17.05.1929
Efri deild: 72. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2939 í B-deild Alþingistíðinda. (1868)

88. mál, tilbúinn áburður

Jón Baldvinsson:

Þetta frv. tók dálitlum breyt. hjer í deildinni, eins og kunnugt er. Þegar frv. kom hingað, var það þannig orðað, að enginn gat skilið það. Jeg hefi spurt marga reikningsglögga menn um það, hvernig ætti að reikna út þessi hlutföll milli flutningsgjalds og söluverðs, en hvergi fengið fullnægjandi svar.

Eftir frv. var því stj. alveg í sjálfsvald sett, hvernig á að skifta styrknum niður, og í öðru lagi var það svo, að landbn. Nd. hafði skilið eftir bæjarfjelög, eins og hún vilji ekki láta þau koma til greina við ívilnun þá, sem veitt er kaupendum áburðarins.

En það, sem úr hófi keyrir, er það, að landbn. Nd. skuli geta skilað frá sjer frv., sem ekki er hægt að botna í, og ekki er um flóknara efni. Rjett er að geta þess, að frv. var þó sæmilega skýrt frá hinum upprunalegu flutningsmönnum þess, svo að vitleysan er komin inn hjá Nd.-nefndinni. Tillögur hennar eru álíka vitlausar, en ekki eins skemtilegar eins og greinin í búnaðarritinu hjá Mark Twain og er eitthvað á þessa leið: Mykja er snotur fugl, sem verpir snemma í janúar. — Um gulrófurnar sagði hann, að þær væru fjarskalega viðkvæmar, svo að best væri að senda dreng upp í trjeð, til að tína þær, en láta þær ekki detta niður, til þess að koma í veg fyrir, að þær sködduðust.

Jeg hefi aðeins viljað benda á, hvernig þetta frv. var, þegar það kom frá hv. Nd., um leið og við nú afgreiðum málið aftur til þeirrar hv. deildar.