08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3052 í B-deild Alþingistíðinda. (1958)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Sigurður Eggerz:

Jeg hefi hlustað með athygli á þessar umr. og jafnfr. athugað brtt. þær, sem fyrir liggja, og tel jeg þær allar eitthvað til bóta, en þó sjerstaklega till. frá hv. 1. þm. Reykv. á þskj. 580. Hvort breyta þurfi að einhverju leyti orðalagi þeirra, hefi jeg ekki áttað mig á. Annars skal jeg taka það strax fram, að jeg mun greiða atkv. á móti frv., því að jeg tel grundvöllinn undir því hinn sama og í fyrra, enda þótt jeg telji brtt. hv. 1. þm. Reykv. til bóta, ef þær verða samþ. Jeg sje nefnil. ekki betur en að það sje mesti misskilningur að taka áhættuna yfirleitt af síldarrekstri einstakra manna og færa hana yfir á ríkissjóðinn. Skal jeg þó ekki fara að endurtaka það, sem jeg hefi sagt áður um þetta frv., en það liggur beint í hlutarins eðli, að útgerðarmenn leggja ekki hráefni inn í verksmiðjuna, ef þeir geta fengið hærra verð fyrir þau annarsstaðar.

Út af þeim ummælum hæstv. forsrh., að verksmiðjan yrði stöðvuð þegar ekki fengjust í hana nægilega mikil hráefni. Vil jeg taka það fram, að jeg sje ekki annað en mikil áhætta geti fylgt því að stöðva oft fyrirtæki, sem kostar um eða yfir 1 milj. kr. Jeg býst því við, að farin verði sú leið, eins og ef um einstaklingsfyrirtæki væri að ræða, að kaupa heldur hráefnin í verksmiðjuna heldur en að stöðva hana oft.

Þá er eitt atriði, sem taka verður til greina, atriði, sem gerir það að verkum, að verksmiðja, sem er eign ríkisins. stendur ver að vígi en verksmiðja, sem er einstaklingseign. Reki einstaklingur síldarbræðsluverksmiðju og fái hann sjerstaklega gott ár með háum markaði fyrir afurðirnar, getur hann ef til vill grætt svo mikið, að hann geti afskrifað töluvert af verði verksm. Stendur hann þá æðimikið betur að vígi, er vondu árin skella á. Alt öðru máli er að gegna um verksmiðju, sem er eign ríkisins. Fái hún gott ár, má hún samt ekki afskrifa nema ákveðinn hluta af verði sínu. og getur því ekki farið í þessu efni varúðarleið einstaklingsins. Einstaklingurinn gerir áætlun í byrjun hvers starfsár fyrir stjórnarkostnaði. fyrningargjöldum o. fl., en veit að sjálfsögðu, að það fer eftir markaðsverðinu, hvort hann getur haldið þeirri áætlun eða ekki. En slík verksmiðja sem hjer er um að ræða verður að fara eftir lögum, sem um hana eru sett. Annars stóð jeg nú ekki upp af því, að jeg byggist við að hafa áhrif á úrslit málsins. Jeg veit, að þau eru fyrirfram ráðin. En þar sem hjer er ráðist inn á nýja braut, sem jeg að mörgu leyti tel óheppilega fyrir ríkissjóðinn, sökum áhættu o. fl., vil jeg undirstrika afstöðu mína til málsins, sem vitanlega er sú, að jeg greiði atkv. á móti málinu. Jeg tel það sem sje ekki verjandi gagnvart ríkissjóði að vera að draga hann að óþörfu inn í slíkt áhættufyrirtæki sem þetta. Sje þetta fyrirtæki nauðsynlegt fyrir útgerðina, mætti fara alt aðra leið til þess að hjálpa henni til þess að koma því upp. Eins og jeg tók fram í upphafi þessara fáu orða minna, tel jeg brtt. hv. 1. þm. Reykv. þá einu af þeim brtt., sem fyrir liggja, er nokkru máli skiftir. Höfuðstefna hennar er sú, að verksmiðjan á sínum tíma komist í hendur einstakra manna, og er í henni falinn möguleiki til að losna við ríkisreksturinn.