09.03.1929
Efri deild: 18. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2907 í B-deild Alþingistíðinda. (1807)

7. mál, vitar, sjómerki o.fl.

Frsm. (Erlingur Friðjónsson):

Jeg hefði ekki tekið til máls um frv. þetta við þessa umr., ef hæstv. forsrh. hefði ekki við 2. umr. óskað þess, að n. skýrði betur brtt. sína á þskj. 56, sem nú er komin inn í frv. Hæstv. ráðh. spurðist fyrir um það, hvort n. ætlaðist til, ef það tæki meira en eitt ár að nema burt farartálma, að þá gengi helmingur af tekjum hafnarsjóðanna öll árin, sem unnið væri að því, til greiðslu kostnaðarins við burtnámið. Út af þessari fyrirspurn vil jeg taka það skýrt fram fyrir hönd n., að hún ætlast ekki til, að meira verði varið af hálfu hafnarsjóðanna til þess að nema slíkar tálmanir burt en hálfum eins árs tekjum þeirra, hvort sem það tekur lengri eða skemri tíma að vinna verkið, og hún lítur svo á, að í flestum tilfellum muni það verða nægilegt, því að hættan á skipströndum vegna ásiglinga er vitanlega mest þar, sem siglingarnar eru mestar, og þar eru því tekjur hafnarsjóðanna mestar, eins og t. d. hjer í Reykjavík. Þannig hefði t. d. árið 1927 mátt verja alt að 350 þús. af hafnarsjóðnum hjer til þess að nema burt farartálma af siglingaleiðum, og í Vestmannaeyjum yfir 90 þús., og því tilsvarandi hjá öðrum höfnum, þar sem siglingar eru miklar.

Að sjálfsögðu leit n. svo á, að alla farartálma af siglingaleiðum inn á hafnir þyrfti að nema sem fyrst burt, og gekk út frá því, að í flestum tilfellum væri hægt að gera það á einu ári, enda þótt þess væru dæmi, að til þess þyrfti lengri tíma.

Jeg þykist nú hafa gengið hreint út frá því, að átt sje við, að aldrei gangi meira en helmingur af eins árs tekjum hafnarsjóðanna til þess að nema burt slíka farartálma í hverju einstöku tilfelli, án tillits til þess, hversu langur tími fer til þess. Svo ef hæstv. stj. teldi ástæðu til að kynna sjer síðar umr. um þetta mál af því að ákvæði laganna um þetta efni væru ekki nægilega skýr, þá á hún að geta sjeð glögt, hvernig n. vill, að till. hennar sje skilin, og þá um leið 5. málsgr. frvgr.