þess að bæta gráu ofan á svart, þar sem stj. er heimilað að setja hámarksverð á herbergjaleigu gistihúsa. Auk þess sem jeg geri fullkomlega ráð fyrir, að þetta sje óþarft, af því að ekki komi til þess, að beitt verði þar neinu okri, þá er með öllu óþarft að vera að samþykkja lög um þetta, þegar þess er gætt, að hinum tignu gestum landsins, sem hingað koma 1930, mun eflaust ætlað að búa á hinu nýja gistihúsi, sem nú er í smíðum, og ef nauðsynlegt hefði þótt að gera ráðstafanir til þess að tryggja það, að á þeim væri ekki okrað þar, þá held jeg, að stj. hafi í hendi sinni nóg vopn til þess að girða fyrir slíkt án þess að til lagaboða hefði þurft að koma, því eins og kunnugt er, hefir maður sá, sem byggir gistihús þetta, orðið að leita atbeina ríkisins með ábyrgð á lánum. En setjum nú svo, að hann sje búinn að fá þessa ábyrgð án þess að honum hafi verið nokkur skilyrði sett um þetta; þá hefir stj. í hendi sjer þau tök á þessum manni, að henni á að vera í lófa lagið að girða fyrir þetta ímyndaða okur. Því eins og kunnugt er, hefir stj. í fjárlagafrv. heimild til þess að veita þessum hóteleiganda nokkurra ára gjaldfrest á tolli af þeim dýru innanhúsmunum og borðbúnaði, sem kaupa á handa gistihúsinu. Jeg held því, að brtt. hv. fjhn. sje með öllu óþörf, eins og þau önnur ákvæði í frv., sem jeg hefi gert að umtalsefni.