17.05.1929
Neðri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3124 í B-deild Alþingistíðinda. (2002)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Dómsmrh. ( Jónas Jónsson):

Jeg vil segja nokkur orð út af þeirri skriflegu brtt., sem hjer er fram komin. Eins sjálfsagt og það var að leyfa þeirri till. að komast að, eins sjálfsagt er að fella hana við atkvgr.

Það á nú að slíta þingi eftir nokkra daga, og er því ilt að þurfa að hrekja mál á milli deilda, og getur auk þess orðið til þess, að þau dagi uppi. Sú óánægja, sem hjer hefir risið upp á meðal þeirra, sem bættu því inn í frv., að mynda mætti samvinnufjelagsskap utan um síldarverksmiðjuna, út af þeim breyt., sem hv. Ed. gerði á þessu ákvæði, er líka á misskilningi bygð, því að þetta er nú betur skilgreint en áður var. Hv. Ed. þótti ekki nógu vel gengið frá þessu ákvæði eins og það kom frá þessari hv. deild, því að samkv. því gat lítill hópur lítt úthaldsgóðra manna — það þurfti ekki nema 15 menn til þess að mynda þennan fjelagsskap — krafist þess, að ríkið afhenti þeim þessa verksmiðju, sem það var búið að reisa með súrum sveita. Ástæðan til þess, að ríkið ræðst í þetta, er sú, að það vantar eðlileg samtök á meðal framleiðendanna í þessu efni. Það var annað með kælihúsin. Þar stóð fjelagsskapur á bak við, sem landið þurfti ekki annað en að styðja. Ef hjer á að fara að mynda fjelagsskap. þarf hann að vera fjölmennur og sterkur og vita, hvað hann vill, en jeg fæ ekki sjeð, að neitt bóli á því, heldur vilja þessir menn, að landið ryðji brautina fyrir sig.

Jeg skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum. Eins og þessi till. er nú, er hægt að selja samvinnufjelagsskap, sem myndaður yrði, verksmiðjuna, og breyt. hv. Ed. fer einungis í þá átt að hindra, að of fámennur hópur geti tekið ákvörðun um slíka fjelagsstofnun, án þess að það sje rækilega undirbúið.