17.05.1929
Neðri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3127 í B-deild Alþingistíðinda. (2004)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Jóhann Jósefsson:

Jeg vildi leiðrjetta misskilning, sem kom fram hjá hv. 1. þm. S.-M. Hann taldi, að hin skriflega brtt., sem hjer hefir komið fram, væri eingöngu frá mjer. Þetta er ekki rjett. Hún er borin fram af mjer og hv. 2. þm. G.-K. í sameiningu, eða með öðrum orðum minni hl. sjútvn.

Hv. 1. þm. S.-M. og hv. þm. Mýr. könnuðust báðir við, að hv. Ed. hefði skemt þetta frv. til muna, en þeir töldu hinsvegar, að ef hjer væri nú farið að gera breyt. á því, væri frv. stefnt í voða, þannig að það næði ekki fram að ganga á þessu þingi.

Jeg verð nú að leyfa mjer að halda því fram, að þessi ástæða gegn því, að frv. verði breytt hjer til viðunanlegs horfs aftur, er hreinasta yfirskinsástæða — og ekkert annað. Eins og hv. 1. þm. S.-M. og hv. þm. Mýr. vita báðir, eru allir á sama máli um það, íhaldsmenn engu síður en framsóknarmenn, að nauðsynlegt sje að koma upp síldarverksmiðjunni. Það er því á misskilningi bygt, að með því sje verið að eyðileggja málið, þótt þessi brtt. sje sett inn, því að það er lafhægt að taka málið á dagskrá í hv. Ed. með afbrigðum þegar í dag, þannig að þar verði haldinn annar fundur, og síðan að afgreiða það með afbrigðum í Sþ. með öðrum fundi á eftir þeim, sem þar á að halda í kvöld. Það, sem hjer veltur því alt á, er það, hvað menn vilja gera í þessu efni, og jeg hygg, að mjer sje óhætt að lýsa yfir því fyrir hönd okkar íhaldsmanna, að við munum allir standa að þessu máli, þótt þessi brtt. verði sett inn, og vinna að því, að það vefði ekki tafið, enda væri einkennilegt, ef farið væri til þess, þar eð þetta mál er eitthvert mesta nauðsynjamál síldarútvegsins.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að jeg hefði sagt, að hásetarnir mættu ekkert eiga í þessu fyrirtæki. Þetta er ekki rjett. Hitt sagði jeg, að eftir till. hv. Ed. væru það hásetarnir, sem öllu ljeðu, ef til þess kæmi, að þessi fjelagsskapur yrði stofnaður, en útvegsmennirnir hinsvegar litlu sem engu. Og jeg býst við því, eftir því taumhaldi, sem jafnaðarmenn virðast hafa á sjómönnum, að þeir muni ekki telja eftir sjer sporin til þess að hindra það, að fyrirtækinu verði breytt í samvinnufjelag.

Hæstv. dómsmrh. gerði alleinkennilega upp á milli hv. Ed. og Nd. í ræðu sinni áðan. Hann lýsti yfir því, að ákvæðin um þennan væntanlega samvinnufjelagsskap væru miklu skýrari hjá hv. þm. Ak. og hv. 2. þm. S.-M. en hjá hv. þm. Mýr. og hv. þm. V.- Ísf., að það væri miklu ljósari og skilmerkilegri hugsun í þessu hjá sósíalistunum í Ed. en samvinnumönnunum hjer. Og blessaðir samvinnumennirnir í þessari hv. deild beygja höfuð sín í duftið, hörfa frá sínum samvinnutill., kyngja till. sósíalistanna í hv. Ed. og „gefa ríkið Persum og Medum á vald“. Það eina, sem þeir afsaka þessa framkomu sína með, er það, að málinu sje stefnt í voða, ef gerðar verða hjer breyt. á frv. nú; en sú ástæða er óframbærileg, þegar þess er gætt, hvað málið kefir mikið fylgi hjer í þinginu, eins og jeg hefi áður sýnt fram á.

Eftir till. framsóknarmanna hjer í þessari hv. deild var stj. heimilað, ef helmingur framleiðenda myndaði samvinnufjelag sín á milli, að selja slíku fjel. síldarbræðsluverksmiðjuna. Þetta fanst hæstv. dómsmrh. ekki eins skýi samvinnuhugsun eins og hjá ríkisrekstrarmönnunum í hv. Ed., en þessi „skýra hugsun“ þeirra síðarnefndu, sem ráðh. er svo geðþekk, kemur fram í því að gera þetta ákvæði að engu með því að heimila ákvæðisrjettinn um þetta svo mörgum sjómönnum, að þeir yrðu yfirgnæfandi í fjelaginu, ef það yrði stofnað. En áður hefi jeg bent á það, að forráðamenn sjómanna eru yfirlýstir einokunarmenn. Það bendir því ótvírœtt til þess, að hæstv. dómsmrh. standi nœr þessum mönnum en samvinnumönnunum, þegar hann lýsir afdráttarlaust yfir því, að till. einokunarmannanna í hv. Ed. sjeu betri og skýrari en till. samvinnumannanna hjer í þessari hv. deild.

Það skyldi engan undra, þótt nú á 11. stundu komi hljóð úr horni frá hœstv. dómsmrh. í þessu máli og hann sýni sinn rjetta lit í því. En mjer þykir sem þung kvöð sje lögð á framsóknarmenn þessarar hv. deildar, þegar þeir eru knúðir á móti vilja sínum, eins og skilja mátti á hv. þm. Mýr., sem sagði, að hv. Ed. hefði stórskemt þetta frv. og lýsti yfir því, að hann vœri reiðubúinn síðar til samvinnu um að bæta úr þessu, þegar þeir eru knúðir af hæstv. dómsmrh. og jafnaðarmönnum til að drepa sínar eigin till. í þessu máli, og neyddir til að ganga undir einokunarok sósíalistanna í hv. Ed. Jeg fyrir mitt leyti hefði kosið hv. þm. Mýr. og hv. þm. V.-Ísf. og öðrum framsóknarmönnum virðulegra hlutskiftis en það, að vera neyddir til þess að draga einokunarhlass sósíalista og kommúnistanna í gegnum þessa hv. d.