01.05.1929
Neðri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3023 í B-deild Alþingistíðinda. (1939)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Sigurður Eggerz:

Hæstv. forsrh. hefir játað því, sem jeg hjelt fram, að höfuðáhættan stafaði af því, að verksmiðjan ætti ekki kost á nægilegu hráefni. Ef svo færi, þá yrði að stöðva hana. En jeg geng út frá, að þegar búið væri að setja á stofn verksmiðju fyrir 1 milj. kr., þá mundi þykja lítið ráðlegt að láta slíkt fyrirtæki standa óstarfrækt. Vextir tapast, borga verður starfsfólki, ýmislegt, sem dregið hefir verið að til rekstrarins, rýmar o. s. frv. En verði hin leiðin farin, sú, sem gildir í samkepninni, þá er verksmiðjan einnig komin út í áhættuna. Útgerðarmenn gætu einnig myndað samtök um að skifta ekki við verksmiðjuna, svo þeir síðar fengju hana ódýra. Það verður altaf áhætta við reksturinn. Það liggur í hlutarins eðli, að þessi verksmiðja er sömu áhættunni undirorpin og allar aðrar.

Jeg get þakkað hæstv. forsrh. fyrir hina skýru yfirlýsingu, er hann gaf um, að hann ætti engan þátt í því ráðabruggi, sem skýrt var frá í norska blaðinu. Hæstv. ráðh. neitaði því, eins og jeg bjóst við, og er jeg honum þakklátur fyrir. — Jeg verð að segja það, að það er illa farið, að framkvæmdarstjórar einkasölunnar skuli hafa farið inn á þessa braut. Ef nokkuð er utanríkismál, þá er það þetta. Þetta er eitt viðkvæmasta mál þjóðarinnar.

Eins og jeg fór hóflega í málið og einungis í þeim tilgangi að fá ákveðna yfirlýsingu frá hæstv. ráðh., en ekki til að koma stj. í nein vandræði, þá var óþarfi hjá hæstv. ráðh. að fara að sletta því fram, að Pjetur Ólafsson væri í frjálslynda fl. Annars er það ekki rjett. Hann bauð sig fram sem utanflokkamann árið 1927. En þó hann hefði verið frjálslyndur, þá hefði það ekkert dregið úr mjer að víta þetta framferði. Og úr því að hæstv. ráðh. fann ástæðu til að taka þetta fram, þá vona jeg, að hann viðurkenni ekki síður, að það var þm. frjálslynda flokksins, er fyrstur vítti þetta. Og þó P. Ó. hefði verið frjálslyndur, þá hefði það þó ekki breytt afstöðu minni.

Jeg vil taka aftur í þann sama streng og áðan og vona, að stj. láti starfsmenn einkasölunnar skilja það, að þeir eiga ekki að blanda sjer í utanríkismál þjóðarinnar. Það þurfa þeir að vita strax.