10.04.1929
Efri deild: 41. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3162 í B-deild Alþingistíðinda. (2028)

39. mál, einkasala á síld

Jón Jónsson:

Jeg hefi leyft mjer ásamt hv. 2. þm. N.-M. að flytja brtt. við frv. á þskj. 278. Í fyrstu grein frv. þykir okkur kveðið fullfast að orði, að ákveða, að síldareinkasalan skuli taka við allri síld ferskri til útflutnings. Teljum við nægilegt, að einkasalan hafi fullan rjett eða heimild til þess að heimta síldina ferska af þeim, sem veiðileyfi hafa, þegar ástæða þykir til og nauðsyn krefur. Gerum við ráð fyrir, að aðalreglan verði, að framkvæmdarstjórn einkasölunnar semji við þá, sem veiða síldina, um söltun. Eftir því sem starfsmenn einkasölunnar skýra frá, hafa orðið misbrestir á söltun og flokkun síldarinnar á síðastl. ári. Þess vegna er heimildin nauðsynleg. En við ætlumst til, að hún verði notuð með gætni, og þess vegna vildum við ekki kveða fastar að orði.

Um 2. brtt. er það að segja, að við gerum eigi ráð fyrir, að það sje heppilegt að fækka framkvæmdastjórum síldareinkasölunnar, og leggjum því til, að 2. gr. frv. falli niður. — Þriðju brtt. teljum við þýðingarmikla. Hún er um að takmarka ábyrgðarheimild frá ríkinu fyrir lánum til einkasölunnar við það, að ábyrgðarupphæðin og varasjóður einkasölunnar á hverjum tíma nemi samtals eigi hærri upphæð en 500 þús. kr. Ábyrgð ríkissjóðs á að gilda til ársloka 1930. Þetta teljum við nauðsynlegt ákvæði, því að frv. er í þessu efni of glæfralegt. Okkur er það vel ljóst, að einkasalan þarf á miklu rekstrarfje að halda, og viðurkennum, að ríkið verði í byrjun að greiða fyrir veltufjárútvegun með einhverri ábyrgðarheimild. En í því efni verður að fara afskaplega varlega, og teljum við, að það sje gert með till. okkar.

Ef 4. brtt. okkar verður samþ., viljum við treysta á það, að einkasalan fái rekstrarfje í framtíðinni með auknum varasjóði. Við leggjum því til, að gjaldið til varasjóðs einkasölunnar verði hækkað úr 1/4% upp í 11/4%, svo að tekjur hans mundu þá verða um 60 þús. kr. á ári, eftir því sem reynslan var í sumar. Ætti það fljótlega að geta orðið álitleg upphæð til rekstrar einkasölunni.

Stærsta brtt. er við 6. gr., um að síðari málsgr. hennar falli niður. En samkv. þeirri málsgr. er ætlast til, að 2/3 hlutar af útflutningsgjaldi síldarinnar til ríkissjóðs renni framvegis í varasjóð einkasölunnar. Það mundi nema hátt á annað hundrað þús. kr. tekjurýrnun fyrir ríkissjóð, og er það meira en ríkissjóður má við að missa. Það mun of hátt áætlað hjá hv. þm. Snæf. að telja það 200 þús. kr. — Kemur það óneitanlega úr hörðustu átt, að forvígismenn og formælendur einkasölunnar, sem mesta trú hafa á því fyrirkomulagi, skuli leyfa sjer að fara fram á svo stórfelda lækkun á síldartollinum samhliða því, að sölufyrirkomulagið er stórbætt að þeirra dómi. Þennan lið gr. viljum við fella niður.

Loks er 5. brtt. okkar þess efnis, að þeir, sem eru í útflutningsnefnd einkasölunnar, umboðsmenn hennar og skrifstofuþjónar megi ekki reka síldarútveg, síldarsöltun eða kaupa síld til söltunar. Álítum við óheppilegt, að trúnaðarmenn einkasölunnar hafi einkahagsmuna að gœta í sambandi við hana og viljum útiloka, að hlutdrægni geti komist þar að.

Hv. frsm. meiri hl. talaði hlýlega um flestar brtt. okkar og andæfði aðeins b-lið 4. brtt., eins og búast mátti við. En sú till. fjekk aftur stuðning hv. frsm. minni hl., svo að jeg geri ráð fyrir, að brtt. okkar sigli gegnum þessa hv. deild.