30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2917 í B-deild Alþingistíðinda. (1828)

7. mál, vitar, sjómerki o.fl.

Frsm. minni hl. (Sveinn Ólafsson):

Hv. frsm. meiri hl. hefir skýrt þetta mál frá sínum bæjardyrum. Leggur hann mikla áherslu á þann aðstöðumun, sem kemur fram, “þar sem stórir eru hafnarsjóðir og auðugir. Minni hl. lítur svo á, að ekki sje um stórvægilegan mun að ræða, nema þar sem tekjumiklir hafnarsjóðir eiga í hlut og kostnaður við brottnám farartálma er tiltölulega lítill. Í öllum þeim tilfellum, þegar slíkur kostnaður nemur sem svarar 1/4 tekjum hafnarsjóðs og þar yfir, þá er munurinn lítill eða enginn. (ÓTh: Þetta er ekki rjett). Þetta er alveg rjett. Að því er snertir dæmi meiri hl. af Reykjavíkurhöfn, þar sem er stór og tekjumikill hafnarsjóður, þá getur í vissum tilfellum, t. d. ef kostnaður nemur kringum eða neðan við 1/4 af tekjum sjóðsins, þessi munur orðið töluvert mikill ríkissjóði í vil. En það sýnist ekki óeðlilegt, að þar sem eru tekjumiklir hafnarsjóðir, þá beri þeim skylda til að ryðja farartálmum úr vegi, að því leyti sem kostnaðurinn fæst ekki greiddur af eiganda þess, sem farartálma veldur, samkv. almennum lögum. Sjóðunum hefir verið gefin aðstaða til slíks síðari árin, með því að þeim eru gjaldstofnar fengnir og ýmsir möguleikar til þess að afla tekna. Og þar sem þessar tekjur hafa víðast vaxið mjög á síðustu árum, þá sýnist ekki óeðlilegt, að eldri ákvæðum um þessi efni sje breytt og sjóðunum lagðar meiri kvaðir á herðar. Samkv. lögum frá 1911 er hafnarsjóðunum aðeins ætlað að greiða 300 kr. til burtnáms farartálma, hversu kostnaðarsamt sem verkið er, en ríkissjóði allur mismunur, og tekur ekki tali að láta þau eða lík ákvæði haldast lengur. Þar sem hafnarsjóðir hafa, nú umráð yfir miklu fje, eins og hefir verið bent á um Reykjavíkurhöfn, þá leiðir af því, að máttur þeirra er stórum meiri en áður, og þess vegna eru þeir fullfærir um að taka á sig þann aukna kostnað, sem frv. ætlar þeim eftir till. minni hl. n. Í flestum tilfellum, þegar kostnaðurinn við burtnám farartálma nálgast það að svara þó árstekjum hafnarsjóðs, eða ofan við það, þá verður breyt. eftir till. Ed. lítil eða engin. En ef till. meiri hl. verður samþ., þá er með því leitað aukinna hagsbóta og jafnvel ófyrirsynju fyrir hina stærri hafnarsjóði. Annars skal jeg að lokum taka það fram, að jeg legg ekki svo mjög mikla áherslu á þetta atriði, enda hygg jeg það tæplega svo stórvægilegt, að það sje ómaksins vert að hrekja málið á milli deilda fyrir sakir tillagna meiri hl.