08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3054 í B-deild Alþingistíðinda. (1959)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Því mun svo farið um þetta mál sem mörg önnur, að það græðir lítið á löngum, efnislitlum og endurteknum umr. Mjer hefir skilist, að í andmælunum gegn frv. þessu nú komi það sama fram og borið var fram við 2. umr., og ætti það því ekki að hafa meiri áhrif að þessu sinni en þá. Eins og kunnugt er, liggja nú fyrir við frv. margar og umfangsmiklar brtt. Verður því að taka þær til athugunar og meta hverja fyrir sig. Þessum brtt. mátti reyndar búast við, eftir því sem fram kom við 2. umr. Brtt. hæstv. atvmrh. eru til mikilla bóta, og sömuleiðis get jeg sagt það um brtt. hv. minni hl. sjávarútvegsnefndar á þskj. 581, að þær fela í sjer fyrirkomulag, sem ekkert hefði verið á móti að fallast á, ef hjer hefði verið um samvinnufjelag í venjulegum skilningi að ræða. En svo er ekki um þetta, heldur er hjer beinn ríkisrekstur, sniðinn eftir þörfum viðskiftamanna og fyrir augum haft að gera þeim viðskiftin sem hagfeldust.

En þótt hjer sje um ríkisrekstur að ræða, þá er hann þó sniðinn eftir samvinnufjelögunum og miðar eingöngu við hag viðskiftamanna, en að engu leyti við gróða eða tekjur fyrir ríkissjóð.

Ákvæði 9. gr. frv. um, að verksmiðjan sje undanþegin aukaútsvari og tekjuskatti er auðvitað beint til hagsbóta fyrir viðskiftamennina, og finst mjer, með tilliti til þessa, að þeir megi vel við una, jafnvel þótt varasjóðsgjaldið sje ákveðið nokkuð hátt.

Jeg hygg nú, eins og jeg tók fram við 2. umr., að þessi gjöld, fyrningargjald og varasjóðsgjald, muni ekki reynast of há þegar til lengdar lætur, þótt segja megi, að þau verði nokkuð rífleg í bestu árum; einkum finst mjer ástæðulaust að finna að þessu eftir að hæstv. atvmrh. hefir látið í ljós áform um að koma fram með till. til lækkunar á gjaldinu, ef reynslan sýnir, að eigi sje þörf á því svo háu sem hjer er ráðgert.

Jeg skal þá aðeins víkja nokkrum orðum að brtt. hv. 1. þm. Reykv. á þskj. 580. Jeg er alls ekki viss um, að þessar till. sjeu bornar fram í alvöru. Þessi hv. þm. er eins og kunnugt er listfengur og hinn mesti hagleiksmaður, og mjer virðist, að þetta sje einhver haglegasti fleygurinn, sem jeg hefi sjeð frá hans hendi. Ef þessar till. yrðu samþ., tel jeg, að tilgangi frv. væri með öllu umturnað. Ef um samvinnufjelag á að vera að ræða meðal útvegsmanna, eiga auðvitað allir að koma til greina, sem þar hafa hagsmuna að gæta, og í þessu tilfelli þá útvegsmenn af öllu landi, en eftir till. hv. 1. þm. Reykv. gæti vel svo farið, að þetta yrði aðeins fjelagsskapur nokkurra Siglfirðinga, og er alveg augljóst, að hinir, sem fjarlægari eru, mundu þar miklu síður góðs af njóta. Jeg get ekki sætt mig við samvinnufjelag í þessari mynd og þar sem svo stendur á, að mikill fjöldi fjelagsmanna hlýtur að verða áhrifalaus um starfið. Jeg treysti þarna ríkisfyrirtækinu betur til að sjá hag fjöldans borgið.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta meira að sinni, og geri reyndar ekki ráð fyrir að taka oftar til máls, jafnvel þótt mótmæli komi fram. Málið sjálft græðir heldur ekki, að minni hyggju, á frekari umr. Jeg mun því þrauka og bíða atkvgr., en hirða lítt um andmæli, þótt fram komi, enda tel jeg, að jeg hafi svarað höfuðmótbárunum við 2. umr.