08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3058 í B-deild Alþingistíðinda. (1961)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Það hafa nú allmargir hv. þdm. tekið til máls um þetta frv. síðan jeg talaði hjer í dag. Ef út í það væri farið að svara öllum ítarlega, mundi það taka langan tíma, og þar sem flest veigamestu atriðin frá mínu sjónarmiði hafa áður verið tekin fram, tel jeg ekki ástæðu til að endurtaka þau. Jeg vil þó með nokkrum orðum víkja að hv. andmælendum mínum, einkum að því leyti, sem nýtt hefir komið fram í málinu.

Jeg þarf ekki að taka það fram, að með till. hv. 1. þm. Reykv. er farið inn á þá braut, sem jeg barðist mest fyrir í fyrra sem frsm. minni hl. sjútvn. Að jeg ekki sjálfur flutti till. í þessa átt, er eingöngu af því, að jeg taldi örvænt um, að hún næði fram að ganga. Jeg tók því þann kostinn að ganga heldur framhjá þessu nú, með því að jeg tel nauðsyn á, að málinu verði lokið á þessu þingi í einhverri mynd.

Jeg álít mjög æskilegt, að þetta fyrirtæki verði eign samvinnufjelags útvegsmanna, eftir því sem þeir afborga það, ásamt sjóðum og öðru tilheyrandi; að því leyti er jeg sammála hv. 1. þm. Reykv., en hitt get jeg ekki fallist á, að till. minni hl. sjútvn. sjeu veigalitlar. (MJ: Jeg sagði, að þær væru um fyrirkomulagsatriði). Já, þær eru um fyrirkomulagsatriði, en það eru till. hv. 1. þm. Reykv. líka.

Hv. þm. taldi, að mjer hefði sjest yfir þá áhættu, sem grúfði yfir fyrirtækinu af því, að 70% útborgun kynni að nema meiru en því, sem endanlega yrði greitt fyrir vöruna. Jeg lít svo á og hefi getið þess, að tilskilja megi minni útborgun, ef sjerstaklega stendur á.

Auk þessarar áhættu gat hv. þm. um aðra áhættu, sem sje þá, að verksmiðjan fengi ekki næga síld til vinslu, og mundi þá koma upp krafa um rekstrarfje, til þess að kaupa síld fyrir í samkepni. Jeg vil ekki neita, að þetta gæti komið fyrir, en það yrði þá af því, að viðskiftamenn teldu sjer óhag að skifta við verksmiðjuna samanborið við aðrar síldarverksmiðjur. Hv. þm. spurði um, hvernig ætti að kjósa stjórnarmeðlimi. Við höfum gert ráð fyrir, að hæstv. atvmrh. setji reglur um þetta. Eftir fyrsta starfsár verksmiðjunnar kjósa þeir, sem hafa skift við hana.

Jeg gat ekki hlýtt á ræðu hv. þm. Dal., en mjer hafa verið sögð nokkur atriði úr henni, og eftir þeim að dæma þarf jeg fáu að svara honum. Hann virðist hafa bent á það með rjettu, að þetta fyrirtæki yrði erfiðara statt en einstaklingsfyrirtæki, sem gæti notað allan arð góðæris til þess að jafna halla hallæris. Þetta er að vísu rjett, en þessi verksmiðja er líka undanþegin þeirri áhættunni, sem er þungbærust í einstaklingsrekstrinum, sem sje rekstraráhættunni. — Jeg ætla ekki að öðru leyti að athuga ræðu þessa hv. þm.

Jeg hlustaði ekki heldur á ræðu hv. 1. þm. S.-M., en mjer hefir verið skýrt frá innihaldi hennar. Það gleður mig sjerstaklega að heyra, að hann hafi lýst því yfir, að brtt. hæstv. atvmrh. væru allar til bóta. Eins og hv. þm. veit, eru þessar till. allar undan mínum rifjum runnar. Það er næsta undarlegt, að við afgreiðslu málsins frá sjútvn. fæ jeg ekki að koma nokkurri brtt. að, en þegar jeg kem þeim á stað með milligöngu hæstv. atvmrh., þá rís þessi hygni þm. upp og lýsir yfir, að þær sjeu allar til bóta.

Mjer virðist það ekki vera að ófyrirsynju, að jeg kvarta undan því, að mjer hefir ekki gefist kostur á að koma að mínu viti og umbóta ágæti í þessu máli í sjálfri n. Till. er til bóta, og er undan mínum rifjum runnin, en um málið fjekk jeg ekki að tala í sjútvn.

Mjer skilst hv. þm. hafa sagt, að brtt. hv. minni hl. ættu ekki við, af því að hjer væri um ríkisrekstur að ræða, en hinsvegar ættu þær við, ef fyrirtækið væri rekið með samvinnusniði. Þetta er að mörgu leyti rjett hjá hv. þm., en ágreiningurinn er þá um það, hvort menn óska, að það sje rekið sem samvinnufjelag eða af ríkinu. Jeg fyrir mitt leyti óska eftir því, en ekki eftir ríkisrekstri, og reyni því með till. mínum að breyta málinu í það horf. Og þar sem þessi hv. þm. (SvÓ) er þjóðkunnur samvinnufrömuður, en hinsvegar hinn megnasti andstæðingur alls socialisma, þá vænti jeg, að hann virði við okkur, að við berum fram slíkar brtt., með því að fylgja okkur. Þá víkur hann frá stefnu sinna andstæðinga, en inn á þá braut, sem hann í marga áratugi hefir troðið.

Að öðru leyti get jeg tekið undir með hv. þm. um þetta, að það hafa þegar fallið flest rök í þessu máli og því sje þýðingarlaust að rökræða um það úr því sem komið er.

Jeg vil þá aðeins í tilefni af yfirlýsingu hæstv. atvmrh. í hans síðustu ræðu gefa nokkrar örstuttar aths. Hæstv. ráðh. taldi, að 3. og 4. tölul. 4. gr. gerði alveg rjettilega fyrir þeirri tvennskonar áhœttu, sem jeg hefi talað um — áhættunni, sem stafaði af því, að verksmiðjan yrði ekki rekin í einstökum árum, og áhættunni af verðfalli á eignunum. Þetta er aðallega orðaleikur hjá hæstv. ráðh. Áhætturnar báðar eru ekki stórvægilegri en svo, að fyrir þeim má á eðlilegan hátt gera með því að taka það varasjóðsgjald, sem jeg hefi lagt til, að verði tekið, þó að niður falli 8. tölul. 4. gr.

Hæstv. ráðh. taldi, að það mundi ekki fæla menn frá fyrirtækinu, þótt teknir væru 10% af andvirði vörunnar umfram það, sem þarf til þess að standast allan rekstrarkostnað fyrirtækisins. Jeg skal nú játa, að jeg hygg, að undir mörgum kringumstæðum væri viðskiftamönnum eins hagkvæmt að skifta við þessa verksmiðju, þó að þannig lagað gjald væri tekið, eins og að selja þeim einstaklingum vöruna, sem hjer reka verksmiðjur. Þessi auka- 10% mundu jafngilda um 1 kr. af hverju síldarmáli. En eftir þeim útreikningi, sem hv. 3. landsk. hefir gert um rekstur síldarverksmiðju, telst til, að hún geti skilað andvirði fyrir síld, sem er meira en 1 kr. hærri en alment gangverð hefir verið á undanförnum árum. Þannig mætti ætla, að óhætt væri að taka þessa einu krónu af síldarmáli í þarfir verksmiðjunnar, án þess að menn forðuðust viðskiftin. En jeg held samt, að vegna þeirrar ótrúar, sem fjöldi þessara manna hefir á ýmsum opinberum fyrirtækjum, og vegna þess annmarka, að aðeins á að greiða út 70% af andvirðinu, þá sje gengið lengra en góðu hófi gegnir. Við skulum hugsa okkur, að það sje rjett, sem hv. 3. landsk. gerir ráð fyrir, að óhætt sje að ætla, að verksmiðjan geti skilað framleiðendum 11 krónum fyrir hvert síldannál. Af þeim á að halda eftir umfram kostnað 10%, sem yrði 1 kr. á máli. Eftir eru þá tæpar 10 kr. handa framleiðanda. Við skulum einnig ganga út frá, að alment gangverð á síld yrði ekki hærra í hlutfalli við þetta verð en 9 kr. Framleiðendur velja þá um, hvort þeir vilja fá 7 kr. út á síldarmálið og eiga von á því að fá uppbót, er nemi 3 kr. á mál. eða hitt, að fá útborgaðar þegar í stað 9 kr. Og jeg hygg, að með þeirri ótrú sem menn hafa á þessum opinbera rekstri, og þá ekki síst útgerðarmenn, muni þeir verða fleiri, sem kjósa beinu skiftin við fastan kaupanda, sem greiði andvirðið alt út í hönd. Þannig getur auðveldlega farið — sem jeg áður gat um —, að með því að ætla að tryggja ríkissjóðinn er einmitt verið að skapa honum áhættu. Með því að ganga of tryggilega frá hagsmunum ríkissjóðs er einmitt verið að ganga of mikið á rjett framleiðanda, sem veldur því, að hann skiftir ekki við fyrirtækið. Þetta var ágætlega orðað af hv. 1. þm. Reykv., þegar hann benti á, að hjer væri um hliðstæðu að ræða við það, að kaupmaður ætlaði að tryggja sjer lífvænlega atvinnu af verslun bara með því að selja nógu dýrt.

Hæstv. ráðh. spurði, hvað jeg mundi gera sem verksmiðjueigandi í þessu efni. Jeg get svarað hæstv. ráðh. því sama sem jeg svaraði hv. þm. Dal., að það er alt annars eðlis, ef um er að ræða einstaklingsrekstur og einstaklingsáhættu af þeim rekstri. Þá er eðlilegt, að einstaklingurinn reikni sjer alt aðra og meiri áhættuþóknun heldur en þegar um er að ræða fyrirtæki, sem ekki á að bera þá áhættu, sem þungbærust er, rekstraráhættuna.

Viðvíkjandi stjórnarfyrirkomulagi þessa fyrirtækis mótmælti hæstv. ráðherra að vísu ekki, að framleiðendur ættu ríkan rjett til þess að skipa stjórnarmeðlim, enda er nú þegar búið að færa svo sterk rök fyrir þeim rjetti, að enginn maður, sem vill hafa lög að mæla, neitar því. Það er búið að sýna fram á, að rjettur framleiðenda í þessu efni er ríkari en nokkurs annars aðilja. Reynt var að bera í bætifláka fyrir það fyrirkomulag, sem frv. mælir fyrir um, með því, að framleiðendur ættu svo rík ítök í stj. einkasölunnar, að þeim ætti að vera fyrir milligöngu þess aðiljans í stj.n., sem kosinn var af síldareinkasölunni, trygður sinn rjettur. Hæstv. ráðh. veit, að þetta er helber vitleysa. Hann veit, að framleiðendur ráða bókstaflega engu um stj. einkasölunnar. Hann veit, að framleiðendur mundu engan þeirra manna hafa kosið í framkvæmdarstjórnina, sem að fara með það starf. Hann veit, að framleiðendur þurfa að þola, að einn af framkvæmdarstjórum einkasölunnar lýsi yfir því á opinberum fundi, að framleiðendur megi aldrei hafa neinn hag af einkasölunni. Það er þess vegna alveg um hug mælt hjá hæstv. ráðh., þegar hann talar um trygðan rjett framleiðenda í þessu efni, með því að vitna í það, að þeir eigi ítök í stj. einkasölunnar. (HG: Verkamenn eru framleiðendur). Jeg hefi nú stundum deilt við hv. þm. Ísaf. um framleiðendur, og það endar venjulega með því, að enginn sje framleiðandi nema guð almáttugur. Þegar jeg kalla útgerðarmenn framleiðendur, segir þessi hv. þm.: O ekki held jeg, að þið hafið búið til síldina. — Það verður altaf þrautalendingin, að guð almáttugur hafi framleitt síldina, og ekki skal jeg heldur neita því.

Rjett er það, að hæstv. ráðh. hefir boðið samvinnu gegn því, að fimm menn skipi stj. fyrirtækisins. Jeg hefi enn sem komið er ekki tekið í þá útrjettu hendi hæstv. ráðh. um að tryggja framleiðendum rjett til að skipa einn mann með því að fjölga í stj., vegna þess að jeg álít það óþarft að ganga inn á slíkt til að ná svo augljósum rjetti. Það er altaf verra að hafa óþarflega marga menn í stj.; þrír eru alveg nóg. Rjettur framleiðenda er svo augljós, að jeg vil ekki kaupa hann fyrir neitt, en fá hann bara samkv. þeirri eðlilegu kröfu, sem sanngjarn málstaður á altaf, þegar hann er borinn fram fyrir menn með heilbrigða dómgreind.

Jeg skal svo að endingu segja það, að alt, sem jeg hefi talað um áhættu þessa fyrirtækis, og alt, sem jeg yfirleitt hefi miðað við, þegar jeg talaði um þetta fyrirtæki, það byggist á því, að því sje stjórnað á eðlilegan og skynsamlegan hátt. En ef á að girða fyrir, að framleiðendur, sem alt eiga undir fyrirtækinu og líklegastir eru til að velja hæfa menn í stj. þess, hafi áhrif í því efni, þá veit jeg ekki, hvort jeg vil bera nokkra áhættu af þessu fyrirtœki eða hvort jeg yfir höfuð vil nokkur afskifti hafa af málinu.