01.05.1929
Neðri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3015 í B-deild Alþingistíðinda. (1938)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Pjetur Ottesen:

Við 1. umr. þessa máls benti jeg á nokkur atriði í þessu frv., sem jeg áleit, að væri þannig varið, að full ástæða væri til, að sú n., sem málinu var vísað til, tæki þau til athugunar.

Eins og þau nál., sem fram hafa komið um þetta mál, bera með sjer, þá hefir það orðið ofan á hjá hv. n. að láta málið koma til 2. umr. án þess að hún bæri fram nokkrar brtt. við það. Þetta þykir mjer harla undarleg afgreiðsla á málinu; Mjer þykir hún undarleg af því, að það er yfirlýst í nál. beggja þessara nefndarhluta, að þeir telji breytingar á frv. meira og minna nauðsynlegar. Það stendur í nál. hv. minni hl. n., að hann telji alveg óhjákvæmilegt að bera fram brtt. við frv., en ætli nú að slá því á frest til 3. umr., þar sem óskað sje eftir því, að málið komi fljótt til 2. umr.

Í áliti hv. meiri hl. n. kemur það skýrt fram, að hann viðurkennir það fullkomlega, að það myndi fara miklu betur á því, að breyt. væru gerðar á þessu frv., því að þeir segja svo, — með leyfi hæstv. forseta:

„ .... en meiri hl., sem að vísu getur fallist á, að nokkrar breytingar geti til bóta orðið, vill ekki tefla málinu í tvísýnu svo seint á þingi með breytingum“.

Í þessu skilst mjer koma fram nokkuð greinileg yfirlýsing meiri hl. um, að þetta frv. sje þannig vaxið, að það væri fullkomin ástæða til að gera á því nokkrar breyt. En þessi viðbára, sem er höfð um, að það myndi verða til þess að sigla málinu í strand, eða tefja það um skör fram, er að mínu áliti ástæðulaus, því að þótt nú sje allmjög liðið á þingið, þá hefir málið þegar gengið í gegnum aðra deildina, og myndi þess vegna vinnast nægur tími til að koma því fram, þótt gerðar sjeu á því verulegar breyt. Og þar sem báðir nefndarhlutar eru sammála um það, að það færi betur að gera breyt. á frv., þá er þar með fengin yfirlýsing um, að það sje almennur vilji, að einhverjar breyt. á frv. nái fram að ganga, og þar sem svona er ástatt, er því síður ástæða til að ætla, að þetta valdi nokkrum óeðlilegum töfum.

Svo hefir hæstv. atvmrh., sem flutti þetta mál, tekið mjög vel í það að samþykkja, að einhverjar breyt. verði gerðar á frv. Það er þess vegna yfirlýst af öllum aðilum, að þeir myndu fúsir til að taka höndum saman um breytingar. En hver verður þá niðurstaðan af því, að hv. sjútvn. fer svona með málið? Hún verður sú, að nú er rætt um málið eins og það lægju fyrir brtt. um öll þau atriði, sem þyrfti að breyta. Svo kemur málið til 3. umr., og þá verða allar umr. teknar upp aftur. Þessi vinnubrögð verða því til þess, að það verða haldnar helmingi fleiri ræður og hafðar helmingi meiri málalengingar en ef farið væri að á eðlilegan hátt. Þetta vildi jeg aðeins benda á, áður en jeg fer nú nánar inn á málið.

Hv. frsm. minni hl. hefir gert að umtalsefni hjer þau atriði, sem jeg benti á við 1. umr. og sem jeg álít, að nauðsynlegt væri að breyta, og auk þess bent á fleiri atriði til athugunar og ef til vill til að breyta. Það er af eðlilegum hætti, að hv. 2. þm. G.-K. hefir tekið margt miklu rækilegar fram um þetta mál en jeg gerði við 1. umr., því eins og allir vita, þá er hv. þm. öllum þessum málum mjög kunnugur, svo að jeg þarf ekki þar við neinu verulegu að bæta. En það er samt út af ummælum, sem hjer hafa fallið um þessi atriði, að jeg vildi segja nokkur orð. Er það þá fyrst í sambandi við þá skýringu, sem hæstv. atvmrh. gaf á því, hvað meint væri með ákvæðunum í 5. gr. um það, að samvinnufjelög, bæjarfjelög, hreppsfjelög og búnaðarfjelög ættu að geta fengið aðgang að því hjá þessari síldarverksmiðju að fá síldarmjöl með kostnaðarverði. Það var vitanl. alveg nauðsynlegt, að það kæmi hjer fram við þessa umr., hvað meint væri með þessu „kostnaðarverði“, því að í þetta orð, kostnaðarverð, má vitanlega leggja mjög mismunandi meiningar. Hæstv. ráðh. lýsti yfir því, að fyrir sjer vekti það verð, sem þeir fengju, sem legðu sína síld inn í verksmiðjuna, það meðalverð, sem þeir fengju að lokum, m. ö. o. það verð, sem fengist hefði á erlendum markaði. Mjer finst, að af þessu geti leitt það, að ekki sje loku fyrir það skotið, að bændur sæti nokkru lakari kaupum en annars, eða gætu mist af betri kjörum, ef þetta verð t. d. hækkaði síðari hluta þess tíma, sem salan fer fram utanlands, svo að það yrði í raun og veru hærra en það, sem hægt hefði verið að kaupa síldarmjöl fyrir. Þess vegna finst mjer, að það geti brugðið til beggja vona um það, hvort yrði meiri hagur að því að kaupa af þessari verksmiðju eða annarsstaðar. En það var annað, sem hæstv. ráðh. benti á, að það væri meiri trygging fyrir því að fá góða vöru heldur en annarsstaðar. Jeg skal ekkert um það segja; það getur verið, þótt það muni náttúrlega geta komið fyrir hjá þessari verksmiðju, að eitthvað beri út af með verkunina eins og hjá öðrum. Jeg hefði litið á þetta sem dálítið hagsmunaatriði fyrir bændur, að þeir ættu ef til vill kost á því að fá síldarmjöl með eitthvað lægra verði en annarsstaðar, og jeg verð að segja það, þegar ríkið leggur fram svona mikið fje til þessa atvinnurekstrar, að það hefði ekki frá mínu sjónarmiði verið neitt ósanngjarnt, þótt bændur hefðu notið einhvers hagnaðar í viðskiftum fram yfir það, sem þeir gætu fengið annarsstaðar. Jeg vildi um leið vekja athygli hv. deildar á því, að það mundi ekki skerða svo öryggi þessa fyrirtækis, að ekki sje þar forsvaranlega fyrir öllu sjeð, þó nokkuð væri slakað til á kröfum þeim, sem gerðar eru til framleiðendanna um sjóðatillög og önnur fjárframlög til verksmiðjunnar. En í notum þess væri það betur trygt en nú er, að bændur fengju nokkra frekari ívilnun í verði þess síldarmjöls, er notað er til skepnufóðurs í landinu.

Þá var allmikið talað um stjórnarfyrirkomulagið á þessu fyrirtæki, og jeg verð nú að segja það, og taka þar undir með hv. frsm. minni hl., að jeg er alveg undrandi yfir þeirri vörn, sem hjer hefir verið færð fram fyrir því, að einn aðilinn í þessu máli er algerlega útilokaður frá því að geta haft nokkuð hönd í bagga með stjórn þessa fyrirtækis, nefnilega útgerðarmennirnir, sem leggja til afurðir sínar. Jeg kem ekki auga á nema þrjá aðila, þá tvo, sem leggja fram fjeð, þ. e. ríkissjóður og Siglufjarðarkaupstaður, en þriðji aðilinn er sá, sem leggur verksmiðjunni til alt hráefnið og sem unnið er fyrir, og það er vitanlega sá aðilinn, sem mest á undir því, hvernig fer um rekstur þessa fyrirtækis. Jeg er alveg undrandi yfir því, að nokkur maður skuli taka sjer það á tungu, að það eigi að setja rjett bátaútvegsmanna skör lægra en síldareinkasölunnar eða þeirra manna, sem henni stjórna. Það nær engri átt, enda hefir þegar verið bent á það. Þó það geti ef til vill verið nauðsynlegt, að síldareinkasalan og þessi síldarbræðsluverksmiðja vinni eitthvað saman, þá er vitanlega opin leið að því án þess að stj. síldareinkasölunnar skipi mann í stj. þessa fyrirtækis. Jeg held þess vegna, að það hljóti að verða ofan á í þessari hv. deild, að framleiðendur fái aðstöðu til þess að ráða einum manni í stj. verksmiðjunnar. Það er ómögulegt að komast framhjá því, að rjettur þeirra manna, sem eiga alt hráefnið, sem verksmiðjan vinnur úr, verði viðurkendur og að þeir fái að sjálfsögðu að eiga sinn hlut í því, hverjir stjórna þessu fyrirtæki.

Nú er það vitanlegt líka, að það er ein af höfuðástæðunum til þess, að þetta fyrirtæki geti orðið að þeim notum, sem til er ætlast, að síldarútvegsmenn noti verksmiðjuna, að þeir álíti sínum hagsmunum jafnvel borgið þar sem annarsstaðar. En það segir sig þá sjálft, að þeir álíta betur sjeð fyrir hag sínum, ef þeir hafa valið einn af þeim mönnum, sem veita þessu fyrirtæki forstöðu. Og auk þess tengir það einmitt útgerðarmennina miklu betur við þetta fyrirtæki en annars, svo þeir myndu frekar kappkosta að láta sínar afurðir þangað heldur en annað. Jeg geng þess vegna út frá því sem sjálfsögðu, að þó að þetta hafi mætt andmælum hjer við þessa umr. málsins, þá muni þetta samt horfa þannig við að lokum, að þessu sanngirnisatriði verði framfylgt.

Þá kem jeg að því atriði, sem jeg mintist á síðast við 1. umr. þessa máls, og skýrt hefir verið nokkru nánar af frsm. minni hl., hv. 2. þm. G.-K. Það er um heimildina í 8. gr. frv. til þess að kaupa til handa verksmiðjunni síld af útlendum mönnum. Jeg lýsti þá undrun minni yfir því, að þetta ákvæði hefði verið tekið upp í lögin, og jeg bygði það á því, að það hefir verið ríkjandi stefna hjer á landi um langt skeið að reyna í allan máta, bæði með löggjöfinni og í allri framkvæmd þeirrar löggjafar, sem að þessu á að stuðla, að sporna sem allra mest við því, að útlendingar hefðu þá aðstöðu að geta notað til fulls þá góðu möguleika, sem eru víð að stunda veiði hjer og leggja hana hjer á land. Fiskiveiðalöggjöfin, sem sett var 1922, lagði góð drög til þess, að þetta gæti þannig orðið, enda hefir þetta náðst í mörgum tilfellum.

Þetta hefir verið hin ríkjandi stefna. Því er það mjer undrunarefni, að þegar ríkið ætlar að eignast verksmiðju, þá skuli það fara fram á heimild, er gengur í þveröfuga átt. Það gengur í bág við anda ísl. löggjafar og landsmanna yfirleitt.

Hvað síldveiðarnar snertir, þá höfum við ekki náð því marki enn að útiloka útlendinga frá að leggja veiði sína hjer á land. Ætla jeg, að það væri þegar á næsta sumri eftir að fiskiveiðalögin gengu í gildi, að Norðmenn krefðust rjettar til að fá að leggja síld á land. Þáv. atvmrh., Klemens Jónsson, úrskurðaði þá, að hvert norskt skip mætti leggja á land 200 tn. síldar, og ekki meira. Sá úrskurður var bygður á 3. gr. laganna 2. málsl., er svo hljóðar — með leyfi hæstv. forseta:

„Það er og bannað erlendum skipum að verka veiði í landhelgi eða á höfnum inni; enn er bannað öllum öðrum en ísl. ríkisborgurum að flytja veiði sína í landhelgi eða á land til þess þar að verka hana“.

Í þessa mgr. lagði ráðh. þann skilning, að ekki væri bannað að leggja síldina á land til sölu. Í skjóli þess skilnings fjell þessi úrskurður. Og samkv. honum hafa erlend skip lagt hjer upp nokkuð af síld. Skal jeg ekkert um það segja, hvað mikið það hefir orðið í framkvæmdinni, en samkv. úrskurðinum er hverju skipi ekki heimilt að leggja upp meira en 200 tn. árlega.

Í öðru lagi er í 9. gr. 1. heimild handa atvmrh. að veita síldarverksmiðjum leyfi um 2 ár í senn að taka erlend skip á leigu til að veiða til verksmiðjanna. Þessi heimild hefir verið notuð og að því verið fundið, og ætla jeg, að nú sje svo komið, að við sjeum lausir við þau leyfi.

Þar sem við erum nú lausir við þetta, þá mætti vænta þess, að hv. þdm. verði sammála um að slá ekki vopnið úr hendi sjer og setja ekki slíka heimild inn í þetta frv. Það yrði áreiðanlega til þess að draga úr því í augum útlendinga, að það sje virkilega ákveðinn vilji landsmanna að spyrna móti veiðum þeirra hjer. Það er vitanlegt, að sá mismunur, er fiskiveiðalögin gera á aðstöðu útlendinga og innlendra til veiðanna, er eitt af fjöreggjum þjóðarinnar. Því ber að vera þar mjög á verði og gæta ítrustu varúðar í þessu efni.

Hv. þm. Dal. las hjer upp grein úr blaði, sem gefið er út í Bergen, þar sem er höfuðsetur norskra síldveiðimanna þeirra, er hjer stunda veiðar. Þar var skýrt frá fundi, er forstjórar einkasölunnar höfðu átt við norska síldveiðimenn, og bollaleggingum þeirra um að fá aukinn rjett til veiða hjer við land. Eftir því, sem lesið var upp úr blaðinu, þá hefir það verið aðalefni fundarins, að Norðmenn fengju svipaða aðstöðu til síldveiða hjer við land og landsmenn sjálfir. Fyrir þetta ætla þeir að veita okkur það náðarbrauð að beygja sig undir ákvæði einkasölulaganna um það, hvað mikið skuli saltað. Það er ekkert ónáttúrlegt, þó Norðmenn reyni að skapa sjer sem besta aðstöðu hjer við veiðarnar. Það er þeim vitanlega mikið hagsmunamál. En hitt undrar mig stórlega, ef satt er, að þessir ísl. forstjórar skuli hafa tjáð Norðmönnum, að þeir skyldu leggja með því við ísl. stjórnina, að Norðmenn fengju þessu framgengt. Jeg á ekki vald á einu einasta lýsingarorði, er fær rúmað það, er jeg vildi sagt hafa um slíka framkomu, ef sönn reynist frásögnin. Því það er sjálfsagður fyrirvari, að rjett sje með farið í blaðinu. Þennan fund sátu fulltrúar norsku stj., svo sýnilegt er, að þar hefir ekkert markleysurabb fram farið. Hæstv. fors.- og atvmrh. hefir þvegið sínar hendur í þessu efni; hann kvaðst ekki hugmynd hafa um þetta baktjaldamakk, og er það gott að heyra. En þess verður að gæta, að kosning forstjóranna er pólitísk. Þeir menn, er valið hafa þá Pjetur Ólafsson og Einar Olgeirsson fyrir forstjóra, eru til þess kjörnir af Alþingi. Norðmenn, er athuga stjórnmálaþræðina hjer, hljóta því að leggja mikið upp úr því, þegar slíkir menn taka svo undir mál þeirra.

Í tilefni af þessum upplýsingum vil jeg beina því til hæstv. utanríkisráðh., að hann nú þegar og tafarlaust láti rannsaka, hvort hjer er rjett með farið. Og ef svo reynist, að frammistaða forstjóranna er slík, þá liggur beint við og er óhjákvæmilegt, að þeir verði settir af þegar í stað. Annað er óforsvaranlegt.