24.04.1929
Neðri deild: 53. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2945 í B-deild Alþingistíðinda. (1882)

128. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Magnús Jónsson:

* *Ræðuhandr. óyfirlesið. Jeg skal með ánægju biðjast afsökunar á þeim getsökum, sem jeg gerði þessum tveim hv. þm., sem nú hafa talað í þessu máli. Vil jeg tjá þeim þakklæti fyrir undirtektir þeirra. Að svo mæltu þarf jeg litlu við að bæta. Hv. þm. Mýr. hefir sýnt fram á, hvernig ráða má máli þessu til lykta á allan löglegan hátt, með því að láta það ganga umsvifalaust til 2. umr. og leita því næst umsagnar sýslufundar, þegar hann kemur saman. En annars býst jeg satt að segja við, að ef hlutaðeigandi hreppur og bæjarfjelag ljá slíkum skiftum samþykki sitt, þá þurfi ekki að spyrja sýslunefnd frekar um leyfi. Það mun vera óhætt að ætla, að hlutaðeigandi hreppur gæti sinna hagsmuna, og ef svo er, þá má treysta því, að hreppurinn, sem gæðin lætur af hendi, muni vera eins dugleg stoð undir efnahag og afkomu sýslunnar í heild eftir sem áður. Jeg held því, að þetta ákvæði, sem hv. 2. þm. G.-K. var að vitna í, muni hafa verið sett vegna þeirra tilfella, að um algerða innlimun hreppa væri að ræða. En annars skal jeg ekki rökræða um þetta atriði, fyrst á annað borð er hægt að leita álits sýslunefndarinnar.