24.04.1929
Neðri deild: 53. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2942 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

128. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Magnús Jónsson:

* *Ræðuhandr. óyfirlesið. Hv. 1. flm. er ekki viðstaddur til þess að mæla með þessu frv. og fylgja því úr hlaði. Málið er í sjálfu sjer ákaflega einfalt, enda er grg. frv. ekki nema örfáar línur, og ef menn hafa ekki þegar lesið þær, geta þeir lesið þær snöggvast og komist að raun um, hvað hjer er á ferðum. Jeg vona, að hv. þdm. rugli ekki þessu frv. saman við annað frv. samnefnt, sem hjer var á döfinni fyrir skömmu og sem mjög þótti orka tvímælis, hvort rjett ætti á sjer. Um þetta frv. er alt öðru máli að gegna, því í þessu tilfelli orkar jafnlítils tvímælis eins og eldra frv. þótti orka mikils tvímælis. Jeg vil því beina þeirri ósk til hv. þdm., að þeir lofi máli þessu að ganga til nefndar. Málið er ekki flókið, og jeg geri fastlega ráð fyrir, að n, ljúki fljótlega við það, svo að það verði ekki að ófyrirsynju, að það sje látið ganga til nefndar.

Eins og grg. ber með sjer, hefir þetta mál hlotið þann undirbúning, sem eldra frv. þótti skorta, sem sje að leitað hefir verið álits og umsagnar hlutaðeigenda. Hafa báðir aðilar, bæjarstjórn Reykjavíkur og hreppsnefnd Mosfellshrepps, komið sjer saman um málið með þeim skilmálum, sem í frv. greinir, enda flytjum við frv. samkv. tilmælum bæjarstj.

Jeg sje nú, að tveir hv. þdm. hafa þegar kvatt sjer hljóðs, svo að útsjeð er um, að málið verði afgr. á þessum fundi. Sennilega vakir fyrir þessum hv. þm. að tefja málið nokkra daga, í von um að geta á þann hátt varnað því framgangs. Það er rjett athugað, enda er málinu mjög hætt, alt hvað líður, en jeg vil eigi að síður beina þeim tilmælum til hv. deildar, að hún leyfi málinu að fara til n. nú þegar, því ekki ætti það eitt að saka. Skal jeg svo ekki lengja umr. að sinni og leyfi mjer að leggja til, að málinu verði vísað til allshn.