28.02.1929
Efri deild: 10. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3152 í B-deild Alþingistíðinda. (2018)

39. mál, einkasala á síld

Jón Þorláksson:

Jeg þarf varla að taka það fram, að jeg er andvígur stefnu þessa frv. að því leyti, sem það gengur lengra en áður var gert í því að draga undir ríkið atvinnurekstur, sem einstakir menn hafa haft með höndum. Þessa stefnu tel jeg alranga. En hjer fer eins og oftar, að ein syndin býður annari heim, og þegar búið er að stíga fyrsta sporið, hættir mönnum jafnan við að stíga það næsta. Að öðru leyti sje jeg ekki ástæðu til að fara langt út í þetta mál nú við 1. umr. Jeg vil þó ekki láta hjá líða að benda á það, að frv. felur í sjer viðurkenningu á einu atriði, sem mjög mælir gegn ríkisrekstri. Niðurstaðan af slíkum rekstri verður jafnan sá, að ríkissjóður missir tekjur af atvinnurekstrinum, sem hann hafði meðan atvinnureksturinn var í höndum einstaklinga.

Nú fer þetta frv. fram á að svifta ríkissjóð 2/3 af síldarútflutningsgjaldinu; get jeg raunar hugsað, að það sje nauðsynlegt handa þessu óheppilega fyrirtæki, að það fái að seilast í ríkissjóðinn, svo að afkoman stingi minna í stúf við það, sem áður var. En í mínum augum er þetta ákvæði góð sönnun þess, hvernig fer þegar einstaklingarnir eru sviftir umráðum og rjetti til atvinnurekstrar.