15.05.1929
Efri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3101 í B-deild Alþingistíðinda. (1984)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Jón Þorláksson:

Mjer er vel skemt þegar jeg heyri hv. 2. þm S.-M. deila á þetta stjfrv., og sjerstaklega er mjer skemt þegar jeg heyri hann ganga berserksgang á móti 9. gr. frv., sem er þó sett inn í stjfrv. samkv. tilmælum flokksbræðra hans í hv. Nd. Í þeirri baráttu kemur í ljós hið gamla stríð milli holdsins og andans í þeim enda Framsóknarflokksins er að jafnaðarmönnum snýr. Annarsvegar er kœrleikurinn til ríkisrekstrarins, sem þar úti í endanum er mjög heitur, hinsvegar játningin undir samvinnustefnuna, sem hjá þeim er ekki orðið annað en yfirskin. En alt það, sem hjer er farið fram á, er það, að stj. sú, er nú situr, fái heimild til þess að selja samvinnufjelagi verksmiðjuna. En það, sem virðist valda reiði hv. 2. þm. S.-M., er einmitt það, að landsstj. skuli vera trúað fyrir því að selja hana án þess að hún þurfi að koma til þingsins og spyrja það um leyfi. Því það er rjett skilið, að með 9. gr. er gerð sú breyt. frá því, sem var í lögunum frá í fyrra, að þessi heimild er fengin stj. á þann hátt, sem venjulegt er. En löggjöfin frá í fyrra gerir stj. að því leyti minna markverða en venjulegt er um aðra, að henni er að vísu gefin heimild til þess að selja, en þó ekki nema því aðeins, að þingið samþ. það fyrir sitt leyti. Jeg hefi því hina mestu skemtun af þessu, en hefi hinsvegar látið þetta frv. afskiftalaust Stjfrv. fól upphaflega ekki neitt það í sjer, er jeg taldi vert að hlynna að, en hinsvegar voru á því auðsæir gallar, sem mjer var ósárt um, að fengju að reyna sig. Þessir gallar hafa ákaflega lítið verið leiðrjettir ennþá.

Hvað snertir 4. gr. frv., álít jeg það næstum því skoplegt, hversu miklar fjárkvaðir eru lagðar þar á þá vesalings menn, er láta síld í þessa verksmiðju. Þeir eiga að greiða í afborgun af stofnkostnaði 5%, fyrir fyrningu og rýrnun 5% og í varasjóð 5%. Alt þetta á að borga með 5% árlega af verði verksmiðjunnar. En ef þetta fyrirtæki verður rekið á venjulegum fjárhagsgrundvelli, hljóta menn að sjá, að sömu peningamir fara í alt þetta þrent. En svo á að greiða þetta þrisvar sinnum á ári, eða alls árlega 15% af verði verksmiðjunnar, fyrir utan alla vexti, viðhald og rekstrarkostnað. Þetta gæti ekki verið hagstæðara fyrir hinar verksmiðjumar, þó þœr hefðu allar samið það í sameiningu með það eitt fyrir augum að tryggja sjálfum sjer öll viðskiftin.

Eins og jeg hefi áður tekið fram, er mjer ósárt um það, hvað um þetta frv. verður. En mjer finst, að hv. frsm. meiri hl. ætti síst að hafa ástæðu til þess að verða grimdarfullur, þó stj. fái rýmri heimild samkv. 9. gr. en hún hefir nú.

Það er ástæða til þess að leiðrjetta það, er hv. frsm. meiri hl. sagði, að helmingur þeirra, er skiftu við verksmiðjuna, gæti þvingað hana til þess að ganga í fjelagsskapinn. Þetta er ekki rjett. Frv. gefur aðeins heimild til þess að selja helmingi þeirra, er við verksmiðjuna skifta. Það er svo á þeirra ábyrgð, hvort þeir geta skaffað henni nóg verkefni. En fyrirtækið verður þá þess eðlis, sem önnur samvinnufjelög, að þeir, er skifta við það, verða að ganga í það. Hitt er alger misskilningur, að það sje á nokkum hátt verið að neyða menn til þess að ganga í fjelagsskapinn. (IP: Það stendur þó skýrt í greininni). Jeg held, að hv. þm. verði að lesa þetta betur. (IP: Vill hv. 3. landsk. lesa gr. upphátt?) Jeg get það, ef þm. vill, en það er óþarfi, því hv. þdm. hafa frv. fyrir framan sig. En greinin segir það, að er samvinnufjelag hefir eignast verksmiðjuna, þá sjeu allir þeir, er við hana skifta, skyldir til þess að vera með í fjelagsskapnum. En það stendur hvergi, að það skuli vera þeir sömu, er áður skiftu við hana. (IP: Hvert eiga þeir þá að fara?) Þeir geta farið til hinna verksmiðjanna, því þeir eru alls ekki skyldir til að skifta við þessa. Þarna er ekki um sama að ræða eins og t. d. í vatnafjelögunum, þar sem viss fjöldi manna getur þvingað aðra til þess að vera með. En hjer er ekki um neina þvingun að ræða. öllum er það frjálst, hvort þeir vilja fara eða vera með.