01.05.1929
Neðri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3014 í B-deild Alþingistíðinda. (1937)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Magnús Jónsson:

* Það er einungis lítil aths. Jeg gleymdi að svara hv. frsm. meiri hl. út af andmælum hans gegn því, er jeg sagði um ákvæði 9. gr., að verksmiðjan eigi að vera undanþegin aukaútsvari, tekju- og eignarskatti. Hann játaði, að það væri að vísu hart fyrir hlutaðeigandi sveitarfjelag að missa aukaútsvarið. Og vitanlega þýðir þetta ekki annað en að það verða lögð þeim mun þyngri gjöld á önnur fyrirtæki og gjaldendur á staðnum. Hv. frsm. sagði, að þetta gerði ríkissjóði lítið eða ekkert til, þó að verksmiðjan yrði undanþegin tekju- og eignarskatti; hann fengi það bætt upp á annan hátt. En þetta er hinn mesti misskilningur; ríkissjóður þarf að fá uppbót á sínum tekjum, ef þessu er kipt burt úr skattalöggjöfinni, og þá verður að þyngja skattinn á öðrum stofnunum og gjaldendum. En ef það á að ljetta skattinum af öðrum samstæðum stofnunum, þá er ekkert við því að segja. Það sjá allir, út á hvaða braut er stefnt, þegar á að undanþiggja eitt fyrirtæki tekju- og eignarskatti. Þegar byrjað er með því að taka atvinnureksturinn af einstaklingunum og láta hann í hendur ríkinu og undanþiggja hann svo opinberum gjöldum, þá eru byrðarnar lagðar á einstaklingana. Að því er aukagjöldin snertir, þá hefði jeg viljað, að það væri eins og í stjfrv. upphaflega, að þau væru látin falla undir 1. liðinn. Jeg veit ekki, hvers vegna á að undanþiggja þá menn gjöldum af þeirri vöru, sem þeir leggja til verksmiðjunnar. — Skal jeg svo ekki tefja umr. lengur.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.