02.04.1929
Efri deild: 34. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2951 í B-deild Alþingistíðinda. (1903)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Halldór Steinsson:

Þótt jeg sje ekki ánægður með þetta frv., vildi jeg samt ekki kljúfa n., meðfram af því, að hv. meðnm. mínir gengu inn á ýmsar breyt., sem jeg taldi til bóta. Þeir vildu samt ekki fallast á aðrar brtt. en þær, sem eru á þskj. 220, og þess vegna skrifaði jeg undir nál. með fyrirvara.

Í 7. gr. frv. er svo ákveðið, að stj. verksmiðjunnar skipi þrír menn, einn tilnefndur af atvmrh., annar af stj. síldareinkasölunnar, og sá þriðji af bæjarstj. Siglufjarðarkaupstaðar. Nú stendur svo á um þetta mál, að það eru aðallega tveir aðilar, sem að fyrirtækinu standa, ríkisstj., sem rekur það, og útgerðarmenn, sem hafa þar viðskifti. Það er því ekki nema rjettmætt, að þessir tveir aðilar hafi jafnan rjett til að ráða, hvernig stjórn verksmiðjunnar er skipuð, en eins og frv. nú er, er annar aðilinn með öllu sviftur íhlutunarrjetti um stjórnina. Þetta fanst mjer mjög ósanngjarnt, og ber þess vegna fram brtt. á þskj. 239, sem fer fram á, að stjórn verksmiðjunnar sje skipuð þrem mönnum; einum skipuðum af atvinnumálaráðherra, einum af stjórn síldareinkasölunnar, og einum tilnefndum af útgerðarmönnum, þeim er hafa viðskifti við verksmiðjuna. Er þetta mjög í hóf stilt, að annar aðalaðili skuli fá að ráða 1/3 stj. Mjer hefir líka dottið í hug, að sanngjarnara væri að láta hæstv. ríkisstj. skipa einn mann í stjórnina, útgerðarmenn annan og Fiskifjelagið þann þriðja. Með því fá útgerðarm. og ríkisstj. jafnan rjett til þess að skipa stjórnina, og mun það rjettlátast, þótt jeg hafi ekki komið fram með það. Ætti landbúnaðurinn hjer hlut að máli, þannig að verið væri að setja á stofn verksmiðju til þess að vinna úr landbúnaðarafurðum, þá mundi áreiðanlega koma fram sú krafa, að bændur og Búnaðarfjelag Íslands fengju íhlutunarrjett um skipun stj., og væri það ekki nema rjettmætt. En ef þetta er rjett gagnvart landbúnaðinum, þá á sjávarútvegurinn að njóta sama rjettar, þar sem hann er annar aðalatvinnuvegurinn. Brtt. mín fer þannig aðeins fram á hina fylstu sanngirni, og vona jeg, að hv. d. líti svo á og samþ. hana.