16.04.1929
Neðri deild: 46. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2930 í B-deild Alþingistíðinda. (1854)

88. mál, tilbúinn áburður

Bjarni Ásgeirsson:

Jeg get ekki látið þetta frv. ganga gegnum deildina án þess að mótmæla einu atriði í grg. þeirri, er því fylgir. Þar er sagt á þá leið, að frv. sje fram komið til þess að bæta úr misrjetti, sem bændur yrðu fyrir í gildandi lögum í styrkveitingunni til áburðarflutningsins. Þetta er rangt. Eftir núgildandi lögum hafa allir bændur jafnan styrk og fá hann allir fyrir sama verð á sinni verslunarhöfn, hvar sem er á landinu, og er aðstaðan til hans alveg sú sama og alls þess varnings, er menn þurfa að flytja að sjer, að kostnaðurinn við kaupstaðaferðirnar er því meiri sem vegurinn er lengri. Þessa mismunandi aðstöðu jarðanna er ekki unt að þurka út, enda er það hún, sem meðal annars skapar verðlagið á jörðum í landinu, og í verðlaginu njóta og gjalda þær þessarar aðstöðu. Hjer er aftur á móti farið fram á misjafna styrkveitingu til bænda; að greiða þeim meira, sem lengri hafa landflutning. Jeg ætla mjer nú ekki í sjálfu sjer að fara að andmæla því, að þetta fyrirkomulag sje reynt. En jeg Vil láta nefna hlutina rjettum nöfnum. Hinsvegar verð jeg að segja, að mjer finst málið helst til flókið eins og það liggur fyrir nú, og Búnaðarfjelag Íslands verður ekki öfundsvert af að þurfa að úthluta þessum styrk. Jeg efast líka um, að meira rjettlæti sje náð með þessu en áður var, en mun þó verða fylgjandi frv., m. a. til að undirstrika það, að það er ekki „bóndinn í Mosfellssveit“, sem talar, eins og einn hv. þm. skaut að mjer. Jeg þekki gildi tilbúins áburðar og mun nota hann jafnt hvort nokkur styrkur er veittur til flutnings hans eða ekki. En jeg vil einskis láta ófreistað til að vinna að útbreiðslu hans, og ef þetta mætti verða til þess, þá er vel. Reyna má það að minsta kosti.

Jeg vildi að lokum beina þeirri fyrirspurn til hv. nefndar, hvernig á að skilja 2. liðinn: „Stjórnir fjelaganna skifta styrknum milli áburðarnotenda innan hreppa hlutfallslega eftir flutningskostnaði þangað, er áburðurinn er notaður, og þyngd áburðarins“. Hvernig hugsar n. sjer fyrirkomulag þessa? Ætlast hún til, að búinn sje til sjerstakur styrktaxti fyrir hvert býli í landinu, sem áburðinn notar, eða á að láta nægja að hafa einn sameiginl. taxta fyrir hvert búnaðarfjelag? Um þetta vildi jeg gjarnan fá upplýsingar, þar eð það kemur til minna kasta sem stjórnarnefndarmanns í B. F. Í. að sjá um úthlutunina.

Viðvíkjandi ræðu hæstv. forsrh. verð jeg að segja, að jeg álít rjettara, að Búnaðarfjelagið hafi úthlutun þessa opinbera styrks með höndum heldur en S. í. S., þótt það hafi tekið að sjer verslunina.