11.05.1929
Neðri deild: 66. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3221 í B-deild Alþingistíðinda. (2047)

39. mál, einkasala á síld

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Það er aðallega fyrir siðasakir, að jeg segi hjer nokkur orð til vinar míns, hv. þm. Vestm. Hann verður samt að fyrirgefa, þó jeg og aðrir, er vöktu síðastl. nótt, sjeu ekki vel fyrirkallaðir til þess að halda uppi kappræðum í jafneintrjáningslegu máli og þessu. Vona jeg, að hann láti sjer lynda þá afsökun, og það því fremur, sem mjer virtist hann sjálfur heldur með daufara móti í dálkinn.

Hv. þm. Vestm. kvartaði yfir með mörgum orðum, að þetta mál hefði orðið fyrir óviðeigandi meðferð í sjútvn. Mjer finst, að hv. þm ætti ekki að flagga svo mjög með þessu, sem honum er engin afsökun, því málið hefir verið afgr. fullkomlega formlega í n., þar sem 3 af 5 nm. voru ákveðnir að fylgja frv. eins og það lá fyrir þegar í stað, og tregða hinna var bygð á þvingun við málið. Frá upphafi var það líka sýnilegt, að málið þoldi enga bið og varð að fá afgreiðslu. Hinsvegar þurfti jeg ekki að tefja málið með því að lesa það oft yfir í nefnd; til þess er það of einfalt að efni. Jeg tek því með rósemi þessum aðfinslum hv. þm., og það því fremur, sem mjer fanst ýmislegt af því, er hv. þm. sagði, benda til þess, að honum væri engin alvara með brtt. á þskj. 575.

Jeg vissi, að hv. meðflm. hv. þm. að þessum brtt., þeir hv. 2. þm. G.-K. og hv. þm. N.-Ísf., höfðu báðir meiri trú á síldarsamlagslögunum frá 1926 heldur en síldareinkasölumönnum frá 1928. Þeir áttu að sýna þá trú í verki meðan lögin um síldarsamlagið stóðu í gildi, en það gerðu þeir ekki, og því dagnaði þetta ástfóstur þeirra unni. Nú á síðustu stundu koma þeir svo með þessar brtt. sínar, þegar alveg vonlaust er, að þær fái nokkurn framgang. Auðvitað er eðlilegt, að flm. brtt. sýni lit á þennan veg, en satt að segja hefi jeg enga trú á því, að veruleg alvara standi á bak við þessar till. þeirra.

Hv. þm. Vestm. talaði mikið um það og lagði áherslu á það, að nafnið einkasala, eins og það væri skilið og lagt út í nágrannalöndunum, hefði fráfælandi áhrif á kaupendur síldar og spilti markaði ísl. síldar. Jeg held, að það sje óþarfi að hafa miklar áhyggjur út af þessum firrum. Nafnið „Monopol“ gengur jafnhliða öðrum heitum í viðskiftum manna í milli og vekur alls enga andúð, enda margvíslegar einkasölur til með öðrum þjóðum. (JJós: Það er erindreki síldareinkasölunnar, Matthías Þórðarson, sem hefir kvartað undan þessu). Jú, jeg hefi orðið var við þessa speki út þeirri átt. En jeg er ekkert myrkfælinn við þessa kenningu. Það er mjög alment, að t. d. kaupmenn auglýsi, að þeir hafi einkaumboð, einkarjett og einkasölu á einhverri vöru, og furðar engan á slíku. Annars sannar reynslan það best, að nafnið hefir ekki vond áhrif, og reikningar einkasölunnar frá síðasta ári sýna best, að jafnvel hrakapárnar á síðasta þingi um sölutregðu síldar hjá einkasölunni hafa alls ekki rætst og salan tekist framar vonum. (JJós: Hefir hún ekki alveg stórgrætt?!!). Því lengur sem hún fær að starfa með sæmilegri stj., því líflegri er hún til þess að vinna sjer álit.

Jeg nenni ekki að vera að eltast við allar aðfinslur hv. þm.; það er alveg tilgangslaust. Hann sagði t. d., að allir væru neyddir til að skifta við einkasöluna um salt, tunnur o. fl., ef þetta frv. yrði að lögum. Jeg held, að það sje hvergi í frv. neinn áskilnaður um þetta. Hitt er rjett, að gert er ráð fyrir því, að einkasalan verði búin svo út, að hún geti fullnægt þörfum viðskiftamannanna í þessum efnum. Sje jeg ekkert athugavert við það, en þykir hinsvegar líklegt, að viðskiftamennirnir kjósi helst að taka þessar vörur þar, sem þeim er hægast og verðið er sæmilegt.

Þá var hv. þm. að gefa það í skyn, að þeir, sem hefðu skift við einkasöluna síðastl. sumar, hefðu orðið að sæta ókjörum. Um þessi ókjör veit jeg ekkert; hygg þetta þó ósannindi. Jeg veit það, að þeir útgerðarmenn á Austurlandi, er skiftu við einkasöluna um tunnur, ljetu vel af viðskiftunum, en kvörtuðu undan því, að þeirra þarfir sætu á haka, af því að þarfir Norðlendinga væru um veiðileyfi og annað látnar sitja í fyrirrúmi. Það liggur í hlutarins eðli, að einkasalan hefir öll skilyrðin betri til þess að geta komist að góðum kjörum um tunnukaup en flestir veiðimennirnir, og er jeg þess fullviss, að hún lætur þá njóta þess. Jeg held því, að yfirleitt hafi einkasalan komið að góðu liði síðastl. sumar fyrir veiðimenn nyrðra, en auðvitað skorti á ýmsan veg undirbúning, efni og æfingu til þess að misfellulaust væri.

Það er með öllu árangurslaust að fara að ræða hjer frv. það um nýtt síldarsamlag, sem hv. þm. flytur eins og brtt. við frv. það, sem á dagskránni er. Þetta mál, þetta samlagserindi hefir svo oft verið rætt áður, bæði 1926 og oftar, að þýðingarlaust er að fara að endurtaka umræður um það nú. Reynslan sýndi það, að þó lögin um síldarsamlagið væru í gildi, þá hreyfðu útgerðarmenn sig þó ekki í 2 ár til þess að koma því í framkvæmd. Var því nauðsynlegt að grípa til annars fyrirkomulags. Og þetta nýja fyrirkomulag, einkasalan, hefir þó á einu ári sýnt meiri og betri árangur en samlagsfyrirkomulagið á 2 árum.