17.05.1929
Neðri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3148 í B-deild Alþingistíðinda. (2014)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Jóhann Jósefsson:

Jeg þarf aðallega að standa upp til þess að bera af mjer sakir; að öðru leyti sje jeg ekki ástæðu til að deila lengi við þá tvo hv. þm., sem síðast töluðu. Hv. þm. Mýr. hefir gert lítið úr samvinnuáhuga okkar Íhaldsmanna, en jeg hefi þó verið að sporna við því, að borið yrði út hans eigið afkvæmi hjer í deildinni. En það er ekki að búast við, að mjer takist að varna því, þegar hann berst sjálfur á móti og reynir nú að drepa sína eigin till.

Hv. 1. þm. S.-M. þótti svo langt gengið og bar sig svo illa undan því að þurfa að tala í þessu máli, að hann kvaðst ekki eiga annað eftir en að leita til aðstoðar dómstólanna.

Það er annars full von til þess um svo skýran og gegnan þm., að hann kunni því illa þegar honum er bent á, hvernig hann hefir orðið að láta í minni pokann fyrir jafnaðarmönnum. Að því er snertir frv. um fiskiveiðasjóð Íslands, þá er það augljóst, að það verður nú látið sofna í Ed., af því að vinir hans jafnaðarmenn eru því frv. mótfallnir. Það hefði vitanlega komist fram í Ed., ef framsóknarmenn hefðu veitt því fylgi, þar sem íhaldsmenn voru allir með því. — Þetta veit hv. þm. eins vel og jeg. (SvÓ: Á jeg að bera ábyrgð á þessu?). Jeg kvaddi mjer hljóðs sjerstaklega til þess að mótmæla þeirri ásökun hv. 1. þm. S.-M. til okkar íhaldsmanna, að við töluðum á móti þeim skemdum, sem gerðar hefðu verið á frv. í hv. Ed., aðeins vegna þess, að við vildum granda málinu. Þetta eru mestu fjarstæður. Okkur er það vel ljóst, að síldarútvegnum er það hin mesta nauðsyn, að verksmiðjan verði reist. Og ásökun hans um, að við viljum stuðla til þess, að frv. verði felt í sameinuðu þingi. er algerlega röng og gripin úr lausu lofti. En hv. Ed. hefir farið svo með þau ákvæði, er snertu stofnun samvinnnfjel. síldarútvegsmanna, að sú heimild er með öllu gagnslaus eins og hún er nú í frv., og það er þetta, sem jeg og aðrir íhaldsmenn í þessari hv. deild höfum ekki viljað una við, og hlotið óþökk samvinnumannanna“ hjer fyrir.