15.05.1929
Efri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3095 í B-deild Alþingistíðinda. (1979)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Halldór Steinsson:

Jeg hefi ekki getað fallist á þessa brtt., sem meiri hl. sjútvn. flytur við þetta frv. Við meðferð málsins í Nd. komst inn 9. gr. frv., sem jeg tel til mikilla bóta, þar sem ákveðið er, að ef síldveiðamenn myndi með sjer fjelagsskap, hafi þeir rjett til að taka að sjer þetta fyrirtæki til rekstrar. Þetta er að miklu leyti í samræmi við ákvæði í 1. um síldarbræðslu frá síðasta ári. En hinsvegar miðar þessi brtt. n. í þá átt að gera ákvæði 9. gr. alveg að engu. Jeg álít, að hv. meiri hl. hefði eins getað lagt til, að 9. gr. skyldi falla burt, því að með ákvæði þessarar brtt. má telja víst, að þetta fyrirkomulag geti aldrei komist á. Skilyrðin eru þar svo þröng, að það er vart hugsanlegt, að þessi fjelagsskapur myndist. Fyrst er heimtað, að það skuli vera 2/3 hlutar þeirra manna, sem láta síld til verksmiðjunnar, í staðinn fyrir helming; í öðru lagi, að Siglufjarðarkaupstaður skuli samþ. söluna, og í þriðja lagi, að farið verði eftir ákvæðum l. frá 1928, að málið, áður en það er endanlega útkljáð, sje lagt fyrir báðar deildir þingsins.

Jeg held, að mönnum dyljist ekki, að ef skilyrðin eru svona ströng, þá sje það alveg sama og þetta fyrirkomulag komist aldrei í framkvæmd. Og það sýnist mjer satt að segja hálfkátlegt — að jeg ekki segi algerlega óþarft —, að setja það ákvæði í einhver lög, að það megi breyta þeim með lögum. En í raun og veru felst ekkert annað í því ákvæði, að vísa til laganna um síldarbræðslu frá 1928. Vitanlega geta þing síðari tíma breytt þessum lögum sem öðrum, og er því óviðeigandi að taka það fram í frv.

Breyt. tel jeg svo varhugaverðar, að þær beinlínis geri að engu 9. gr. frv. Bæði vegna þessa og eins vegna hins, að jeg tel málinu beinlínis stefnt í voða með því að breyta frv. og senda til Nd., verð jeg að leggja á móti því, að brtt. verði samþ.

Hv. frsm. meiri hl. taldi 9. gr. einhvern voða fyrir frv. Jeg er á gagnstæðri skoðun, tel hana til stórra bóta, en að það verði til að fella frv., ef brtt. meiri hl. verða samþ.