04.03.1929
Efri deild: 13. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2902 í B-deild Alþingistíðinda. (1800)

7. mál, vitar, sjómerki o.fl.

Jón Þorláksson:

Jeg álít fyrri málsgr. í brtt. n. nauðsynlega, þar sem jeg get ekki sjeð betur en að ákvæði frv., eins og þau eru, muni verða skilin svo, að sú endurgjaldsskylda skipseiganda á kostnaði fyrir að nema í burtu skipsflök og annan farartálma, sem nú er í lögum, sje með frumvarpinu í burtu fallin, þar sem ákveðið er, að hafnarsjóðir og ríkissjóður beri kostnaðinn. En þetta hefir ekki verið tilætlunin, og tel jeg því nauðsynlegt að setja inn þetta ákvæði, til þess að það komi skýrt fram, að skylda skipseiganda á að haldast hin sama og áður.

Að því er snertir seinni liðinn, um skiftingu kostnaðarins, getur verið álitamál, hvaða takmörk á að setja. Mjer finst ákvæði stjfrv. ekki vera heppilegur grundvöllur, af því að það getur staðið svo misjafnlega á um peningaeign og arðberandi lóðir hafnarsjóðanna. Hjer getur verið um að ræða stóra höfn, sem hefir miklar tekjur og getur þess vegna vel staðið straum af kostnaðinum.

En það, sem mjer finst einkum á vanta, og um það er jeg fyllilega sammála hæstv. forsrh.; er það, að í frv. með brtt. n. er ekki nægilega skýrt frá því gengið, að miklar framkvæmdir, sem hafnarsjóðirnir geta ekki tekið á sínar herðar, ættu ekki að geta orðið á annan hátt en þann, að samþykki ráðuneytisins væri fyrirfram fengið. Í frv. stendur bara, að hreppstjóri eða hafnarnefnd skuli sjá um framkvæmdina í samráði við ráðuneytið. Þetta er óákveðið orðatiltæki, sem þarf að vísu ekki að vera ákveðnara, þegar hafnarsjóður ber sjálfur allan kostnað af framkvæmdunum, en þegar mikill hluti kostnaðarins lendir á ríkissjóði, er nauðsynlegt að setja skýrari ákvæði um þetta atriði. Jeg vil því leyfa mjer að skjóta því til hv. n., hvort ekki sje hægt fyrir 3. umr. að bæta inn í frv. ákvæði í þá átt, að slíkar framkvæmdir verði ekki gerðar, nema ráðuneytið hafi lagt samþykki sitt í þær og tilhögun þeirra.