15.05.1929
Efri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3104 í B-deild Alþingistíðinda. (1987)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Erlingur Friðjónsson:

Það lætur að líkum, að meiri hl. sjútvn., er flytur brtt. við frv., vilji taka til greina aðstöðu Siglufjarðar, sem samkv. lögum á að veiða meðeigandi í því fyrirtæki, sem hjer er um að ræða. Vil jeg benda á, að í 6. gr. frv. er þetta skýrt tekið fram. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Verksmiðja sú, er stofnuð verður fyrst, skal sett á Siglufirði, enda leggi Siglufjarðarkaupstaður fram fje til hennar að sínum hluta, eftir því sem um semst við ríkisstjórnina“.

Nú er það kunnugt, að Siglufjörður kemur til með að leggja 200 þús. kr. í fyrirtækið og verður þannig meðeigandi að 1/5 eða 1/4 hluta í verksmiðjunni. Er því ekki nema eðlilegt, að Siglufjörður vilji ráða nokkru um það, hvort fyrirtækið verður selt strax eða ekki. Þar sem þegar er gert út um það, að verksmiðjan skuli standa á Siglufirði, verður og að tryggja honum rjett til afskifta af sölu, er fram kynni að fara. Að öðrum kosti verður ríkið að taka það á sig að greiða Siglufirði nú þegar þær 200 þús. kr., er þeir leggja í fyrirtækið í lóðum og öðru, ef það vill selja verksmiðjuna. Þess vegna er það sjálfsagt, að Siglufjörður hafi aðstöðu til þess að ráða nokkru um það, hvort verksmiðjan er seld. Það virðist heldur ekki á nokkum hátt geta orðið háskalegt, því ef samvinnufjelag yrði stofnað til þess að kaupa verksmiðjuna, munu það að mestu leyti verða Siglfirðingar. Er það aðallega af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi verða þeir aðalviðskiftamenn verksmiðjunnar, og í öðru lagi af því, að þeir eru búsettir á staðnum, þar sem fyrirtækið er starfrækt, og hljóta því að hafa meiri áhrif á þessi mál heldur en aðrir viðskiftamenn verksmiðjunnar, sem dreifðir eru út um alt land, og eru þess vegna ekki heldur eins fastir viðskiftavinir og hinir, er búsettir eru rjett hjá henni. Er af þessum orsökum heldur ólíklegt, að árekstur verði milli samvinnufjelagsins og Siglfirðinga og hindri það, að salan nái fram að ganga, ef til kemur. Það er því engin ástæða fyrir þá vœntanlegu samvinnumenn að óttast það, þó það ákvæði verði sett í frv., að Siglufjörður skuli hafa íhlutunarrjett hvað söluna snertir.

Jeg mundi ekki leggja svona mikið kapp á þetta atriði, ef ekki væri búið að ganga svo frá því, að Siglufjörður skyldi vera meðeigandi í verksmiðjunni. Veit jeg það, að það er hv. 6. landsk. ljóst, enda þótt hann hafi flutt brtt. við brtt. á þskj. 640, að þó Siglufjörður eigi ekki nema í verksmiðjunni, þá hlýtur hann að hafa rjett til íhlutunar um sölu þess hluta.

Hv. þm. Snæf. undraðist það, að jeg skyldi vilja halda óbreyttu því ákvæði, er var í lögunum frá í fyrra, þar sem þinginu er trygður rjettur til þess að ráða því, hvort verksmiðjan er seld eða ekki. En mjer er spurn: Hvers vegna má ekki láta komandi þing ráða því? Á að láta stj. ráða því, hvort selt er slíkt miljónafyrirtæki, sem hjer er um að ræða, án þess að þingið fái að ráða nokkru um það? Annars er það nú ekki aðalatriði 2. gr. í 1. frá í fyrra, heldur það, að ef slíkur samvinnufjelagsskapur æskir að kaupa, þá setji hann þær tryggingar, er ríkisstj. metur gildar. En ef það á að upphefja þessa 2. gr. l. frá í fyrra, þá er sjálfsagt að setja í þetta frv. ákvæði, er skyldi hlutaðeigandi kaupendur til þess að setja tryggingar, er ríkisstj. tekur gildar.

Hv. 3. landsk., sem hefir þann sið að hlaupa út úr deildinni, ef hann á von á því, að honum sje svarað, talaði um það, að samkv. 4. gr. frv. væru viðskiftamönnunum settir svo þröngir kostir, að enginn mundi vilja skifta við verksmiðjuna, heldur mundu þeir allir fara til hinna verksmiðjanna. Þeir geta talað fagurlega fyrir hönd síldarverksmiðjanna, sem þekkja þær jafnvel og hv. 3. landsk. En jeg býst við því, að sumir aðrir hafi aðra sögu að segja af verksmiðjunum, sem nú eru starfræktar hjer á landi, en það, að ástæða sje að óttast samkepni frá þeim. Nýlega hefir frjetst, að þœr ætli að gefa 5–6 kr. fyrir síldarmálið í sumar, en í fyrra gáfu þær þó 7.50–8 kr., og græddu þó stórfje. T. d. var gróði Krossanesverksm. 170 þúsund kr. Ef miðað er við það, að sama eða svipuð umsetning verði hjá verksmiðju ríkisins, þá þarf ekki reikningsglöggan mann til þess að sjá, að ekki er hœtt við því, að kosti viðskiftamannanna verði þröngvað, þó hún leggi svo sem 50 þús. kr. í varasjóð til tryggingar.

Það er fjarri því, að jeg sje mótfallinn því, að samvinnufjelag með heilbrigðum hugsunarhætti taki í sínar hendur þessa verksmiðju, sem ríkið er að koma upp til hjálpar útgerðarmönnum og öðrum, sem þennan atvinnuveg stunda. En jeg er á móti því, að henni sje kastað í hendur þeirra manna, er ár eftir ár hafa verið að burðast við það, árangurslaust þó, að stofna fjelagsskap til þess að selja afurðir sínar og ekki getað komið þeim fjelagsskap á. Það eru varla nema hálfgerðir fábjánar, er hugsa sjer slíkt. Segi jeg þetta til hv. 3. landsk., sem nú er kominn hjer í deildina, en sem virðist hafa mikla trú á fjelagsskap þessara manna.