08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3089 í B-deild Alþingistíðinda. (1971)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg vil vekja athygli hv. þm. V.-Húnv. á því, að hjer er ekki um það að ræða að skipa nokkrum manni eða þvinga til að vera í samvinnufjelagi. Heldur er aðeins verið að skapa heimild samkv. samvinnulögunum til þess að síldarútvegsmenn geti starfað á samvinnugrundvelli, ef þeir mynda samtök til þess. Jeg álít ekki ástæðu til að vera að ráðast á þá fyrir það. Annars vil jeg ekki fara að skamma hv. þm. eins og hann vann til, enda sje jeg hann ekki hjer í deildinni, því hann er sjálfur miklu betri maður heldur en mörg af þeim orðum, sem hann ljet falla, benda til.