30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2878 í B-deild Alþingistíðinda. (1757)

123. mál, ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930

Bjarni Ásgeirsson:

Jeg hefi verið í miklum vafa um, hvernig jeg ætti að greiða atkv. um þetta mál, og skal jeg því gera lítilsháttar grein fyrir atkv. mínu. Jeg hefi litið svo á, að eini ljósi punkturinn við fjárhagshlið hátíðahaldanna 1930 væri sá, að hingað kæmu margir útlendingar og greiddu vel fyrir þá hluti, sem þeir þurfa hjer að fá til eins og annars. Það er með öllu óhjákvæmilegt, að ríkið leggi fram allmikið fje vegna þessara hátíðahalda, sem að sjálfsögðu verður að leggjast á þjóðina í auknum sköttum á einn eða annan hátt. Maður verður því að hugga sig við, að eitthvað komi inn á móti þeim útgjöldum vegna hins erlenda ferðamannastraums. Þess vegna vil jeg fara sem skemst í þá átt að takmarka það, að Íslendingar geti fyllilega notið þess, að hinir erlendu menn vilja skemta sjer og eyða fje. Jeg get því tekið undir það, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði, að jeg vænti þess, að ákvæðum frv. þessa verði beitt sem allra varlegast, og því aðeins miðuð við gesti landsins, en ekki til þess að hlífa hinum erlenda flökkulýð, sem hingað kann að koma. Með því skilyrði greiði jeg frv. þessu atkv.