08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3044 í B-deild Alþingistíðinda. (1956)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Fors.- atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. 2. þm. G.-K. hefir nú gert grein fyrir brtt. sínum og hv. þm. Vestm. Kom mjer ekki á óvart, að önnur brtt. var viðvíkjandi 4. gr., þar sem þeir leggja til, að 3. liður þeirrar gr. falli niður. Jeg ætla að leyfa mjer að geta þess, að út frá viðtali við hv. 2. þm. G.-K. hefi jeg sannfærst enn betur um rjettmæti þess, að þessi liður verði látinn standa, og þó einkum eftir að jeg hefi nú hlustað á rök hans viðvíkjandi áhættum verksmiðjunnar. Fyrri áhættan, er hann gat um, var sú, að verksmiðjan yrði ekki starfrækt ár og ár, og yrði þannig fyrir allmiklu vaxtatapi. Þetta tap á að borgast af varasjóði, og á 4. liður 4. gr. að sjá fyrir því.

Hin áhættan var sú, sem er mjög líklegt að geti komið fyrir, að fundin verði fullkomnari og betri tæki til vinslunnar, sem leiði af sjer verðfall fyrir verksmiðjuna. 3. liður 4. gr. á að tryggja verksmiðjuna gagnvart þessari áhættu, og ekki getur komið til mála, að 1. og 2. liður verði feldir niður. Hv. þm. benti á þessar tvær áhættur fyrir ríkissjóð, og þar sem 3. og 4. liður eiga að tryggja verksmiðjuna gegn þeim áhættum, og því er það í beinu framhaldi af rökum hv. þm., að við verðum að halda fast við, að þessir liðir verði látnir standa. Annars getur raunin orðið betri en á horfðist, og er jeg þá reiðubúinn til þess að slaka á klónni.

Þá sagði hv. þm., að ekki mœtti gera of mikið að því að tryggja um of hag verksmiðjunnar, því að það gæti orðið til þess að fœla burtu viðskiftamenn verksmiðjunnar, þ. e. a. s. að viðskiftamenn verksm. myndu hugsa um svo, að í 4. lið 4. gr. væru svo miklar kvaðir, að ekki vœri hægt að skifta við þetta fyrirtæki. Nú er jeg ekki kunnugur rekstri bræðslustöðva, en hitt veit jeg, að hvaða verksmiðja sem er verður að leggja 1. og 2. lið á viðskiftamenn sína.

Það, sem á að fæla viðskiftamenn verksmiðjunnar frá, eru 5%, sem lögð eru á fyrir fyrningu, og 5% í varasjóð. Jeg er alveg viss um, að önnur slík fyrirtæki veiða að gera hið sama, líka verksmiðja hv. 2. þm. G.-K., því að hann er svo forsjáll maður, að honum dettur ekki í hug að leggja minna en 5% í fyrningargjald og 5% í varasjóð, og auk þess ætlar hann sjer að hafa töluverðan ágóða, enda mun hann hafa verið sæmilegur af verksmiðju hans síðastl. ár. Jeg játa, að jeg er illa að mjer um þessa hluti, og veit jeg því, að þeir, sem síldveiði stunda, sjá þetta miklu betur en jeg, enda finst mjer það liggja í augum uppi, að hjer er um að ræða kostakjör fyrir útgerðarmenn. Viðskiftamennirnir œttu því ekki að draga sig í hlje, heldur hugsa sem svo: Þessi verksmiðja leggur á fyrir eðlilegum áhættum, eins og aðrar verksmiðjur hljóta að gera, en hún ætlar sjer ekki að græða af okkur, og hlýtur því að vera óhætt að skifta við hana.

Þá talaði hv. þm. um rjett framleiðendanna til þess að skipa einn mann í stj. verksmiðjunnar. Nú er það svo, að framleiðendur eiga mikil ítök í síldareinkasölunni, svo að sá maður, sem skipaður yrði frá einkasölunni, mundi undir öllum kringumstæðum líta á hag framleiðendanna. Sömuleiðis er sá maður, sem stj. tilnefnir, líka skipaður með það fyrir augum að gæta hagsmuna framleiðenda.

Jeg vil líka minna á, að jeg hefi boðið samvinnu til þess að fullnægja óskum hv. 2. þm. G.-K. og hann játað, að sú samvinna stæði opin. En nú lítur helst út fyrir, að hann vilji ekki fara þá leið, því að athafnir hans eru ekki í samræmi við þau þungu orð, sem hann lœtur falla.