08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3065 í B-deild Alþingistíðinda. (1962)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Magnús Jónsson:

* Jeg verð að taka undir það, sem síðasti hv. rœðumaður endaði á. Jeg skil ekki, hvers vegna þessi mótspyrna er gegn því, að útgerðarmenn fái sín rjettindi í þessu máli, — hvernig stendur á því, að þeir, sem eiga alt undir verksmiðjunni og verksmiðjan á alt undir, skuli að þarflausu vera fældir burtu frá viðskiftum með því að sýna þeim óbilgirni í upphafi. Ef á þannig að reka þessa verksmiðju áframhaldandi, ja, þá bið jeg bara fyrir henni. Hvaða kaupsýslumaður með nokkru viti mundi byrja fyrirtæki, sem hann ætti mikið undir, með slíkum afglöpum sem þessum, að reka hnefann framan í þá, sem fyrirtækið stendur og fellur með? Þetta er svo óskiljanlegt, að mjer þykir líklegt, að síldarframleiðendur í landinu hafi þann mannskap, að þeir bara vegna þessa skifti aldrei við þetta fyrirtæki, ef á að sýna slíka óbilgirni, án þess að nokkur einasta ástæða sje fyrir fœrð. Það er búið að halda margar ræður um þetta, en það hefir ekki verið sýnt með einu einasta orði, hvað síldareinkasalan á að gera með mann í stj. þessa fyrirtœkis.

Jeg vil aðeins segja hv. 2. þm. G.- K., að jeg hefi aldrei sagt, að brtt. hans væru veigalitlar. En jeg sagði, að þær væru um fyrirkomulagsatriði, og hann skaut því fram, að mínar væru það líka. Já, alt eru þetta fyrirkomulagsatriði, ef maður knýr það orð of mikið. Hjer er sá munur á, að hans till. eru um fyrirkomulagsatriði viðkomandi ríkisrekstri, en mínar till. fara fram á stefnubreyt., að fyrirtækið hlíti ekki ríkisrekstri lengur en svo, að þeir, sem láta það fá hráefni, kæri sig ekki um það lengur. (ÓTh: Mínar eru brú, sem jeg œtla mönnum að ganga yfir). Hann œtlar hæstv. forsrh. að byggja brú á þessum stöplum, sem hann reisir með sínum till. En jeg vil sjá elfuna brúaða þegar á þessu þingi heldur en eiga undir því, að hún verði bygð á loftköstulum.

Hv. þm. Dal. og fleiri hafa minst á það, að eftir mínum till. œtti þetta fyrirtœki smámsaman að komast í hendur á þessu samlagi. Þetta er ekki alveg rjett. Eftir mínum till. er þetta einkafyrirtæki frá upphafi, en aðeins af því, að ríkissjóður leggur fram þessa peninga, er ekki nema rjett og sanngjarnt, að hann geti sett strangar reglur um fyrirkomulag fyrirtækisins meðan verið er að afborga.

Ekki ætla jeg að víkja mörgum orðum að hv. 1. þm. S.-M. Hann kvað málið ekki grœða mikið á þessum umr. Jeg held það sje alveg óhætt um það, að málið hafi ekki mikið grætt á hans ræðu. Hann kvaðst álíta, að jeg hefði borið fram mínar till. í gamni, — þœr gætu ekki verið bornar fram í alvöru. Jeg væri þektur sem listamaður og þetta væri eitt af mínum skemtilegu listaverkum. Mig minnir, að þetta hafi jeg heyrt einhverntíma áður, þegar þessi hv. þm. var í álíka öngþveiti, en a. m. k. er áreiðanlegt, að þetta geta ekki verið rök í málinu. Og jeg verð að segja, að það er miklu erfiðara að hugsa sjer, að hv. þm. sje að tala í alvöru, þegar hann, þessi gamli samvinnufrömuður, er að berjast í líf og blóð gegn því, að þetta fyrirtæki verði rekið á samvinnugrundvelli í stað ríkisrekstrar. En jeg veit ekki, hvar er gamanið í mínum till., þó að jeg beri fram till. um það, sem stór flokkur í þinginu barðist fyrir í fyrra. Það kann að vera, að dragi gamanið af þessum hv. þm. og öðrum þeim, sem honum fylgja, þegar þessi ríkisrekstur er kominn á að þeirra tilstuðlan.

Og hvað var nú gamanið í öllu þessu? Það kom upp úr kafinu, að hv. þm. gat ekki hugsað sjer þetta sem samvinnufjelag, því að það mundi vera bara á Siglufirði. Skilji þeir, sem geta! Ekki vissi jeg, að samvinnuskipulagið væri svona heilagt, að hv. þm. þyrfti að benda okkur með þessum fjálgleik: Drag skó þína af fótum þjer, því að sá staður, sem þú stendur á, er heilög jörð. — Siglufjörður er víst þessir saurugu skór, sem mega ekki koma nálægt samvinnunni. En samvinnulögin frá 1921 eru svo hlægileg, að þau undanskilja ekki Siglufjörð, þó að hv. þm. þætti það rök, að ekki gæti komið til mála að reka samvinnufjelagsskap á Siglufirði.

Jeg skal svo ekki tefja tímann lengur um þetta. Jeg legg till. mínar undir dóm manna. Nú er ekki hægt að bregða neinni hættu við, sem málið sje statt í. Það er bara um það að velja, hvort menn vilja heldur atvinnureksturinn á samvinnugrundvelli eða með ríkisrekstri.

Ræðuhandr. óyfirlesið.