29.04.1929
Neðri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2966 í B-deild Alþingistíðinda. (1924)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Eins og menn muna, stóð á síðasta þingi allsnörp deila um þetta mál. Í fyrsta lagi um það, hvern þátt ríkissjóður skyldi eiga í því að reisa þessar stöðvar, og í öðru lagi um, hvernig rekstrinum skyldi hagað. Við íhaldsmenn vildum hafa fyrirkomulagið þannig, að það skapaði sem minsta áhættu fyrir ríkissjóðinn. Hinsvegar vildu jafnaðarmenn hafa á þessu hreinan ríkisrekstur.

Þegar leið að lyktum á meðferð þessa máls á síðasta þingi, kom hv. þm. V.-Ísf. fram með till. um það, að ef þessar stöðvar yrðu seldar, skyldu þær ekki seldar öðrum en þeim, sem rækju þær með samvinnusniði. En hann fjell frá þeirri till. eftir að hæstv. atvmrh. hafði lýst því yfir, að slíkt mundi ekki eiga sjer stað í sinni stjórnartíð.

Mjer er það ánægja, að hæstv. atvmrh. hefir að vissu leyti sýnt viðleitni til að aðhyllast þær óskir, sem íhaldsmenn báru fram á síðasta þingi. Þó þykir mjer allmiklir gallar á þessu máli, bæði eins og hæstv. stj. lagði það fyrir þingið og eins og hv. Ed. hefir gengið frá því.

Að vísu er með frv. trygt, að ekki verði tekinn upp beinn ríkisrekstur, en hinsvegar er frv. mjög gallað í veigamiklum. atriðum, og skal jeg þá fyrst og fremst þar til nefna ákvæði 4. gr. frv. Við þau hefi jeg margt að athuga, m. a. það, að frádráttur sá af andvirði innlagðrar síldar, sem þar er gert ráð fyrir, virðist með öllu óeðlilegur. Fyrst á að draga frá stjórnarkostnað og annan eðlilegan rekstrarkostnað, og þá væntanlega einnig vexti af þeim höfuðstól, sem fyrirtækið starfar með. Er slíkt ekki nema eðlilegt.

Í öðru lagi á að draga frá 5% af stofnkostnaði stöðvarinnar. Þetta er einnig eðlilegt ákvæði. Mjer virðist ekki sæmilega trygt að hafa þetta minna, ef miðað er við, að stöðin endist í 20 ár. Það virðist fullkomlega eðlilegt, að viðhaldið sje talið með rekstrarkostnaði, og geng jeg þá út frá, að 5% nægi fyrir fyrningu. Það er vitanlega ekki nóg nema því aðeins, að mjög vel sje vandað til vjela og bygginga. En jeg geri ráð fyrir, að þess megi vænta; a. m. k. er svo ráð fyrir gert í þeirri áætlun, sem hv. 3. landsk. hefir samið.

Ef jeg man rjett, er stofnkostnaðurinn áætlaður 800 þús. kr., auk lóða og mannvirkja, sem fyrir eru á þeim lóðum, sem gert er ráð fyrir, að notaðar verði á Siglufirði.

Jeg hefi þá ekkert að athuga við fyrstu 2 frádráttarliðina. En auk þess er ætlast til, að 5% sjeu dregin frá fyrir fyrningu. í húsum, áhöldum og öðrum mannvirkjum, og loks undir 4. lið 4. gr. 5% í varasjóð.

Jeg vil nú spyrja hæstv. forsrh., hvað sje átt við með 5% í 4. lið. Hvort þetta gjald á að reiknast af stofnkostnaði eða af umsetningu verksmiðjunnar, og ef miðað skal við umsetningu, hvort þá er átt við innkaups- eða útsöluverð síldarinnar. Svar við þessu gefur frv. sjálft ekki, og það hefir heldur ekki komið fram í umr. um málið.

Ef nú má ganga út frá því, sem eftir frv. virðist liggja næst að halda, að 4. liður eigi við sama og 3. liður, þá er þarna lagður skattur á viðskiftamenn verksmiðjunnar, sem mundi nægja til þess að greiða allan stofnkostnað verksmiðjunnar á 20 árum og jafnframt til að mynda sjóði, sem eftir 20 ár gætu numið ca. 5 milj. króna.

Þegar jeg nefni þessa upphæð, þá miða jeg við, að það fje, sem þannig safnast, verði jafnóðum lagt í rekstur einnar eða annarar stöðvar og henni reiknaðir bankavextir sem af hverju öðru láni.

Mjer virðist þetta nokkuð hart að gengið, að slíkur skattur sje lagður á smábátaútveginn, að hann skuli, fyrir það eitt að fá að skifta við verksmiðjuna, verða að greiða allan stofnkostnað hennar á 20 árum og auk þess mynda sjóð, sem að þessum 20 árum liðnum mundi nema ca. 5 milj. kr. Auk þessa er sú kvöð lögð á útveginn, að hann er skyldaður til að selja bændum það, sem þeir þurfa til sinna þarfa af síldarmjöli, „við kostnaðarverði“.

Frumkvöðull þessa máls mun hafa verið fyrv. fjmrh. (MK), sem nú er látinn, Jeg held, að jeg fari rjett með, þegar jeg segi, að það hafi verið hans vilji, að smáskipaútveginum yrði hjálpað með þessu án sjerstakra viðurlaga, og allra síst svo þungbærra sem þeirra, er felast í frv. Jeg vil þessu til sönnunar, með leyfi hæstv. forseta, lesa hjer nokkur ummæli fyrv. fjmrh. við umr. um málið á síðasta þingi. Hann komst m. a. svo að orði:

„Jeg vil, að verksmiðjan komist upp og ríkið taki að sjer að starfrækja hana, þannig að framleiðendurnir kæmu afla sínum til vinslu. Þetta á ekki að vera gróðafyrirtæki fyrir ríkissjóð, heldur gert til þess að ljetta undir með atvinnuvegunum og fyrirbyggja, að afurðirnar ónýtist í höndum framleiðendanna….“

Þannig talaði fyrv. fjmrh. um þetta mál, og finst mjer í þessum ummælum hans kenna ólíkt meiri hlýju til atvinnuveganna en lesa má út úr frv. hæstv. atvmrh., sem nú liggur hjer fyrir.

Jeg hygg þó hinsvegar, að hjer valdi meira um hjá hæstv. ráðh. skortur á þekkingu á þessu máli, og vil jeg þá um leið skjóta því að honum, að hann ljet svo um mælt á síðasta þingi, að hann mundi ekki ganga framhjá mjer nje öðrum kunnugum mönnum, þegar til þess kæmi að ákveða, hvernig rekstrinum skyldi hagað. Þó að hæstv. ráðh. hafi ekki leitað minna ráða í þessu efni, þá vænti jeg, að enn sje ekki of seint að koma fram með nokkrar bendingar í þessu máli, og vænti jeg, að hann taki þær til greina, ef honum sýnast þær á viti bygðar.

Þessi 10%, sem þannig á að taka af smábátaútgerðinni, er allþungur skattur. Ef miðað er við þann stofnkostnað, sem hv. 3. landsk. gerir ráð fyrir í áætlun sinni, yrði þessi aukaskattur um 70–80 þús. kr. á ári. Mundi skatturinn þá geta orðið 3000–5000 kr. fyrir hvern bát árlega, og fyrir togara gæti hann auðveldlega komist upp í 10–12 þús. kr. á ári. Jeg skal ennfremur geta þess, að ef miðað er við minstu vinslu, sem hv. 3. landsk. telur, að slík verksmiðja þurfi að hafa til þess að geta borið sig, mundi skatturinn samtals nema 2–3 kr. á hvert mál síldar, sem bátarnir legðu til vinslu. Jeg hefi haldið því fram, að aukaskatturinn væri óþarfur. Það kann að vera, að vjefengja megi þessi ummæli mín að einhverju leyti. Ef ríkið á að eiga verksmiðjuna, gæti komið til greina, að varasjóðsframlagið þyrfti að vera. En það er ekki gert ráð fyrir því, að þessi verksmiðja verði áhættufyrirtæki. (SE: En ef engin síld fæst til vinslu, gæti það ekki skapað áhættu?). Það er „praktiskt“ talað útilokað, að það verði, svo fremi sem verksmiðjan yrði starfrækt Hinsvegar gæti síldin orðið lítil, en þá yrði skatturinn þeim mun þyngri á framleiðendum. Að vísu verður ekki sagt fyrir, hve mikil aflabrögð verði hvert árið, en lögin mæla svo fyrir, að verksmiðjan verði ekki rekin nema fyrirfram sjeu henni trygð viðskifti við hæfilegan fjölda báta. (SE: En ef verksmiðjan stendur auð, leiðir það ekki af sjer áhættu?). — Já, nú kem jeg að því. Aðaláhætta ríkissjóðs liggur í því, að fyrirtækið verði ekki starfrækt sökum þess, að því eru ekki trygð nægileg viðskifti. Því auðvitað þarf þó fyrirtækið að greiða vexti af höfuðstól, vátryggingargjöld o. fl. og laun til þeirra starfsmanna, sem nauðsynlegt er, að sjeu fastráðnir við verksmiðjuna, og skapast af þessu nokkur áhætta, þótt hún sje tiltölulega lítil. Ennfremur er hugsanlegt, þegar búið væri að reisa þessa stöð fyrir eina milj. kr., að verðfall gæti orðið sökum þess, að fundist hefðu betri tæki til vinslunnar. Þá áhættu, sem af þessu myndi leiða, er ekki hægt að reikna út. Að minni hyggju er þessari áhættu rjett fyrir komið með því að halda eftir eðlilegum hluta af andvirði vörunnar fyrir hugsanlegri áhættu, sem lagður yrði í varasjóð, en framleiðendur sjálfir eignuðust hluta í sjóðnum, eins og er um sjóði samvinnufjelaganna. Yrði þessu öllu best fyrir komið með því, að ríkið selji samvinnufjelagi stöðina.

Vona jeg, að hæstv. atvmrh. geti sætt sig við, ef borin er fram till., sem hnígur að því, að þeir, sem skifta við fyrirtækið, hafi þennan rjett samvinnumanns og eignist hlutdeild í sjóði hvers árs, sem stendur í rjettu hlutfalli við það magn, sem þeir hafa lagt til’ bræðslustöðinni, og heildarmagn stöðvarinnar hinsvegar. Sje jeg ekki, að framleiðendur geti haft neitt á móti þessu, svo framarlega sem þeir eignast sjóðinn sjálfir. Ef hæstv. atvmrh. vildi ganga inn á þetta, myndi jeg flytja brtt. við 4. gr., að 3. liðurinn fjelli niður, en 4. liðurinn, gjald í varasjóð, væri tekinn á þann veg, sem jeg hefi áður sagt. En helst kysi jeg þó, að hrein sala færi fram til samvinnufjelagsframleiðenda.

Jeg sje, að hæstv. dómsmrh. er byrjaður á hinum vanalegu hvíslingum sínum, og vil jeg því leyfa mjer að minna á það, þegar hann heimtaði, að hringt yrði á mig um daginn, er jeg var að tala við hv. 1. þm. Reykv. undir ræðu hans. Jeg hefi ekkert á móti því, að þetta komi fram í þingtíðindunum, til þess að sýna hlutdrægni þess forseta, er þá var í forsetastóli, en það var hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ). (Forseti BSv: Jeg sje ekki ástæðu til þess fyrir hv. 2. þm. G.-K. að víta forseta Nd., sem þá var, fyrir það, að hann hafi tekið rangt á málum hv. þm.). Jeg skal ekki deila við hæstv. forseta um þetta atriði, en hæstv. forseti var ekki viðstaddur er þetta kom fyrir. Skal jeg fullyrða, að slíkt hefði aldrei átt sjer stað, ef hann hefði setið í forsetastóli — og læt jeg svo útrætt um þetta mál.

Það má ekki gera skilyrðin of óaðgengileg fyrir þá, sem skifta við verksmiðjuna. Um leið vil jeg geta þess, að það var hugsjón hins látna fjmrh., Magnúsar Kristjánssonar, að styðja smábátaútveginn með þessu fyrirtæki. Ef nú á að taka 10% af andvirði vörunnar og leggja í sjersjóð, sem ríkið á að eiga, en ekki framleiðendurnir sjálfir, og auk þess er framleiðendum ekki greidd nema 70% út á andvirði vörunnar, þá gæti þetta fyrirkomulag orðið til þess, að menn skiftu síður við fyrirtækið, en það gæti aftur leitt af sjer þá hættu, að bræðslustöðin stæði ónotuð ýms ár, sem annars væri hægt að starfrækja hana með fullum krafti.

Jeg lít svo á, að ríkið eigi að sjálfsögðu ekki að hafa neina áhættu af þessu fyrirtæki, en það á ekki heldur að gera sjer það að fjeþúfu. Ef að minni till. yrði farið, myndi endir málsins verða sá, að eftir 20 ár væri fyrirtækið að fullu greitt, en framleiðendur hefðu þá eignast allálitlegan sjóð. Með því gæti afskiftum ríkisins verið lokið, og mætti þá t d. hugsa sjer, að framleiðendur hagnýttu sjer sjóðinn á þann hátt að reisa fleiri bræðslustöðvar á landinu, en þá ættu eigendur sjóðsins að fá fulla vexti, til þess að hann gæti orðið þeim að einhverjum notum. — Þetta eru höfuðaðfinslur mínar við frv., en nú vil jeg benda á nokkur smærri atriði.

í 3. gr. frv. er svo fyrir mælt, að áður en árleg starfræksla hefjist skuli stj. verksmiðjunnar leita loforða útgerðarmanna um lágmarksviðskifti við verksmiðjuna, og skal áætlun um viðskiftamagnið vera fyrir hendi 15. júní ár hvert. Verður þá ákveðið, hvort verksmiðjan skuli starfrækt eða ekki. Þetta þykir mjer alt of seint. Menn fá þá ekki vitneskju um það fyr en seint í júní, hvort þeir öðlast viðskifti við verksmiðjuna eða ekki, en þá er síldveiði oft byrjuð, sem kunnugt er. Þetta er mjög bagalegt fyrir væntanlega viðskiftamenn verksmiðjunnar, sem bera vonir í brjósti um að öðlast viðskifti við verksmiðjuna, en verði hún ekki starfrækt, hafa þeir setið sig úr færi með að semja um viðskifti við aðrar verksmiðjur. Það liggur í augum uppi, að af þessu getur hlotist stórtjón.

Um fyrirmæli 5. gr., að verksmiðjunni sje skylt að selja við kostnaðarverði síldarmjöl til bænda fyrir milligöngu samvinnufjelaga, hreppsfjelaga og búnaðarfjelaga, hefi jeg ekki annað að segja en að mjer finst þetta ákvæði fremur lítils virði og ástæðulaust að leggja kvöð á viðskiftamenn verksmiðjunnar bændum til hagsmuna. Jeg hefi heyrt það eftir hæstv. atvmrh., að þegar hlaupið sje undir bagga með sjávarútveginum, sje ekki nema sjálfsagt, að landbúnaðurinn njóti þar góðs af.

Annars er þetta aukaatriði, sem jeg geri ekki mikið úr. Þó vil jeg spyrja hæstv. atvmrh. að því, hvað átt sje við með kostnaðarverði, því að í það orð má leggja margvíslegan skilning. Ef átt er við kostnaðarverð framleiðslunnar á síldarmjöli, getur þetta auðveldlega orðið hærra á einstökum árum en gangverð síldarmjöls á heimsmarkaðinum. Vænti jeg þess, að hæstv. ráðh. skýri, hvað átt er við með þessum fyrirmælum, því að það er nauðsynlegt, að þau sjeu skýrð. Kostnaðarverð gæti meðal annars þýtt það, að taka ætti gangverð síldar og leggja til grundvallar, bæta síðan við kostnaðinum við vinsluna og telja útkomuna kostnaðarverð mjölsins. Ennfr. vil jeg benda á það, að slíkt kostnaðarverð á síldarmjöli er háð olíuverðinu, ef á að leggja gangverð síldar til grundvallar. (Forsrh.: Það er ekki meiningin).

Kem jeg þá að ákvæðum 7. gr. um skipun á stj. fyrirtækisins. Þar er svo fyrir mælt, að stjórnina skipi þrír menn, og skipar atvmrh. einn þeirra, stj. síldareinkasölunnar annan og bæjarstjórn Siglufjarðar þann þriðja. — Mjer þykir eðlilegt, að á meðan ríkið er eigandi fyrirtækisins eigi það einn mann í stj. þess. Ennfremur finst mjer sanngjarnt, að Siglufjarðarkaupstaður, sem leggur fje af mörkum til verksmiðjunnar, skipi einn stjórnanda hennar. Hinsvegar finst mjer ekki eðlilegt, að síldareinkasalan skipi mann í stjórnina, einkum ef með því á að meina viðskiftamönnum verksmiðjunnar að eiga þar sinn fulltrúa. Atvmrh. er vandalaust að velja sinn fulltrúa í stjórnina með það fyrir augum að tryggja eðlilegt samband milli einkasölunnar og bræðslustöðvarinnar.

Jeg rak mig á það í ræðu hv. 2. þm. S.-M., sem á sæti í hv. Ed., að hann hafði rökstutt nauðsyn þess, að einkasalan skipaði einn mann, með því, að einkasölunni væri nauðsynlegt að tryggja sínum viðskiftamönnum viðskifti við bræðslustöðina. Þetta er ekki alveg hættulaus misskilningur. Því að þegar verksmiðjan er búin að tryggja sjer viðskiftamenn, verða þeir auðvitað að ganga fyrir, og má þá ekki krefjast þess, að hún taki á móti síld frá viðskiftavinum síldareinkasölunnar, en það eru svo að segja öll íslensk skip, sem síldveiði stunda. Gætu viðskiftamenn verksmiðjunnar þá átt það á hættu að verða útilokaðir, vegna þess að bræðslustöðin tæki við ósamningsbundnum aðiljum. Jeg vil taka það fram, að jeg sem útgerðarmaður myndi aldrei byggja útgerð mína á slíkum viðskiftum. Jeg mundi fyrst spyrja þess, hve mörg skip bræðslustöðin hefði gert samninga við. Ef hún hefði gert samninga við óeðlilega stóran skipastól, þyrði jeg sem seljandi ekki að skifta við verksmiðjuna. í góðu veiðiári gæti það komið fyrir, að öll afgreiðsla stöðvaðist vegna þess, að of mikið bærist að bræðslustöðinni, og stafar af því hin mesta áhætta fyrir samningsbundna viðskiftavini. Það verða að vera skýr fyrirmæli um það, að þeir viðskiftavinir verksmiðjunnar, sem fyrirfram gera samning um viðskifti, eigi algerlega forgangsrjett á því, að leggja sína síld inn til bræðslu.

Vænti jeg þess, að hæstv. atvmrh. geti aðhyllst það, að kröfurjettur framleiðendanna er miklu ríkari og rjettmætari en kröfurjettur síldareinkasölunnar til að skipa eitt sætið í stj. þessa fyrirtækis.

Mjer finst rjettur framleiðenda, þeirra sem síldina veiða, svipaður og rjettur bænda í samvinnufjelagi til að ráða nokkru um stj. fyrirtækisins.

Þá vil jeg minnast á ákvæði 8. gr. Þar er svo fyrir mælt, að ef sjerstaklega stendur á, þá megi veita verksmiðjunni heimild til að kaupa síld í bræðslu af erlendum skipum. Jeg er nú mótfallinn þessu ákvæði af mörgum ástæðum. Hingað til hafa þær útlendu bræðslustöðvar, sem nú eru hjer, sótt mjög eftir því að fá að kaupa af útlendum skipum síld í bræðslu. Jeg hygg nú, að þeim málum sje loks svo komið, að við sjeum að mestu orðnir lausir við þá áleitni og kvaðir. Hygg jeg, að hæstv. atvmrh. hafi sjálfur gengið vel fram í því, og á hann þakkir skilið fyrir það. Hann hefir litið á hag Íslendinga í þessu efni .og neitað um kaup á síld frá útlendum skipum. En jeg kann því illa, þegar þessu er nú loks í liðinn kipt, að það sje tekið upp aftur og íslenskar verksmiðjur látnar fá meiri rjett um þetta. Og mjer er eigi grunlaust um, að nokkur hætta geti af þessu stafað fyrir okkur út á við. Ef þetta ákvæði er ekki haft í lögum, er okkar aðstaða góð. En aðstaða okkar gagnvart útlendingum byggist á því, að við getum sagt, að hjer sje margfaldlega nógur skipastóll til að fullnægja eftirspurninni. Það er þetta, sem gerir aðstöðu okkar sterka út á við. Inn á við held jeg, að þetta hafi fremur litla þýðingu og að það yrði sjaldan notað.

Þetta mikla mál hefir í raun og veru enn verið mjög lítið rætt í nefnd. Það var lauslega tekið fyrir á einum fundi og þá lauslega rætt. En málið þarf rækilegrar athugunar við enn, áður en það er samþ. að fullu. Vona jeg, að samkomulag náist við hæstv. atvmrh. um nauðsynlegar breyt. á þessu til 3. umr.