02.04.1929
Efri deild: 34. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2954 í B-deild Alþingistíðinda. (1906)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Halldór Steinsson:

Jeg vil þakka hæstv. forsrh. fyrir, hve vel og liðlega hann tók í brtt. mína. Hann taldi fulla sanngirni, að útgerðarmenn fengju fulltrúa í stjórn verksmiðjunnar, en það væri agnúi á brtt. minni, að Siglufirði væri kipt úr stj. Þetta kann að vera rjett, að Siglufjörður hafi sett þetta skilyrði fyrir sínu framlagi til verksmiðjunnar, og skal jeg játa, að mjer er ekkert kappsmál að svifta Siglufjörð sínum fulltrúa, fyrst svona stendur á. Ef brtt. mín fellur núna, þá get jeg komið með aðra brtt. við 3. umr., þess efnis, að láta fulltrúa síldareinkasölunnar víkja fyrir fulltrúa útgerðarmanna. Jeg get ekki sjeð, að hún eigi rjett á að hafa mann í stj. verksmiðjunnar fremur en margir aðrir aðilar, og miklu síður en útgerðarmenn. Jeg var satt að segja í miklum vafa um það, hvorum aðilanum jeg ætti að kippa burtu, síldareinkasölunni eða Siglufjarðarkaupstað. Jeg mun til þrautar samþykkja, að 5 manna stj. verði skipuð, ef þessi brtt. mín fellur, en ef hún fellur, mun jeg koma með aðra við 3. umr. og láta þá fulltrúa síldareinkasölunnar falla burt.