01.05.1929
Neðri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3004 í B-deild Alþingistíðinda. (1933)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Það mun nú vera svo hjer sem í öðrum málum, að lítill gróði er að löngum umr. Er þess og síst að vænta, að þær leiði til mikils árangurs.

Jeg verð að segja, að jeg byggi meira á því starfi, sem hefir verið unnið í n., en umr. Hv. frsm. minni hl.. hefir talað mjög hóglega og vingjarnlega um frv. og væntanlegar breyt. á því. Jeg finn því ekki ástæðu til að svara orði til orðs einstökum aðfinslum, og þó að mjer virðist sumstaðar kenna misskilnings í umr., held jeg, að jeg verði að vona og byggja á því, að menn geti komið sjer saman um aðalatriðin. Jeg ætla, að af hv. 4. þm. Reykv. hafi verið vikið að stj. stofnunarinnar eins og gert er ráð fyrir í 7. gr., að hún verði. Jeg verð að segja, að jeg hefi enga trú á, að betur færi, þó að stj. yrði fjölmennari og við bættust fulltrúar viðskiftavina og verkamanna. Mjer finst, að eins og fyrirkomulagið er hugsað, hafi þeir enga þörf á að eiga þar talsmann. Mjer virðist, að þeirra hagsmuna muni verða gætt eftir reglunum um rekstur fyrirtækisins. Og varla þurfa þeir að hafa talsmann til að gæta þess, að ekki verði ranglega bókfært það, sem bókfæra þarf.

Hv. 4. þm. Reykv. tók það rjettilega fram, að síldareinkasölunni væri nauðsynlegt að hafa þarna mann í stjórn. Samvinnan hlýtur að verða talsvert náin á milli síldareinkasölunnar og þessarar stofnunar.

4. gr. frv. hefir verið skilin misjafnlega af einstökum ræðumönnum. Jeg verð að segja, að þar sem upphafið er á þessa leið: „Eigendum skal greitt söluverð afurða þeirrar síldar, sem tekin er af þeim til vinslu, að frádregnum þeim kostnaði — —“ o. s. frv., getur ekki verið að ræða um annað en söluverð afurða. Það er ekki stofnkostnaður fyrirtækisins, sem miðað er við, nema í 2. og 3. lið. Með hliðsjón af þessu hefir ýmsum virst, að einkum gjaldið í varasjóð, sem um ræðir í 4. lið, sje of hátt. En reynslan verður að skera úr um þetta. Mjer finst áhættan töluvert mikil, og jeg get vel ímyndað mjer, að varasjóðurinn sje a. m. k. fyrst í stað ekki svo sterkur, að hann sje einhlítur, ef óhöpp ber að höndum.

Það er vissulega um fleiri tegundir áhættu að ræða en þær, sem hv. frsm. minni hl. tók fram. Jeg skal t. d. nefna eina tegund áhættu, sem er ekki langt undan landi. Það getur komið ísrek á miðju sumri, sem getur stöðvað veiðina. Það geta líka komið fyrir óhöpp vegna óveðurs. Varasjóðstillagið er því a. m. k. ekki óhæfilega hátt til að byrja með. Aðrir liðir 4. gr. skilst mjer, að ekki sjeu of háir; þeir eru meira að segja ef til vill of lágir.

Einhver hv. ræðum. fann að því, að samkv. ákv. 9. gr. er verksmiðjan undanþegin aukaútsvari og tekju- og eignarskatti. Þetta er auðvitað nokkuð hart fyrir það bæjarfjelag, sem í hlut á, að verksmiðjan skuli vera undanþegin aukaútsvari. Hitt er engin fjarstæða, þó að ríkissjóður sje sviftur tekju- og eignarskattinum meðan verksmiðjan er ríkisins eign.

Jeg vil ekki tefja tímann með því að fara út í aðfinslur einstakra manna. Jeg get tekið það fram aftur, að líkur benda til þess, að breytingar muni þrautalítið geta komist á í n. og að þá megi líka vænta þess, að þeim verði vel tekið í hv. d.