28.02.1929
Efri deild: 10. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3150 í B-deild Alþingistíðinda. (2017)

39. mál, einkasala á síld

Flm. (Erlingur Friðjónsson):

Eins og kunnugt er, afgreiddi síðasta þing lög um einkasölu á síld; en við framkvæmd þeirra laga hefir það komið fram, að nauðsynlegt er að gera á þeim ýmsar breyt. Þess vegna er þetta frv. fram komið. Stj. og framkvæmdastjórar síldareinkasölunnar telja brýna þörf á þessum breyt.

Tilgangur einkasölulaganna er sá, að safna undir söluyfirráð einkasölunnar allri þeirri síld, sem veidd er á íslensk skin og verkuð til útflutnings. En ákvæði laganna um þetta efni eru ekki nægilega skýr. A. m. k. eru möguleikar á því, og hefir jafnvel eitthvað verið að því gert, að selja síld út fyrir landhelgina og stofna með þeim hætti til samkeppni við einkasöluna. Frv. á m. a. að ráða bót á þessu.

Söltun síldarinnar hefir hingað til verið í höndum einstakra manna, sem veitt hafa síldina eða keypt til söltunar. En nú er ætlast til, að einkasalan sjálf taki í sínar hendur umráð söltunarinnar. Vöndun á verkun síldarinnar er nú ekki eins góð og æskilegt væri. En stj. einkasölunnar telur líklegt, að hægt væri að ráða bót á henni, ef einkasalan fengi meiri yfirráð yfir söltuninni en hún hefir nú samkv. lögunum.

Það var eigi gert ráð fyrir því í einkasölulögunum frá síðasta þingi, að einkasalan sjálf útvegaði tunnur og salt. En í framkvæmdinni fór þetta svo, að hún útvegaði meira en helming þess, sem með þurfti af þeim vörum, þó í lögunum væri aðeins heimild fyrir einkasöluna til að aðstoða við slík innkaup. En þetta stafar af því ástandi, sem áður var. Þá höfðu útlendingar þetta alt í sínum höndum; enda hefðu innlendir framleiðendur orðið að leggja fram miklu meira fje en þeir gerðu, ef svo hefði ekki verið. Og eftir að einkasalan var tekin til starfa kom það í ljós, að fæstir útgerðarmenn voru þess megnugir að leggja fram fje til þessara innkaupa, sem útlendingar höfðu áður með höndum. Hefði einkasalan ekki hjálpað þeim til þess, mundi miklu minna hafa verið saltað af síld en varð í sumar, og afleiðingarnar orðið stórtjón fyrir framleiðendur og verkafólk.

En úr því að reynslan hefir sýnt, að þetta þarf að gera, teljum við flm. frv., að einkasalan verði að fá heimild til þess í lögum. Eins og kunnugt er, þá er þetta nýja skipulag eigi sterkara en svo, að einkasölunni er ætlað að starfa án rekstrarfjár. Hún hefir enga samábyrgð og ekkert hlutafje. Slíkt getur ekki gengið til lengdar. Í frv. er farið fram á, að ríkið aðstoði hana með nokkurri ábyrgð, til að forða fyrirtækinu frá verstu fjárkröggum. Það vill nú svo vel til, að síldarútvegurinn á talsverða hönk upp í bakið á ríkinu, því að hann hefir hingað til verið skattlagður mun meira en aðrir atvinnuvegir. Af síldarafurðum er nú greitt miklu hærra útflutningsgjald en öðrum útflutningsvörum. Það er því eigi óeðlilegt, að ríkið veiti einkasölunni einhvern fjárhagslegan stuðning, á meðan hún er að koma fyrir sig sjóðeignum. Ennfremur er gert ráð fyrir því í frv., að framlög verði meiri til sjóða heldur en ákveðið er í lögunum. Nái sjóðirnir að eflast, verður minni þörf ríkisábyrgðarinnar.

Jeg sje svo eigi ástæðu til að fjölyrða meira um frv. við þessa umr. Jeg geri ráð fyrir, að því verði vísað til sjútvn., þar sem við flm. þess eigum báðir sæti, og að við fáum bæði þar og við 2. og 3. umr. tækifæri til að skýra það nánar. Jeg endurtek svo uppástungu mína um, að frv. verði vísað til sjútvn.