11.05.1929
Neðri deild: 66. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3203 í B-deild Alþingistíðinda. (2046)

39. mál, einkasala á síld

Frsm. minni hl. (Jóhann Jósefsson):

Hv. frsm. meiri hl. hefir nú lýst, hverjar breyt. eru hjer á ferðinni með þessu nýja frv. til l. um einkasölu á síld. Jeg verð nú að segja það, að jeg er mjög óánægður með þá afgreiðslu, sem þetta mál fjekk í sjútvn., þar sem málið var ekki tekið öðruvísi fyrir en að það var aðeins lagt fram, og svo tekin afstaða til þess að alveg óathuguðu máli. Jeg mótmælti þessari hroðvirknislegu afgreiðslu í n., en það kom fyrir ekki. Meiri hl. virtist vera alveg staðráðinn í því að samþ. frv. eins og það lá fyrir og verja ekki neinum tíma í að athuga brtt. minni hl. og vildi ekki taka neitt tillit til þeirra. Við þetta gat minni hl. ekki ráðið, en hinsvegar get jeg ekki annað en lýst yfir því fyrir hans hönd, að þegar um svona stórmál og veigamikil atriði er að ræða, þá er þetta alveg óviðeigandi og óverjandi afgreiðsla. Að vísu lýsti hv. framsögumaður meiri hluta yfir því, að hann hefði haft einhverja nasasjón af meðferð málsins í hv. Ed., og gaf jafnvel í skyn, að hann hafi verið þar meðráðamaður, en þó að svo hafi verið, þá afsakar það ekki þá dæmalausu afgreiðslu, sem málið fjekk hjá hv. sjútvn. þessarar deildar.

Þegar þetta mál var hjer til 1. umr., þá varð jeg til þess að benda á sitt af hverju, sem leiddi í ljós misfellur og mistök á stj. þessa fyrirtækis á síðasta ári. Hv. frsm. meiri hl. segir, að hann hafi haft tækifæri til þess að kynna sjer reikninga einkasölunnar á síðasta ári, og sú þekking, sem hann þar aflaði sjer, hafi hrest hann í þeirri trú, að fyrirtækið væri á rjettri leið. Það er nú svo með þá reikninga, að þeir eru ekki enn komnir fyrir almenningssjónir, og hafa ekki komið fyrir augu okkar, sem eigum sæti í sjútvn., nema þá formannsins, sem jafnframt er frsm. meiri hl. Við 1. umr. gat jeg þess, að skýrsla Pjeturs Ólafssonar framkvæmdastjóra hefði ekki verið send sjútvn., og það er rjett. Á milli umr. fór jeg þess á leit við form. síldareinkasölunnar, hv. þm. Ak., að hann útvegaði mjer skýrsluna, en hann gat það ekki. Þetta notaði svo blað hv. þm. Ísaf., Alþýðublaðið, og sagði, að jeg hefði talað um einkasöluna án þess að láta svo lítið að lesa skýrslu hennar. Þessa skýrslu hefi jeg nú náð í og haft hana síðan í gærkvöldi, en hefi því miður ekki haft nægan tíma til þess að athuga þau plögg síðan í gærkvöldi að fyndi var slitið. Jeg hefi að vísu ekki lesið skýrsluna nákvæmlega, en jeg hefi þó komist að raun um það, að sú ádrepa, sem jeg flutti hjer við 1. umr. þessa máls, var ekki mjög viðkomandi því, sem skýrslan segir um málið. Við fljótan yfirlestur hefi jeg sjeð, að hún er ekki annað en frásögn eins framkvæmdastjórans um athafnir og framkvæmdir einkasölunnar á þessu fyrsta starfsári, og byrjar með því að lýsa því foraði, sem öll síldarverslun og síldarútvegur átti að vera komin í áður en einkasalan kom til skjalanna, og síðan er kastað hæðilegum hnútum til þeirra manna, sem lengi hafa fengist við þennan atvinnuveg. Það mátti vera hægur nœrri hjá þessum einokunarherrum að setja hornin í þá menn, sem fengist hafa við síldarverslun og síldarútveg á síðari árum, en jeg álít, að síldareinkasalan sje ekki ennþá búin að sýna þá yfirburði, að það sje vert fyrir forstjóra hennar að brýna um of þá menn, sem lengi hafa átt við þetta áður og oft lent í ýmsum erfiðleikum Árið 1928 var vegna aflabrests framan af sumri gott tækifæri fyrir reknetabáta að fá sæmilegt verð fyrir nýsíldina, ef þeir hefðu verið frjálsir um söluna. Þó að hv. þm. Ísaf. hafi viljað afbaka þau orð mín, þá dugir það ekki. Árið 1928 var fyrri part sumars aflabrestsár, þó að hv. þm. reyni að afsaka það og snúa út úr, og sú sögulega staðreynd stendur föst. Sú tregða, sem var á veiðinni fram í miðjan ágúst, skapaði þá aðstöðu, að síldareinkasalan lenti ekki í vandræðum. Mjer finst rjett að taka það fram, þar sem hv. þm. Ísaf. var að rausa út af því, að jeg hefði verið að deila á forstjóra einkasölunnar, að mjer fanst ekki fjarri lagi að minnast á það hneyksli, sem átti sjer stað í þessum óheppilegu fyrirframsamningum við Svía, en það var svo langt frá því, að jeg væri að elta þá með ásökunum, sem ekki voru sannar, eða færi út í öll þau atriði, sem finna má þeim til foráttu.

Jeg skal geta þess, að þó að reglugerð síldareinkasölunnar sje mjög illa útbúin, þá eru það engin rök, þó að bent sje á, að Björn Líndal hafi átt mikinn þátt í að semja hana. Reglugerðin var alveg ómöguleg í framkvæmdinni. Hún reyndist svo í framkvæmdinni, að sjálf einkasalan varð að þverbrjóta hana. En jeg verð að segja þeim forstjóranum, er á Siglufirði sat, það til maklegs hróss, að hann mun hafa ekið seglum eftir vindi þegar veiðitregðan var, til þess að fá svo góð kjör hjá Svíum sem unt var, til breytingar á þeim samningum, sem gerðir voru. Jeg vil taka þetta fram til þess að sýna, að jeg er alls ekki að elta forstjóra einkasölunnar með álasi, en vil kannast við, hvað vel er gert. Jeg álít, að forstjórinn á Siglufirði, hv. 2. þm. S.-M., hafi hagað sjer skynsamlega, eins og venjulegur verslunarmaður hefði gert undir slíkum kringumstæðum. Þegar sýnilegt var, að veiðitregða var framundan, þá fjekk hann Svía til þess að breyta þeim skilyrðum, sem áður var búið að gefa kost á. Það er þó ekki víst, að einkasalan eigi altaf því láni að fagna, að forsjónin hjálpi henni að komast út úr vandræðunum eins og varð síðasta ár.

Það er athugandi, að fyrirkomulag einkasölulaganna frá í fyrra, sem heita lög um einkasölu á síld, hefir af þeim mönnum, sem annars eru mjög fylgjandi ríkisrekstri, jafnaðarmönnum, verið talið að ganga ekki nógu langt í þá átt. Jeg hefi bæði utan þings og innan heyrt þá halda því fram, að þetta fyrirkomulag væri ekki eins og þeir vildu hafa það. Afleiðingarnar eru nú að koma í ljós með því frv., sem flutt er í hv. Ed. af hv. þm. Ak. og hv. 2. þm. S.-M. Þar er stefnt svo nærri því að hafa fullkominn ríkisrekstur á allri síldarsöltun og síldarverslun, að tæpast er hœgt að herða betur á einokunarólinni. Frv. gerir atvinnurekendur ennþá ómyndugri heldur en þeir voru áður samkv. einkasölulögunum. Þar er einkasölunni gefin heimild til þess að heimta alla nýja síld af útgerðarmönnum, taka alla söltun í sínar hendur, útvega tunnur, salt og annað efni. M. ö. o., allir eru neyddir til þess að afhenda einkasölunni síldina nýja, ef stj. einkasölunnar krefst þess, og hún fœr í sínar hendur alveg óskorað vald yfir framleiðendum. Ríkissjóður á að bera ábyrgð á lántökum einkasölunnar, en þó að vísu ekki alveg takmarkalaust. Verði frv. að lögum, þá þurfa jafnaðarmenn og kommúnistar ekki að kvarta undan fyrirkomulaginu á þessari ríkiseinokun. Þeir verða eflaust ánægðir.

Við minnihlutamennirnir getum ekki aðhylst, að hjer sje verið að leggja út á rjetta braut. Það er að vísu mjög freistandi fyrir okkur smáútgerðarmenn að fá ríkisstj. í ábyrgð fyrir lánum handa okkar síldarútveg, en við álitum þetta svo óheppilegt og hættulegt, að við sáum okkur ekki fært að fylgja því af þeim ástæðum.

Um útvegun einkasölunnar á tunnum og salti gat jeg við 1. umr. Þó að hún ætti að geta sjeð um þetta eins og hver annar, þá urðu þau mistök á þessu síðasta sumar, að einsdœmi má kalla. Tunnur, sem einkasalan pantaði um mitt sumar, urðu miklu dýrari heldur en hjá einstökum mönnum, sem gerðu sínar pantanir í sameiningu.

Um það atriði, að einkasalan taki að sjer alla söltun, er því haldið fram því til stuðnings, að það sje til þess að hún geti haft hönd í bagga með frágangi síldarinnar. Stj. einkasölunnar kvartar undan því, að menn hafi ekki hlýtt fyrirmælum hennar um frágang á síldinni, og vill nú koma þessu í lag með því að verða eini síldarsaltandi landsins. Jeg get ekki skilið, að einkasalan geti ekki fyrir milligöngu umboðsmanna sinna haft hönd í bagga með frágangi vörunnar. Sú reglugerð, sem nú er, er að vísu svo illa úr garði í gerð, að það er ómögulegt að fylgja henni, en það liggur nœst fyrir hjá stj. einkasölunnar að semja nýja reglugerð, sem hægt væri að starfa eftir og láta framfylgja. Jeg sje ekki, að framleiðandinn hafi í annað hús að venda, ef honum semur ekki við umboðsmanninn, nema þá til stjórnar einkasölunnar, og hefir hún þá öll ráðin í sinni hendi. Hjer er verið að gera aðstöðuna verri og leggja strangari kvaðir á síldarútvegsmenn og framleiðendur heldur en aðra útgerðarmenn í landinu.

Yfirfiskimatsmennirnir eru starfsmenn ríkisins, og það eru ekki fiskkaupmenn, sem skipa þeim, hvernig þeir eiga að meta, og heldur ekki framleiðendur. Þeir eru starfsmenn hins opinbera og fara ekki eftir kröfum framleiðanda eða kaupanda um að meta fiskinn svo og svo. Þeir hafa! sjálfir úrskurðarvaldið og undir þeirra úrskurði verða báðir aðilar að beygja sig.

Hjá einkasölunni verður þetta aftur á móti svo, að umboðsmenn hennar og matsmenn eru þjónar stofnunarinnar, og að deila við þá er sama og að deila við stofnunina sjálfa. Mjer er því ekki skiljanlegt, hvers vegna einkasalan þarf endilega að ráða yfir allri söltun til þess að geta haft nauðsynlegt eftirlit með vörunni. Hún ætti að geta það án þess, ef hún á annað borð hefir hemil á sínu eigin fólki. Það er líka augljóst, að ef farin er sú leið, að búa til reglugerð, sem er framkvæmanleg, þá má með venjulegu eftirliti ná því takmarki, sem einkasalan þykist ekki geta náð nema með þvingunarráðstöfunum.

Af skýrslu Pjeturs Ólafssonar framkvæmdarstjóra er það auðsjeð, að forgöngumenn þessa máls hafa búist við andstöðu gegn þessum ákvæðum. Það er heldur ekki nema eðlilegt, að það sje beygur í mönnum við að afhenda alla vinnu sína í hendur síldareinkasölunni, sem verður að teljast pólitísk stofnun. Með þessum ákvæðum er verið að fá stj. einkasölunnar vald í hendur, svo að hún geti látið menn þar nyrðra sitja og standa eins og hún vill.

Hv. frsm. meiri hl. talaði um það, að einkasölunni hefði veitst erfitt að hafa þetta nauðsynlega eftirlit síðasta sumar. Það getur svo sem vel verið, að henni þyki hægra að vera einráð um alt fyrirkomulagið, en þá er henni þar með opnuð leið til þess að ganga á rjett einstakra manna, sem hlut eiga að máli, og því get jeg ekki fylgt. Jeg er þess fullviss, að með þeim ráðum, sem bœði jeg og aðrir hafa bent á, getur einkasalan náð þeirri vöruvöndun, sem þarf. Það má vel fylgja þeirri reglu hvað síldarmat snertir eins og gert er með ull, kjöt og sjávarafurðir eins og fisk, að láta opinbera starfsmenn meta vöruna, en láta matið ekki vera komið undir einveldi þeirra, sem fyrir útflutningnum standa. Hv. frsm. meiri hl. gaf í skyn, að 2. gr. frv. væri ætluð til þess að einkasalan gæti fært út kvíarnar, og verð jeg þá að segja, að það má kalla að fœra vel mikið út kvíarnar, þegar svo er búið um hnútana, að einkasalan getur setið yfir hvers manns rjetti bæði á sjó og landi.

Þá hefir það verið látið í veðri vaka, að tunnuútvegun síldareinkasölunnar síðastl. ár hafi verið gerð fyrir framleiðendur. Maður gæti því gert sjer í hugarlund, að hinir smærri framleiðendur hefðu sjerstaklega orðið aðnjótandi þessara fríðinda, að fá tunnurnar hjá einkasölunni. En því fer fjarri. Í skýrslu þeirri, sem jeg gat um áðan. er þess getið, hve margar tunnur einkasalan hafi útvegað, en því miður fylgir ekki frásögn um það, hverjir hafi orðið til þess að fá tunnur þessar. En svo mikið er víst, að einn með stærstu útgerðarmönnum norðanlands fjekk 30 þúsund tunnur hjá henni og annar útgerðarmaður þar nyrðra fjekk heilan skipsfarm. Og einn af starfsmönnum einkasölunnar, sem ekki gerir neitt út, fjekk 5 þús. tunnur. Í skýrslu þessari er þess einnig getið, að alls hafi einkasalan keypt 90 þús. tn.; hefir hún því ráðstafað 1/3 hl. þeirra til eins manns. Mjer virðist því, að þessi tunnuútvegun hafi frekar verið gerð til hagsbóta fyrir stærstu útgerðarmennina heldur en þá minni.

Hv. þm. Ísaf. var að tala um það hjer á dögunum, að aðfinningar þær gagnvart rekstri einkasölunnar síðastl. sumar, sem jeg bar þá fram, hefðu verið lítils virði. Hv. þm. fanst það ekki þungt á metunum, þó að jeg sýndi fram á það með fullum rökum, að reknetaveiðimenn hefðu fengið minna fyrir veiði sína með því að selja hana síldareinkasölunni en þeir hefðu annars getað fengið. Það, sem framleiðendur hafa fengið fyrir tunnuna, er um 25 kr., og frá því dregst svo allur kostnaður, tunna, salt, söltun o. s. frv. En hv. þm. Ísaf. vildi halda því fram, að þeir hefðu fengið 29 kr. fyrir tunnuna. Mun hv. þm. því hafa stórum ofreiknað, þegar hann fjekk þetta verð út.

Þegar verið er að bera þetta verð saman við verð á nýrri síld, má ekki draga frá verði hinnar nýju síldar tolla o. þ. h., því að slíkt kemur ekki þar til greina. Eins og sjá má af nál., höfum við minnihl.menn ekki getað gengið inn á frv. þetta, og höfum því leyft okkur að bera fram brtt. við það. Hv. frsm. meiri hl. taldi þær ganga svo langt, að þær gætu tæplega talist brtt., heldur nýtt frv. Því skal alls ekki neitað, að brtt. þessar ganga nokkuð langt, en að þær geti talist nýtt frv., er þó ekki hægt að segja með rjettu, þar sem sumar gr. frv. eru með öllu óhreyfðar af minni hl.

Jeg minnist þess nú, að síðastl. sumar las jeg grein eftir Matthías Þórðarson í riti, sem gefið er út í Kaupmannahöfn. Er talað þar um nafn síldareinkasölunnar á erlendum málum, „Monopol“, og þess getið, hve mikinn óhug nafn þetta veki hjá skiftavinum hennar erlendis. Telur Matthías því, að nafnið sjálft spilli ekki svo lítið fyrir síldareinkasölunni erlendis, og er ilt til þess að vita, að nafnið eitt skuli vekja slíkan óhug. Sýnir það best, hverjum augum útlendingar líta á ríkiseinkasölu.

Brtt. okkar minnihlutamanna miða að skipulagsbreyt. á frv. þessu og á lögunum um einkasölu á síld. Viljum við færa fyrirtæki þetta í samvinnuáttina, og jafnframt, að þeir, sem mestra hagsmuna hafa þarna að gæta, fái aðstöðu til þess að taka þátt í stjórn fyrirtækisins, betri en þeir hafa nú. Það er með öðrum orðum verið að reyna að draga fyrirtækið sem mest frá ríkisrekstrinum, en stefnt í átt til samvinnu þeirra, sem mest eiga hjer í húfi. Jeg býst nú við, að við munum fá harðasta mótspyrnu gegn till. þessum frá jafnaðarmönnum, en við treystum því, að þeir hv. dm., sem ennþá eru ekki alveg blindaðir af einkasölumoldviðrinu, muni ljá þeim fylgi sitt, því að eins og jeg tók fram áðan, stefna þær í samvinnuáttina. Annars er nú kannske best að tala varlega um samvinnu í þessari hv. deild, og þá sjerstaklega vegna hv. þm. V.-Húnv., því að jeg man ekki betur en að hann teldi hjer um daginn, að samvinnumenn yrðu að vera eitthvað öðruvísi en fólk er flest. Jeg leyfði mjer þó að nefna samvinnu í þessu sambandi, því að hjer er um líkt fyrirkomulag að ræða, þó að það falli ekki undir samvinnulögin.

Þá vil jeg geta þess í þessu sambandi, að enda þótt okkur útgerðarmönnum sje að jafnaði brugðið um það, að við höfum litla tilhneigingu til þess að vinna saman, þá hefir þó í seinni tíð rutt sjer til rúms sú skoðun meðal okkar, að best myndi að hafa sem mesta samvinnu á sölu afurðanna.

Svo jeg víki aftur að brtt. okkar minnihl.manna, þá vil jeg fyrst geta þess, að 1. brtt. fer fram á að breyta nafni fyrirtækisins, kalla það „síldarsamlag“, í stað „síldareinkasölu“. Við teljum það nafn betra. A. m. k. fælir það ekki útlendinga frá að skifta við fyrirtækið.

Önnur brtt. okkar miðar að því að fella niður þau ákvæði frv., að síldareinkasalan útvegi tunnur og salt, og eins að hún eigi ein að hafa með höndum alla síldarsöltun. Undir a- og b-lið þessarar brtt. er sett það fyrirkomulag, sem við teljum rjettast að hafa við stjórn fyrirtækisins. Það getur alls ekki talist nema eðlilegt, að útgerðarmenn óski að hafa meiri íhlutunarrjett um stj. og fyrirkomulag þessarar stofnunar en nú á sjer stað, þar sem þeir bera hana uppi og hafa þar því mikilla hagsmuna að gæta. Þetta held jeg, að hv. þingbændur ættu a. m. k. að skilja, því jeg býst ekki við, að þeir myndu vera ánægðir, ef þeir fengju engu að ráða um stj. fyrirtækis, sem þeir ættu hlutdeild í. Hvað myndu þeir t. d. segja, ef útvegsmenn hjer á Alþingi bæru þá ofurliða og samþ. lög um það, að bæjarstj. Reykjavíkur skyldi skipa einn mann í stj. Sambands íslenskra samvinnufjelaga? (HJ: Þetta er ekkert sambærilegt, við erum miklu þroskaðri á sviði samvinnumálanna). „Um „sæluna“ og „blessunina“ skulum við lítið tala“, lætur Matth. sál. Jochumsson Skuggasvein segja við Hróbjart vinnumann, þegar hann kom syfjaður til dyra og bauð Skuggasvein koma „sælan“ og „blessaðan“. Svipað vil jeg segja hv. þm. V.-Húnv. út af þessu innskoti hans. Um „þroskann“ á þessum sviðum skulum við sem minst tala. A. m. k. ber það ekki vott um neinn yfirburðaþroska að bregða öðrum um þroskaleysi að óreyndu.

Þriðja brtt. hefir valdið mestum ágreiningi. Hún er um það ákvæði, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að væri róttækast. Það er ríkissjóðsábyrgðin. Við minnihl.menn lítum svo á, að ekki sje rjett að blanda ríkissjóði inn í síldarsöluna. hvorki með ábyrgð eða á annan hátt.

Í 6. gr. síldareinkasölulaganna eru ákvæði um það, að einkasalan megi taka til afnota bryggjur eða land, er einstakir menn eiga eða ráða yfir. Í brtt. okkar við þessa gr. er lagt til, að sú linkind verði sýnd, að bryggjur og önnur mannvirki verði ekki tekin til afnota fyrir einkasöluna, ef eigendurnir sjálfir þurfa þeirra til eigin afnota. Því að það sýnist vera óþarflega mikil harka að taka bryggjur af mönnum. þegar þeir þurfa að nota þær sjálfir. Þá vil jeg geta þess, að við 4. og 5. gr. frv. höfum við ekki komið fram með neina brtt. Við álítum, að þær geti staðist óbreyttar.

Í 7. gr. frv. eru ákvæði um það, að útflutningsnefndarmenn skuli sjálfir úrskurða reikninga einkasölunnar, eftir að þeir hafi verið endurskoðaðir. Eins og kunnugt er. er útflutningsnefndin herra einkasölunnar. Aðstaða hennar til einkasölunnar er því hliðstæð aðstöðu kaupfjelagsstjórna til kaupfjelaga. En það myndi þykja einkennilegt, ef stjórnir kaupfjelaga eða hlutafjelaga áskildu sjer rjett til þess að úrskurða sína eigin reikninga. Við leggjum því til, að þetta ákvæði gr. verði felt niður. Sömuleiðis leggjum við það til, að reikningarnir komi það snemma á árinu, að búið verði að endurskoða þá fyrir aðalfund, svo að hann geti úrskurðað þá. Ein breyt,, sem frv. gerir ráð fyrir á gildandi lögum, er sú, að útflutningsnefndarmenn skrifstofumenn og aðrir starfsmenn einkasölunnar megi ekki reka síldarútgerð eða síldarsöltun. Hvað útflutningsnefndina snertir, þá álítum við ekki rjett að útiloka þá, sem sœti eiga í henni, frá því að fást við síldarútveg. Það myndi óneitanlega verða til þess að fyrirbyggja það, að menn með sjerþekkingu á þessum sviðum hefðu á hendi stj. fyrirtækisins. En fagþekking er alveg nauðsynleg fyrir þá, sem hafa á hendi yfirstj. síldareinkasölunnar. Það er hreinasta fjarstæða að útiloka þá menn frá því starfi, sem besta hafa þekkinguna á síldarútvegi og síldarverslun. En það verður gert, ef ákvæðið um, að útflutningsnefndarmenn megi ekki reka síldarútveg, síldarsöltun eða kaup á síld til söltunar verður samþ. Jeg veit nú að vísu ekki, hversu hátt kaup þessir menn eiga að fá hjá síldareinkasölunni. En jeg tel víst, að það sje ekki svo hátt, að duglegir athafnamenn, sem eiga kost á að taka þátt í síldaratvinnurekstri, muni vilja lita við þessu starfi, ef þeir fyrir þá sök verða að hœtta við atvinnurekstur sinn. Afleiðingin af samþykt þessarar brtt. við lögin yrði óhjákvæmilega sú, að til þessa starfs veldust ekki þeir menn, sem besta þekkingu og reynslu hafa í þessum efnum, af þeim sökum, sem jeg nú hefi lýst.

Þá er með VII. brtt. okkar lagt til, að reikningsár síldareinkasölunnar sje frá 15. apríl til jafnlengdar næsta ár. Þetta er lagt til fyrir þá sök, að œtlast er til, að aðalfundur sje haldinn á tímabilinu frá 15. apríl til 15. maí. Verkefni aðalfundar er áður lýst og er vitanlega hið sama og gerist í öllum samskonar fjelögum, og er ætlast til, að þeir, sem nokkra hlutdeild hafa í fyrirtækinu, hafi þar jafnan atkvœðisrjett. [Fundarhlje].

Þegar fundi var frestað, var jeg að tala um verkefni aðalfundar síldarsamlagsins samkvæmt breytingartillögu á þskj. 575, sem jeg flyt ásamt hv. 2. þm. G.-K. og hv. þm. N.-Ísf. Eins og eðlilegt er, œtlumst við til, að verkefni hans sjeu samskonar og verkefni aðalfunda í öðrum fjelögum, svo sem hlutafjelögum. Auk þessa leggjum við til, að í janúarmánuði ár hvert skuli halda almennan fund síldarsamlagsmanna á Akureyri, þar sem gefnar sjeu bráðabirgðaskýrslur um hag og rekstur samlagsins á liðnu starfsári, svarað þeim fyrirspurnum, sem fram kunna að koma frá fjelagsmönnum um reksturinn, og rœtt um framtíðarstarfsemi samlagsins. Skulu þær till., sem samþ. kunna að verða, lagðar fyrir væntanlegan aðalfund. Þessi aukafundur virðist nauðsynlegur, til þess áð hægt sje að gera ráðstafanir til breytinga í tíma, ef þess þarf með, áður en það er orðið ótímabært með tilliti til komandi síldarvertíðar. Það má telja ólíklegt, að sunnlenskir útgerðarmenn fjölmenni mjög á þennan fund, nema þá þeir, sem brýnasta ástæðu hafa til þess, enda hjer aðeins um að ræða undirbúningsfund undir væntanlegan aðalfund, sem við leggjum til, að háður verði í Reykjavík. Virðist allra hluta vegna sjálfsagt að halda aðalfund hjer.

Í núgildandi l. um einkasölu á síld er ekkert kveðið á um, hver sje sakaraðili í málum, sem samlagið varða. Það er aðeins tekið fram, að samlagið eigi heimili og varnarþing á Akureyri. Hvort stefna eigi stj. einkasölunnar, þ. e. forstjórum hennar, eða útflutningsnefnd, um það segir ekkert í þessum l. Við höfum því leyft okkur að bera fram brtt., sem að þessu lúta. Álítum við nægilegt, að formanni útflutningsnefndar sje birt stefna, en að n. sje ekki öll sakaraðili. Ennfremur er nauðsynlegt að setja fyrirmæli um það, hvernig skaðabætur eigi að greiða, ef samlagið yrði skaðabótaskylt fram yfir það, sem varasjóður hrekkur til. Eftir núgildandi l. gæti þetta lent á ríkissjóði, og því leggjum við til, að bæturnar greiðist til bráðabirgða. ef varasjóður hrekkur ekki til, af óskiftu andvirði seldrar síldar það ár, sem skaðabæturnar falla til útborgunar. en endurgreiðist eigendum þeirrar síldar að nokkru eða öllu leyti, eftir nánari ákvæðum útflutningsnefndar. þegar varasjóður verður greiðslufœr.

Jeg hefi þá drepið á flestar þær brtt., sem við í minni hl. sjútvn., ásamt hv. þm. N.-Ísf., höfum leyft okkur að bera fram við þetta frv. ޜr greinar, sem nú koma og jeg hefi ekki minst á, eru skipulagsgreinar, sem nauðsynlegar eru til þess að samrýma frv. þeirri stefnu, sem tekin er upp með brtt. Það eru ekki einungis við þrír, sem stöndum að þessum till. Á fundi, sem hjer var haldinn í vetur og á voru margir útgerðarmenn, sem viðskifti höfðu haft við einkasöluna, var rætt um skipulag og framkvæmdir einkasölunnar á þessu liðna ári. Varð það til þess, að n. var kosin til þess að koma með till. til bóta á þessu skipulagi, því að það hafði komið í ljós, að megn óánægja var með þann anda, sem gengur í gegnum einkasölulögin, og eins með það, hvernig ýmsar framkvæmdir forstjóranna voru á liðnu ári. Þessi n. bar fram till. sínar, og eru þær í öllum höfuðdráttum teknar upp í brtt. okkar á þskj. 575, sem jeg hefi áður lýst.

Hv. 1. þm. S.-M. taldi þessar till. nokkurskonar nýtt frv., en eins og jeg áður sagði, eru þær í öllum aðalatriðum í samræmi við þær till., sem útvegamannanefndin lagði fram. Útvegsmenn líta með rjettu svo á, að löggjöfinni beri, þegar gerðar eru svo miklar ráðstafanir til styrktar atvinnuvegunum, að halda við þeirri reglu, að atvinnurekendurnir hafi sem mestan umráðarjett yfir atvinnugreininni, sem um er að ræða í það og það skiftið. Í þessu efni brast einna mest á í einkasölul. frá síðasta þingi, því að þar var atvinnurekendum gert eins lágt undir höfði og unt var, og eru þeir þó þeir aðiljarnir, sem síldareinkasalan getur ekki án verið.

Í skýrslu hr. Pjeturs Ólafssonar eru taldar upp ýmsar skipulagsbætur, sem teknar voru upp síðastl. ár undir stj. einkasölunnar. Má þar fyrst nefna stœrðaraðgreininguna, sem var virðingarverð viðleitni til umbóta, þó að framkvæmdirnar færu allar í handaskolum. Ennfremur má geta þess, að tekin var upp sú nýbreytni að merkja hverja tunnu, sem söltuð var, með nafni saltandans, og skrifa söltunardaginn á hverja tunnu. Þá voru tekna upp ýmsar nýjar verkunaraðferðir, svo sem hve mikið salt ætti að láta í hverja tunnu o. s. frv. Alt þetta, sem jeg nú hefi nefnt, og er þó margt enn ótalið, miðaði til bóta á framleiðslunni og að því að gera vöruna betri og útgengilegri. En með till. okkar, þeim sem hjer liggja fyrir, er ekkert gert til þess að hindra, að samskonar umbætur og jeg nefndi geti haldið áfram, og að bæta megi við þær að bestu manna yfirsýn. Till. okkur gera það á engan hátt erfiðara fyrir síldarsamlagið að koma þessum nauðsynlegu umbótum fram. Hinu vildum við bæta úr með till. okkar, því hróplega ranglæti og misrjetti í garð framleiðendanna, sem ríkir í þeim l., er einkasalan starfar nú undir og er stórum aukið með því frv., sem hjer liggur fyrir. Það er athugavert sjerstaklega fyrir fulltrúa landbúnaðarins hjer á Alþingi, að hjer er um mjög áhættusama atvinnugrein að ræða. og það er óhætt að fullyrða, að með l. verða aldrei gerðar þær ráðstafanir, sem útiloka áhættu í síldarverkun. Það er því mjög viðsjárvert að gera of mikið að því að gera þá menn ómynduga, sem verja fje sínu til þess að framleiða þessa vöru. með því að ætla þeim enga íhlutun um stj. þessa fyrirtækis. Eins og nú er í pottinn búið, hafa framleiðendurnir engan vettvang til þess að hafa áhrif á stj. einkasölunnar, nema með blaðagreinum eða fundum, sem hóað er saman til að ræða um síldarmálefni. Við viljum bæta úr þessu. Við stillum því kröfum okkar svo í hóf, að útgerðarmönnum gefst aðeins tækifæri til að velja minni hl. útflutningsnefndar. Þegar þess er gætt, að samkv. till. okkar hefir hver sá atkvæðisrjett á aðalfundi samlagsins, sem lagt hefir a. m. k. 100 tn. inn í það næsta ár á undan, er það ljóst, að smærri framleiðendur geta engu síður beitt áhrifum sínum um þessa kosningu en stærri framleiðendurnir, og eru þeim í engu lægra settir.

Hinsvegar er með till. okkar, um leið og þær opna leiðina að þeim kostum, sem hægt er að ná með skipulagðri högun þessarar atvinnugreinar, engu síður en með einkasölu, stefnt hjá því að blanda ríkissjóði inn í þessa áhættusömu atvinnugrein. Þrátt fyrir þetta lítum við þó svo á, að æskilegra og affarasælla væri, að síldarsalan væri rekin með frjálsum samtökum framleiðenda, eins og er um aðra afurðasölu, en þar sem þessi atvinnugrein hefir nokkra sjerstöðu, vegna hinna tíðu verðbreytinga á síldinni. viljum við þó ekki hverfa frá fyrirkomulagi skipulagsbundinnar sölu, en leggjum til, að það verði í því formi, sem jeg hefi áður lýst. Þeir skipulagsgallar, sem komið hafa í ljós á síðasta ári, að eru á tilhögun þessara mála, ættu að vera nægilegir til þessa, að menn gætu fallist á þær sjálfsögðu umbætur, sem í till. okkar felast. Það má vera, að sumar þeirra megi taka til nánari athugunar til 3. umr., en heildarstefnan, sem þær mótast af, er sú, að þeir, sem þarna bera aðaláhættuna, hafi meiri íhlutun um stj. þessa fyrirtækis en nú er. Og jeg hygg, að sú stefna verði ofan á í framtíðinni, þótt hún kunni að eiga erfitt uppdráttar nú, ef íhlutun ríkisvaldsins verður þá ekki til þess, að menn hætti að reka síldarútgerð.

Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þessar till. Það má vera, að mjer verði fundið það til foráttu, hve langorður jeg hefi verið, en jeg var neyddur til þess að reifa þetta mál rækilega, af því að þess gafst ekki kostur að athuga málið í sjútvn. Jeg vil undirstrika það, að við í minni hl. sjútvn. höfum ekki tafið framgang þessa frv. Þegar við urðum þess varir, að meiri hl. n. var einráðinn í því að afgreiða málið án þess að það væri athugað í n., fórum við strax, í samráði við hv. þm. N.-Ísf., að undirbúa brtt. okkar, enda komu þær svo tímanlega fram, að ekki þurfti að leita um þær afbrigða. Við höfum því ekkert gert til þess að tefja fyrir framgangi þessa máls.

Jeg vona, að þeir, sem hjer eiga um að fjalla, sjái og viðurkenni, hve rjettlátar kröfur eru settar fram í þessum till. sem eru fram komnar vegna áhrifa þeirra, sem mest eiga í hættu um þessa atvinnugrein, og því ættu umfram aðra að hafa tillögurjett um fyrirkomulag þessara mála.