22.02.1929
Neðri deild: 5. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallssson):

Jeg hafði gert ráð fyrir að fylgja þessu máli úr hlaði með ítarlegri ræðu, eins og það hefði verðskuldað, en þar sem jeg hefi haft allmikið annríki nú undanfarið, og hinsvegar hafa gerst þeir atburðir við hlið okkar nú á síðustu stundum, sem verða til þess að draga athygli manns frá öðru, verð jeg að þessu sinni að láta það nægja, að fylgja því úr hlaði aðeins með fáum orðum. Það, sem þá fyrst kemur til athugunar, er sú spurning, hvort það í raun og veru sje nauðsynlegt og eðlilegt að hafa sjerstaka lánsstofnun fyrir landbúnaðinn. Má þá fyrst minna á það, sem reynslan hefir sýnt, að landbúnaðurinn hefir allmjög orðið útundan hvað snertir rekstrarfje frá bönkunum, samanborið við sjávarútveginn. Þetta hefi jeg haft sjerstaka aðstöðu til þess að kynna mjer, fyrst sem endurskoðandi Landsbankans í mörg ár, og kynti jeg mjer þetta þá sjerstaklega, og síðar vegna stöðu þeirrar, sem jeg hefi nú sem formaður bankaráðs Íslandsbanka, og hefi jeg látið athuga þetta þar fyrir mig.

Það hefir og sýnt sig, að vöxtur sá, sem orðið hefir í þjóðlífi okkar síðustu mannsaldrana, hefir nær eingöngu orðið við sjávarsíðuna. Það stafar af því, að þangað hefir fjármagninu verið beint nálega alveg einhliða.

Þá er önnur ástæðan, sem rjettlætir það, að landbúnaðurinn fái sjerstaka lánsstofnun sú, að þessir tveir atvinnuvegir, landbúnaður og sjávarútvegur, eru svo mjög ólíkir í eðli sínu, að þeir þeirra hluta vegna hafa mjög ólíkan rjett til lánskjara.

Kunnugt er um hið gífurlega tap bankanna á útlánum, og má nefna 20 milj. kr. til þess að tilfæra ekki of háa tölu. Jeg hefi sem endurskoðandi Landsbankans um nokkur undanfarin ár átt kost á að kynna mjer, á hvaða sviðum fje þetta hefir tapast. Og trúnaðarmaður minn hefir athugað þetta sama í Íslandsbanka. Er niðurstaða þeirrar athugunar sú, að innan við 2% af þessari upphæð hafi tapast á lánum til landbúnaðarins. Það er því rjettlætiskrafa, að landbúnaðinum sjeu veitt betri vaxtakjör með því að koma á fót sjálfstæðri lánsstofnun, sem miðuð sje við eðli hans og þarfir.

Í þriðja lagi má geta þess, að sporið er nú þegar stigið að nokkru leyti. Við höfum þegar tvær stofnanir, sem verða liðir í þessu kerfi, Ræktunarsjóðinn, sem starfað hefir síðustu ár og lög voru sett um 1925, og Byggingar- og landnámssjóðinn, sem lögfestur var á síðasta þingi og tekur væntanlega til starfa á þessu ári. Sporið er því orðið styttra að fullnægja rjettmætum kröfum sveitanna um lánsstofnanir, er sjeu í samræmi við þarfir þeirra og fullnægi þeim sem best.

Að síðustu örfáar athugasemdir.

Auk þess, sem nú hefir verið nefnt, að um rjettmæta og alveg sjálfsagða lánsstofnun sje að ræða fyrir landbúnaðinn, þá er rjett að geta þess, að á bak við frv. þetta liggur sterk trú á því, að landbúnaðurinn íslenski eigi góða framtíð fyrir höndum, og því sje það fyllilega rjettmætt að beina til hans meira fje með rjettlátum kjörum. Hitt er mjer og ljóst, að nokkur hætta getur fylgt auknu fjármagni. Það, sem í sjálfu sjer er gott, getur snúist til ills, ef illa er með farið. En framhjá þeirri hættu yrði stýrt, ef hepnast mætti að fá þá forstöðumenn fyrir stofnunina, sem með forsjá og gætni stýrðu framhjá þeim skerjum, sem hættulegust hafa reynst.

Þá er og í öðru lagi þess ekki að dyljast, að þetta frv. er fram borið í fullu trausti þess, að sú festa, sem hefir verið á genginu nú um hríð, haldist óbreytt framvegis. Það leikur ekki á tveim tungum með það, að Ræktunarsjóðurinn og Byggingar- og landnámssjóður byggjast og á hinu sama. Og það er naumast annað hægt að segja en að það sjeu bein svik við þá, sem í góðri trú hafa tekið í útrjetta hönd Alþingis, ef á þá verður lagður hár skattur gengishækkunar. Það er því í raun og veru eitt af undirstöðuatriðum þessa frv., að genginu verði haldið föstu og að síðustu fest þar, sem það er nú, eða því sem næst.

Þróun þjóðfjelagsins hefir verið sú á síðustu áratugum, að aðalframfarirnar hafa orðið við sjóinn. Fje bankanna hefir að mestu lent þar og fólksfjölgun þjóðarinnar, og meira þó. Það er ekki ætlun mín að fara að ræða það mál alment nú. En að sú stefna er óheppileg, að öll fólksfjölgunin lendi við sjóinn, erum við rækilega mintir á með þeim tíðindum, sem gerst hafa hjer síðustu dagana. Þegar ekki er farið á sjó á þeim allra fullkomnustu tækjum, sem til eru, í því góðviðri, sem verið hefir og útliti, þá er auðsætt, að ekki er einhlítt fyrir þjóðfjelagið að eiga alt sitt undir samkomulagi slíkra aðilja. — Þegar svo er ástatt um aðalatvinnuveg landsmanna, þá er það naumast rangt að beina viðreisnarstarfinu frekar en gert hefir verið að þeim atvinnuveginum, sem enn hefir ekki haldið að sjer höndum þegar vinna bar. Þeir atburðir, sem gerðust í gær, er enn var hafnað sáttatillögu, eru í raun og veru hávær rödd um það að koma á fót myndarlegri lánsstofnun fyrir landbúnaðinn.

Undirbúningur þessa máls hefir verið vandaður svo sem frekast var hægt. Er síðasta þingi sleit, fjekk stjórnin þann mann, er hún vissi færastan til að undirbúa frv. þetta, — Böðvar Bjarkan, lögmann á Akureyri, sem sjerstaklega hafði kynt sjer þetta mál, er hann sigldi til undirbúnings á ríkisveðbankalögunum. Hann hefir samið þetta frv. og einnig hið næsta. Svo heppilega vildi til, að frv. kom það tímanlega, að hægt var að vjelrita það og senda út til athugunar. Hafa borist rækilegar athuganir á því frá allmörgum. Þá hefir frv. og verið rætt og athugað á Búnaðarþinginu, og verða álit öll og till. um það lögð fyrir þá þingnefnd, sem fær frv. til. athugunar.

Þetta frv. er fram borið í öruggu trausti þess, að gott megi af því leiða. Vona jeg, að það komist gegnum hv. þingdeild án þess að af því hljótist miklar deilur. Legg jeg svo til, að því verði að lokinni umr. vísað til landbn. og hljóti þar góða og skjóta afgreiðslu. (HV: Jeg legg til, að því verði vísað til fjhn.).