10.04.1929
Efri deild: 41. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3160 í B-deild Alþingistíðinda. (2027)

39. mál, einkasala á síld

Frsm. minni hl. (Halldór Steinsson):

Eins og sjest á nál. minni hl., hefi jeg ekki getað orðið sammála hv. meiri hl. sjútvn. um frv. — Eins og nál. ber með sjer, lít jeg svo á, að lögin frá síðastl. ári sjeu óaðgengileg og meingölluð. Og þetta frv. er síst til þess lagað að bæta úr lögunum, en gerir þau til muna óaðgengilegri en þau eru nú.

Í þessu frv. er í fyrsta lagi ætlast til þess, að einkasalan hafi sjálf með höndum alla verkun síldarinnar, sem ætluð er til útflutnings. önnur aðalbreyt. er svo afleiðing af hinni, þannig að einkasalan á sjálf að annast innkaup á tunnum og salti. Þriðja aðalbreyt. er sú, að ríkissjóður gefi einkasölunni eftir 2/3 hluta af útflutningsgjaldinu á síldinni.

Um tvær hinar fyrtöldu breyt. er það að segja, að þær eru varhugaverðar bæði fyrir útgerðarmenn og einkasöluna sjálfa. Það er langt gengið, þegar útgerðarmönnum er bannað að salta síld og nota verkafólk sitt við síldarverkun; og ekki er síður langt gengið með því að meina þeim að kaupa tunnur og salt þar, sem þeir telja sjer það haganlegast. Afleiðingin yrði sú, að þeir fengju minna fyrir síldina en ella. Og þegar litið er á þetta frá hálfu einkasölunnar, hlýtur það að teljast varhugavert. Einkasalan á ekki að vasast í öðru en því, sem nauðsyn krefur. Það er óþarfi, að hún bindi fje fast í verslun með salt og tunnur og sje gerð að áhættusamara fyrirtæki en bein ástæða er til. — Og 3. atriðið, að ríkið gefi einkasölunni eftir 2/3 af útflutningsgjaldi síldarinnar, sem mun eigi nema minna en 200 þús. kr., þó það sje auðvitað dálítið mismunandi, virðist ekki á nokkurn hátt aðgengilegt. Jeg get að vísu viðurkent, að síldartollurinn er nokkuð hár, og óeðlilega hár, borið saman við útflutningstoll af öðrum vörutegundum. Gæti því verið ástæða til að lækka hann, og sennilega hefði jeg orðið því fylgjandi, ef komið hefðu fram heildarbreyt. á frv. sjálfu, á þann hátt, að tolllækkunin hefði komið útgerðarmönnum sjálfum að notum, sem tollinn greiða. En hjer á að kippa tollinum úr ríkissjóði, án þess að gjaldþegnar njóti nokkurs við það og verði varir við lækkunina. Þetta er í hæsta máta ósanngjarnt.

Þá liggja fyrir brtt. frá hv. 6. landsk. og 2. þm. N.-M. á þskj. 278; og í 4. brtt. b-lið á því þskj. er farið fram á, að þetta ákvæði verði felt burtu úr frv., og mun jeg ljá þeirri till. atkv. mitt, því að hún er heilbrigð. En um hinar brtt. á sama þskj. er það að segja, að þær eru ýmist svo óákveðnar eða loðnar, að þær bæta ekkert úr göllum frv. Í fyrstu brtt. er sagt: „Heimilt er framkvæmdarstjórn síldareinkasölunnar að krefjast þess, að þeir, sem veiðileyfi hafa fengið, afhendi einkasölunni ferska síld til söltunar, þar sem því verður við komið, ef framkvæmdastjórnin telur það nauðsynlegt vegna starfrækslunnar, enda sje síldin útflutningshæf að dómi umboðsmanna einkasölunnar. Framkvæmdastjórnin sjer þá um eða ráðstafar verkun síldarinnar á þann hátt, er henni þykir hentast eftir markaðshorfum á hverjum tíma“. Þetta er svo óákveðið, að það má búast við sömu framkvæmdum, hvort sem samþ. verður brtt. eða frv. Hinar brtt. draga ekkert úr göllum frv. Jeg mun því aðeins greiða atkv. með b-lið 4. brtt. á þskj. 278, en á móti hinum öllum, og legg að öðru leyti til, að frv. verði felt.