02.04.1929
Efri deild: 34. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2949 í B-deild Alþingistíðinda. (1902)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, er borið fram af hæstv. stj., og nú hefir sjútvn. haft það til meðferðar. N. er öll sammála um, að frv. eigi fram að ganga, en aftur á móti er hún ekki sammála um allar brtt., sem fram eru komnar. Með l. frá síðasta þingi var ákveðið að stofna verksmiðju til bræðslu síldar, og þar sem þau l. munu koma til framkvæmda svo fljótt sem hægt er, er sjálfsagt að setja lög um rekstur síldarverksmiðju. Jeg skal svo víkja nokkrum orðum að þeim breyt., sem öll n. er sammála um, að þurfi að gera á frv.

Brtt. okkar nm. eru á þskj. 220. Sú fyrsta er við 3. gr., að aftan við hana bætist ný málsgr. Gr. sjálf er þess efnis, að áður en árleg starfræksla hefjist skuli leita loforða íslenskra útgerðarmanna um lágmarksviðskifti við verksmiðjuna. Á svo að ákveða með hliðsjón af hinu áætlaða viðskiftamagni, hvort verksmiðjan verði rekin það ár, en hvergi er gert ráð fyrir, að framboð á bræðslusíld geti orðið of mikið. Þess vegna leggur n. til, að þessi viðauki sje settur, að ef framboðið verður meira heldur en verksmiðjan getur unnið úr, þá sje tekið hlutfallslega jafnt af öllum umsækjendum.

Önnur brtt. er við 5. gr., þess efnis, að bæta við orðum í gr. 1 gr. stendur, að síldarbræðslunni skuli skylt að láta af hendi við samvinnufjelög bænda nokkuð af árlegri framleiðslu sinni. N. vildi ekki einskorða þetta svo mjög við samvinnufjelögin, en taldi rjettara að fara heldur eftir ákvæðunum í 1. um tilbúinn áburð, og tók því það orðalag, sem er á þeim l.

Þriðja brtt. er við 8. gr. frv. Gr. gerir ráð fyrir, að verksmiðjan kaupi síld af útlendingum, ef sjerstaklega stendur á. Þessi ráðstöfun getur auðvitað haft í för með sjer ýmist hagnað eða tap. N. taldi rjettast að blanda þessu ekki saman við árlegan rekstur verksmiðjunnar og láta hagnaðinn renna óskiftan í varasjóð, enda beri hann tapið af kaupunum, ef nokkuð verður. — 4. brtt. er aðeins leiðrjetting, þannig, að greinatala frv. breytist samkv. atkvgr.

N. var öll sammála um þessar brtt., og var alls enginn ágreiningur um þær. Aftur á móti var hv. þm. Snæf. ekki fyllilega ánægður með fyrirmæli 7. gr., og flytur hann sjerstaka brtt. við hana á þskj. 239. Hann tók það fram í n., að hann legði svo mikla áherslu á þessa brtt. sína, að það væri algerlega undir framgangi hennar komið, hvort hann greiddi frv. atkv. eða ekki. Jeg ætla samt ekki að tala um þessa brtt. fyr en hv. þm. Snæf. hefir tekið til máls og gert grein fyrir henni.