03.05.1929
Neðri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3191 í B-deild Alþingistíðinda. (2040)

39. mál, einkasala á síld

Jón Ólafsson:

Jeg hefi ekki fyr sjeð ástæðu til að láta í ljós skoðun mína á þessu máli að öðru leyti en því, að á síðasta þingi greiddi jeg atkv. á móti því frv., sem nú eru gildandi lög um þetta efni. Þótt jeg væri þá mótfallinn málinu, er það ekki af því, að jeg horfi með svo miklum harmi á bak gamla tímanum í þessu efni. En þegar um breytingar er að ræða. verða menn altaf að gera sjer grein fyrir. hvort það spor, sem stigið er, er til bóta eða ekki.

Eins og hv. þm. Ísaf. tók fram, er rjett að bera saman afkomuna við fyrri tíma, en sú reynsla, sem fengist hefir af einkasölufyrirkomulaginu, er ekki betri en reynsla undanfarinna ára.

Það, sem lakast er við einkasöluna, er það, að borin hefir verið fyrir borð fagþekking þeirra manna, sem verslað hafa með þessa vöru, og ekki verið notuð eins og á öllum öðrum sviðum. Af öllum handiðnamönnum og smákaupmönnum er heimtuð sjerþekking. „Homopatinn“ jafnast ekki lengur á við lækninn, og þannig er sjerþekking hvarvetna tekin fram yfir í öllum greinum. En þetta fyrirtæki, síldareinkasalan, virðist ekki þurfa fagþekkingu, enda hafa forkólfarnir útilokað hana, eða því sem næst, frá öllum afskiftum af því máli.

Til þess að geta gert mjer grein fyrir afkomu síðasta árs og undanfarinna ára, hefi jeg gert skýrslu, sem sýnir meðalverð saltsíldar síðustu 6 árin. Eins og raun ber vitni, er verðið lægst þegar framboðið er mest, og kemur það líka ljóst fram í skýrslunum. Árið 1923 voru saltaðar 248 þús. tunnur og var meðalverð 24,00 kr. Þetta ár var sala mjög ljeleg, en er þó betri en síðastliðið ár. (HG: Jeg gleymdi að skýra frá því, að greiddir hafa verið til viðbótar 60 aurar á tunnu). Það kemur í sama stað niður, þótt greitt hafi verið á hverja tunnu kr. 24,60; útkoman verður samt lakari fyrir þjóðarbúið, þegar tekið er tillit til þess, að árið 1923 fiskaðist 1/3 meira af síld en í ár. — Árið 1924 er vörumagnið minna. eða 131 þús. tunnur, og meðalverð kr. 41,00. 1925 er vörumagn 241 þús. tn. og meðalverð kr. 31,70. Vörumagnið þetta ár er miklu meira en í ár, en selst þó hærra verði en tókst að selja það litla, sem saltað var í ár og selt var fyrir tæpar 33 Kr. tn., að jeg ætla. 1926 er eftirtektarvert ár. Þá er saltað um 10 þús. tunnum minna en í ár, eða ca. 163 þús. tn., en meðalverð þess árs er 40 kr. Skil jeg ekki, að þessar 10 þús. tn. hafi orsakað allan þann verðmun, og sjest þá best, að með gamla sleifarlaginu gengur salan stórum mun betur en í ár. 1927, sem er vandræðaár, er vörumagnið 267 þús. tn. og meðalverð kr. 25,60, þ. e. hærra en búið er að borga út nú. Skal jeg þó síst syngja því ári lof. 1928 er vörumagnið 174 þús. tn. og meðalverð ca. 33 kr., eftir því, sem sjeð verður. Meðalverð hinna 5 ára verður kr. 32,50 með öllum þeim vandræðum, sem jeg hefi lýst.

Það merkilega er, að þeir, sem versluðu fyrir eiginn reikning, höfðu ekki þann mikla kostnað, sem þessi sala virðist ætla að hafa. Því að ef ekki er hægt að greiða nema 25–26 kr. fyrir hverja tunnu, hafa fyrir klaufaskap runnið upp undir 8 kr. fyrir hverja tunnu í annara vasa og ýmislegt tilstand. Þessar tölur er ekki hægt að rengja. Því er engin ástæða til að syngja fyrirkomulagi því, sem nú er, lof, þótt vonandi megi lagfæra það með tímanum, ef ekki er einblínt á það um of, að stj. eigi að einskorða sig við að fá sínum flokksmönnum stjórn þessa fyrirtækis í hendur, hversu óhæfir sem þeir eru.

Hv. þm. Ísaf. dásamaði það mjög, að síðastl. ár hafi verið hægt að greiða 21 kr. fyrir hvert mál síldar, en áður hafi ekki fengist nema 18 kr. í hæsta lagi. Af meðaltali því, sem jeg hefi lesið upp, sjest, að það hefir eins verið hægt að greiða það verð fyrir hvert mál eins og nú. Árið 1926 virðast hafa verið greiddar 40 kr. fyrir hvert mál, með sama útreikningi og hv. þm. hafði áðan, og 1924 eitthvað líkt. Hv. þm. sagði, að ef ríkið hefði söluna á hendi, væri hægara að láta sem mest af andvirðinu lenda hjá fiskimönnum, en minna hjá „spekúlöntum“. Jeg er hræddur um, að hv. þm. geri of mikið úr gróða „spekúlantanna“; þeir hafa yfirleitt ekki fitnað af sínum atvinnurekstri, og því er það ljóst, að fjeð hefir runnið til landsmanna sjálfra, þeirra, sem við síldveiðamar unnu. Hvernig ríkið á að bæta úr þessu með ábyrgð sinni, fæ jeg ekki sjeð.

Á þessu stigi málsins sje jeg ekki ástæðu til að fara lengra út í þetta, og vildi jeg aðeins með þessum fáu orðum benda á, að menn hafa ekki hrept neitt sjerstakt hnoss með þessari einkasölu, því að salan hefir síst farið betur úr höndum hjá einkasölunni en þegar einstaklingar áttu sjálfir yfir sölunni að ráða.

Vona jeg, að þessi ófagnaður standi ekki næstu 6 ár, svo að ekki þurfi að taka meðaltal næstu 6 ára, því að jeg er sannfærður um, að það meðaltal verður síst betra.

Jeg mun svo ekki skifta mjer frekar af máli þessu við þessa umr., nema jeg fái sjerstakt tilefni til þess.