24.04.1929
Neðri deild: 53. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2943 í B-deild Alþingistíðinda. (1880)

128. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Ólafur Thors:

Það var heldur ekki rjett hjá hv. 1. þm. Reykv. að fullyrða, að jeg væri á móti þessu máli. Það stendur alt öðruvísi á um þetta mál en um hið samnefnda frv., sem nú er komið fyrir kattarnef. En jeg bendi þó á það, að sá undirbúningur, sem slík mál eiga og þurfa að hafa, hefir alls ekki verið gerður í þessu máli. Það er að vísu rjett, að samkomulag hefir orðið milli tveggja aðilanna, hreppsins og bæjarstjórnarinnar, en álits þriðja aðilans hefir ekki verið leitað, sem sje sýslunnar. Mig minnir, að það sje í 42. gr. sveitarstjórnarlaganna skýrt ákvæði um það, að áður en slík skifti fari fram, þurfi samþykki bæði hlutaðeigandi hreppa og sýslunnar. — Það er ekki ein báran stök hjá þessum hv. þm. Reykv. Það er engu líkara en þeir tapi ráði og rænu, þegar þeir taka allir höndum saman um eitthvert mál. Þó eru a. m. k. tveir þeirra mjög greindir og greinagóðir menn, en það er eins og þeim fatist jafnskjótt sem þeim verður á að leggja lag sitt við samþingismenn sína, jafnaðarmennina.

Þetta mál er ekki undirbúið sem skyldi; það er alger misskilningur hjá hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. Mýr. En jeg skal benda á það í þessu sambandi, að sýslufundur kemur saman um 29. þessa mánaðar, og er þá hægt að leita umsagnar hans um málið. Jeg get gengið inn á, að málið fái að fara til n., en hinu verð jeg harðlega að mótmæla, að málinu sje ráðið til endanlegra lykta að sýslunni fornspurðri.