15.05.1929
Efri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3113 í B-deild Alþingistíðinda. (1992)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Jón Þorláksson:

Það stóð svo á, að jeg þurfti að skreppa út úr deildinni til að fá mjer svaladrykk, og þar sem þetta frv. er stjfrv. og sú litla breyt., sem á því er orðin, er flutt af hálfu stjórnarflokksins, taldi jeg mjer ekki skylt að leggja neitt til málanna að svo stöddu. En þó þó hv. þm. hafi kastað einhverjum hnútum til mín. svara jeg því ekki, nema að hví leyti sem mjer sjálfum hentar hvorki á fundum nje í blöðum. Það er ekki af hugleysi, heldur af því, að mjer finst slík hnútuköst vera hæfilegt verkefni fyrir andstæðinga mína. en jeg lít svo stórt á mig, að mjer finst það einatt of lítilmótlegt fyrir mig. Út af því, sem hv. þm. Ak. sagði um hv. þm. Snæf., get jeg sagt það, að mjer finst, að hv. þm. Ak. ætti að fullkomna nám sitt í algengustu barnaskólanámsgreinum eins og t. d. lestri, áður en hann gerir sig að dómara um þingmenskuhæfileika hv. þm. Snæf. (EF: Vill þá ekki hv. 3. landsk. læra reikning um leið og jeg læri lesturinn?).

Hæstv. ráðh. var að böglast við að skýra, af hverju hann bæri heitari ást til ríkisrekstrar en samvinnu, og það er náttúrlega góðra gjalda vert. En mjer lá við að vorkenna hæstv. ráðh., þegar hann líkti samvinnumönnum við trúboða, en okkur hinum við negra, sem vonlaust væri fyrir trúboðana að geta snúið til rjettrar trúar. Annars var það einskonar 1000-ára-ríki, sem hæstv. ráðh. var að boða. Eftir 1000 ár yrðu kannske menn í þessu landi, sem reynandi væri að boða samvinnustefnu. Jeg veit ekki, hvernig jeg á að taka þetta. Hæstv. ráðh. hefir lýst yfir því áður, að hann teldi síldarútvegsmenn ófæra til að taka við jafnháleitri kenningu og samvinnukenningunni. En á síðasta þingi sat við hlið hæstv. ráðh. síldarútgerðarmaður, sem var samvinnumaður hans í stj. landsins. Magnús sál. Kristjánsson fjmrh. Jeg rifja þetta upp til að sýna, að til eru góðar undantekningar, líka á meðal útvegsmanna.

Hæstv. ráðh. spurði af hverju jeg væri nú með samvinnu. Jeg hefi gert grein fyrir því áður. Jeg álít fjárhagsafkomu fyrirtækisins best trygða með því móti, og ekki vel trygða með neinu öðru móti. Það veltur fyrst og fremst á því að þeir sem við verksmiðjuna skifta í góðum árum og meðalárum hlaupi ekki á burt í vondum árum en ef þeir eru sjálfir eigendur fyrirtækisins falla hagsmunir þess og þeirra saman.

Fyrir utan þetta eru allar þær sömu ástæður, sem gera það eðlilegt að þetta sje rekið sem samvinnufyrirtæki, eins og slátrun á sauðfje bænda er rekin af samvinnufjel. þeirra sjálfra. Þær ástæður veit jeg að hæstv. dómsmrh. skilur og þær eiga allar við þennan atvinnurekstur síldarútvegsmanna.

Hitt er beinlínis hugarburður hæstv. dómsmrh., að jeg sje á móti samvinnufjelagsskap. Jeg er með hverri þeirri tilhögun, sem getur hjálpað einstaklingunum til þess að ná betri efnalegri afkomu. Einstaklingsframtakið er alstaðar gagnlegt, en sumu er þó auðveldara að koma í kring með fjelagsframkvæmdum. Samvinnutilhögunin er oft hentugust fyrir fjelagsframkvæmdir landbúnaðarins; á ýmsum öðrum sviðum er hlutafjelagsfyrirkomulagið heppilegra. Jeg get felt mig við það, sem við á í hverri grein, þar á meðal samvinnuskipulagið. Mjer er þetta alt saman jafnkært, ef mönnum er frjálst að beita því, sem við á.

Jeg kannast heldur ekki við það fyrir hönd þess flokks, sem jeg telst til, að hann sje á móti samvinnuskipulaginu, þar sem það á við fremur en annað snið á atvinnurekstrinum. En það er ekki mitt hlutverk að boða hæstv. dómsmrh. þá samvinnutrú, sem hann er nú á góðum vegi með að ganga frá. Hann segir, að samvinnufjelagsskapurinn hafi ekki þrifist meðal útgerðarmanna, sjómanna og verkamanna. (Dómsmrh.: Jeg nefndi ekki verkamenn). Jæja, látum þá leiðrjettingu hans standa. En hvað segir hann þá um samvinnufjelag Ísfirðinga? Mjer er sagt, að það fjelag blómgist. Það gæti farið eins um síldarútveginn, ef samvinnumenn lofuðu síldarútvegsmönnum að koma í kirkju til sín og reyna samvinnuskipulagið.