15.05.1929
Efri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3100 í B-deild Alþingistíðinda. (1983)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Jón Jónsson:

Jeg verð að játa, að jeg er illa að mjer í öllum þessum síldarmálum, og skal jeg þess vegna ekki vera mjög fjölorður. Jeg get að sjálfsögðu fallist á það, að ef stofnað verður samvinnufjelag samkvæmt samvinnulögunum, þá sje ekki ástæða fyrir þingið að amast við, að það taki verksmiðjuna. Annars hefi jeg ekki mikla trú á, að þetta verði gert. Mjer finst hugarfar útgerðarmanna eða þeirra, sem síldarútveg stunda, ekki slíkt gagnvart samvinnufjelagsskap, að þeir myndu leggja í þetta, en þó er það ekki útilokað.

Mjer finst það rjett, sem meiri hl. sjútvn. heldur fram, að hjer eigi að eiga atkv. um allir þeir, sem síld hafa til sölu, sem þeir afhenda verksmiðjunni. Þar með hljóta að vera hásetar, svo framarlega sem þeir eru ráðnir upp á hlut. Það er ekki nema rjettlátt, að þeir komi til greina. Hinsvegar er mjer ómögulegt að fallast á, að bæjarstj. Siglufjarðarkaupstaðar eigi að hafa atkv. um þetta. Mjer virðist henni nógu hátt gert undir höfði, ef síldarbræðslustöðin er reist þar á staðnum. Það hlýtur að skifta bæinn svo miklu, þó að hann fái ekki að ráða, hvort ríkisstj., sem rekur verksmiðjuna. (EF: En hann er meðeigandi í fyrirtækinu). Þó að hann sje meðeigandi í fyrirtækinu, þá geri jeg ráð fyrir því á þeim grundvelli, að Siglufjörður — eins og aðrir meðeigendur verksmiðjunnar — fái sitt upp borið. En jeg sje ekki neina rjettmæta ástæðu til, að hann geti ráðið öllu um, hvort samvinnufjelag taki við verksmiðjunni eða ekki.

Jeg leyfi mjer að bera fram skriflega brtt. um það að strika þessi orð út úr till., en að öðru leyti býst jeg við að geta samþ. hana.