08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3089 í B-deild Alþingistíðinda. (1972)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Jeg skal ekki deila um rjett kapitalsins og rjett hinnar lifandi vinnu, en það er rjett, að verkamaður á oft hagsmuni undir afkomu atvinnurekanda. Hitt er og rjett, að yfirleitt þekkir atvinnurekandi betur atvinnureksturinn en verkamaðurinn, og er því bærari til að stjórna. Beggja hagsmunum er því best borgið með því að tryggja afskifti atvinnurekenda af stj. þessa fyrirtækis. Jeg vil ekki blanda mjer í orðaskifti þeirra hv. þm. V.-Ísf. og hv. þm. V.-Húnv., en jeg vil segja hv. þm. V.-Húnv. það, að við tveir þm. úr Íhaldsflokknum, sem fluttum frv. til laga um síldarsamlag á þinginu 1926, höfðum nægan kunnugleik á samvinnufjelagsskapnum til þess, að við vissum, að það var ekki reist á samvinnugrundvelli. En þekking hans á samvinnumálunum er það ljelegri en okkar andstæðinganna, sem erum taldir heiðingjar í þessum efnum, að hann vissi þetta ekki. (HJ: Þá er hún ljeleg!). Það er nú samt svo. Annars þótti mjer hv. þm. miklu hógværari í síðari ræðu sinni. Það er víst af því, að hann hefir verið til altaris undir hinum „heilaga úða“ af vörum hv. þm. V.-Ísf. Jeg held, að hann hefði gott af að vera sem oftast við slíka altarisgöngu.