11.05.1929
Neðri deild: 66. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3225 í B-deild Alþingistíðinda. (2048)

39. mál, einkasala á síld

Jón Ólafsson:

Jeg býst ekki við, að þau hafi mikla þýðingu að ræða þetta mál, því þó menn komi með full rök í því í tæka tíð, þá er eins og það þýði ekkert, því þetta er orðið svo mikið tilfinningamál fyrir þeim, er að því standa, að rök fá þar engu um ráðið. Þetta lýsir sjer best í því, að jafnskýr maður og hv. 1. þm. S.-M. sjer ekkert annað en ágæti þeirra ráðstafana, er gerðar hafa verið. Og hvaða rök færir hann fyrir ágæti þessa fyrirtækis? Jú, hann segir, að hinn ágœti árangur lýsi sjer meðal annars í því, að einkasalan hafi safnað 10 þús. kr. í varasjóð sinn og auk þess hafi hún getað lagt 6 þús. kr. í markaðsleitarsjóð. Þessar tölur verða nú sannast að segja hálfbroslegar, þegar á að fara að nota þær sem aðalsönnunargagn um ágæti þessa fyrirtækis. Það er því ekki von, að heilbrigt vit fáist í þessi mál meðan þau eru rædd og túlkuð á slíkum grundvelli.

Hv. frsm. meiri hl. þótti leitt, að hv. dm. skyldu ekki hafa orðið aðnjótandi þeirrar speki, er lesa má í reikningum síldareinkasölunnar. Jeg verð að taka undir það með honum, að það er mjög leiðinlegt. Jeg hafði ætlað mjer að fá að sjá þessa reikninga, en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tókst mjer það ekki. Það er því ekki að undra, þó að við bregðumst ókunnuglega við, þegar hv. frsm. fer að tjá okkur þær dásemdir, að búið sje að safna 16 þús. kr. í sjóði. En jeg verð að segja það, að það er enginn vandi að safna í sjóði, ef hægt er að skattleggja ótakmarkað þau fórnardýr, er þannig eru lögð undir mann. Þessi fórnarlömb hafa þá ekkert annað að gera en að taka með þakklœti því, sem einkasölunni þóknast að rjetta að þeim. Þetta virðist mjer því ekki þess vert, að þörf sje að hrósa því.

Aðalatriðið í þessu máli er það, hvernig tekist hefir að fullnægja þörfum þeirra, er við framleiðsluna fást. Þetta hefir tekist miður en skyldi síðastl. ár, því verð það, er þar fæst fyrir síldina, fer ekki fram úr meðaltali síðastl. 5 ára. Hafa þau þó verið talin með þeim lakari. Síldarverðið síðastl. ár var 33 kr. pr. tunnu, og er það svipað og meðalverð undanfarinna 5 ára. Það er því algerlega út í veður og vind að vera að tala um ágæti þessa árs, því á því hefir ekki tekist betur en á hinu undanfarandi slœma tímabili. En það verður líka að líta á það, hvað verið er að gera við landsmenn í þessu tilfelli. Það má ekki eingöngu hugsa um það að safna í sjóði á kostnað annara. En það er önnur leið en þessi sjóðsöfnun, sem þarf að lita á, og það er það, hvernig búið er að þeim smærri útgerðarmönnum. Allir sjá, að þetta fyrsta ár er óhrekjandi vottur þess, að síldareinkasölunni hefir tekist illa. Sje árið 1926 tekið til samanburðar við 1928, þá sjest það, að 1926 er verðið á þeim 168 þús. tunnum, er þá eru seldar, 40 kr. að meðaltali, en 1928 er verðið ekki nema 38 kr. brúttó pr. tunnu. Hjer er því um svo augljósan klaufaskap að ræða, að um það verður ekki deilt. Byggist það mest á því, að yfirmennirnir, sem áttu að fást við söluna, hafa ekki haft nœgilegt vit á þessum málum og hafa því orðið að treysta mönnum, sem hafa látið sjer mest um það hugað að hafa eitthvað upp úr þessum kaupum. Erindrekar síldareinkasölunnar hafa látið þessa menn vefja sjer um fingur spekulantanna og þar af leiðandi ekki notast að heimsmarkaðinum eins vel og hægt var. í þessu liggur sá klaufaskapur, að ekki skyldi vera hærra verð á síldinni síðastl. ár en raun ber vitni um. Annars er það margt í þessu máli, sem bendir til þess, að ekki sje eins vel búið að þessu fyrirtœki sem þyrfti og ætti að vera. T. d. veit jeg ekki betur en að þegar útboð voru gerð um síld til söltunar, þá barst svo mikið að, að hinir ráðandi menn einkasölunnar sáu sjer ekki annað fært en að lækka framboðin að mun, því það var sjáanlegt, að ekki mundi veiðast eins mikið og framboðin báru með sjer. Framboðin til söltunar munu hafa numið 460 þús. tunnum, en undanfarin ár höfðu vanalega verið saltaðar um 200 þús. tunnur, og með það mun einkasalan hafa ætlað sjer að fara af stað. En hvernig tekst nú til, þegar farið er að færa framboðin niður? Þá hefir útflutningsnefndin það svo, að hún færir framboðin hlutfallslega niður, en gætir þess ekki, að sá, er boðið hefir fram 80 þús. tunnur til söltunar, þolir betur þó hann sje færður niður um helming, heldur en sá, sem aðeins hefir boðið fram 2 þús. tn., því hann getur ekki gert út, ef það er lækkað til helminga. Afleiðing þess, að útflutningsnefndin gætti þessa ekki, varð sú, að margir af hinum smœrri útgerðarmönnum urðu að draga sig til baka. Þeir gátu ekki lagt út í útgerðina upp á það, að ekki væru teknar af þeim nema fáar tn. til söltunar, og fór því svo, að þeir stærri útgerðarmennirnir sátu uppi með alla söltunina. Þetta sýnir einn af verstu göllunum, er þessu fylgja. Þarna hefir farið svo, að vegna þekkingarleysis stjórnendanna hafa stærri útgerðarmennirnir ýmsir fengið allgott ár, þar sem þeir voru einir um hituna hvað söltunina snertir, en vitanlega varð það alt á kostnað þeirra smærri, sem ekki gátu gert út með þeim hluta, er þeim var ætlaður.

Það er dálítið athugavert, að þegar talað hefir verið um þetta fyrirtæki undanfarið, hefir ávalt verið reynt að komast hjá því að láta ríkissjóð hafa nokkur afskifti af því. En ef það á að halda þessu fyrirtæki áfram, þá er ekkert vit í öðru en að það hafi nægileg peningaráð. Einkasalan getur ekki starfað, nema því aðeins, að hún hafi meiri peningaráð en nú. Þingið hefir því rjettilega horfið að því ráði að tryggja það, að hún geti haft nægilegt veltufje. En fyrst svo er komið, er nauðsynlegt, ef eitthvað annað en blind trú á þetta fyrirtæki á að ráða hjer á Alþingi, að það tryggi sjer nokkum íhlutunarrjett um meðferð þessa fjár, og yrði það þá helst með því móti, að það skipi ýmsa af ráðandi mönnum einkasölunnar. En því miður virðist, að það sje með þetta mál eins og sum trúboð, er geysa yfir löndin án þess að nokkur rök komist þar að. Er því augljós þörf eftirlits. Vænti jeg þess, að hv. deild sjái, að nauðsynlegt er að gera ráðstafanir til þess, að þingið hafi nokkurn íhlutunarrjett um stj. þess fyrirtækis, er það styður svo mjög.

Ef menn vildu skoða málið eins og á að skoða það, er mönnum skylt að taka hverri leiðbeiningu, sem má verða til endurbóta. Eins og jeg hefi leitt rök að, hefir þessi fyrsta tilraun tekist mjög illa. Verðið átti eftir undanfarinni reynslu að vera a. m. k. 38 kr. á tunnu, en hjá einkasölunni hafa menn ekki enn fengið nema rúmar 24 kr. Það er sagt, að það eigi að bæta þeim það upp, en það er alveg talið vonlaust, að þeim áskotnist meira en 27 Kr. með útflutningsgjaldi og öllu. Af þessu er augljóst, að peningarnir hafa farið til óviðkomandi manna og í óviðkomandi kostnað, svo að menn verða nú að borga mikið fje fyrir það, sem þeir hafa áður gert sjálfir. Þegar farið er að reka síldarsöluna á þennan hátt, verður að sjálfsögðu að sníða næsta árs verð fiskimanna eftir þessu.

Úrskurður reikninganna finst mjer sjálfsagt, að heyri undir alt aðra aðilja en þessa nefnd, ekki síst þegar Alþingi fer að hafa svona mikil afskifti af þessu máli. Það leiðir af sjálfu sjer, að það er óforsvaranlegt, að láta fara um síldarsöluna eins og nú er komið, af því að ríkið styrkir hana svo mjög. Það verður því að taka til greina till. minni hl. n. um að skipa þessum málum á þann hátt, sem hún leggur til.

Hv. 1. þm. S.-M. var að telja þessu fyrirkomulagi ýmislegt til gildis, eins og t. d. útvegun á tunnum. Jeg held, að jeg sje sæmilega kunnugur því, að hvernig sem ástatt hefir verið fyrir framleiðendunum norðanlands, hefir þeim aldrei orðið skotaskuld úr því að fá lánaðar tunnur og salt. En það merkilega skeði í fyrravor, að þegar einkasalan var tekin við, kostaði hver tunna 25–30 aurum meira en „braskararnir“ höfðu orðið að gefa fyrir þær undanfarin ár. Eitt af átrúnaðargoðum einkasölumannanna var látið annast þessa tunnuútvegun.

Þar sem hjer er um trúaratriði, en ekki samkepnisatriði að ræða, verða aumingja fórnarlömbin að borga brúsann. Það er hægt að láta alt bera sig, þegar aðrir eru látnir borga brúsann. Mörg dæmi mætti halda áfram að telja um klaufaskap einkasölunnar síðastl. ár. Þrátt fyrir það skal jeg ekki fullyrða, að einkasölufyrirkomulagið sje svo fráleitt, að ekki megi nýta það, ef það er lagað. Um það skal jeg engu spá. En ýmislegt virðist benda á, að eftir því sem forkólfarnir festast í sessi og fá meiri áhrif á löggjöf þjóðarinnar, telja þeir sjer frekar allar leiðir færar, og á það benda ummæli, sem höfð eru eftir aðalforstjóranum í öðru ríki.

Nei, þetta mál hvílir á þeim trúargrundvelli, að fyrirtækið sje svo dæmalaust gott, að hægt sje að græða á því og safna í sjóði, en þess ber að gæta, að af fylgjendum málsins er talið sjálfsagt að halda því til streitu, til þess að náðarmolar af hinu breiða borði einkasölunnar hrjóti handa sem flestum. Það hefir komið í ljós, að óþarflega margir hafa komist að þessu borði, og þegar nú á að skipa einkasölunni eigin matsmenn, þá fer að verða rúm fyrir töluvert mikið af þeim aurum, sem inn koma. Það er handhægt að safna í sjóði með því móti að lækka það, sem framleiðendur fá fyrir vöru sína.

Ef hv. d. vill ekki samþ. till. minni hl. n., er því slegið föstu, að að þessu máli á ekki að fá að komast sú athugun og gætni, sem verður að sýna, ef vel á að fara. Jeg verð þó enn að taka það fram, að jeg hefi enga sjerstaka tilhneigingu til að afnema einkasöluna nú þegar. Jeg hefi ekki svo bjarta skoðun á liðna tímanum í þessu efni, Jeg vil eindregið fylgja því, sem er málinu til bóta og getur veitt landsmönnum meira gagn en nú er, undir þeirri stj. og stefnu, sem ráðið hefir hingað til.

Eins og jeg tók fram í upphafi, sje jeg, að það hefir enga þýðingu að vera að ræða þetta mál frekar en orðið er. En það er augljóst, að þegar jafnskýr og greindur maður og hv. 1. þm. S.-M. finnur ekki annað til sönnunar máli sínu en þessi trúaratriði um sjóðstofnanir, þá má nærri geta, hversu góður málstaðurinn er. Jeg tel illa farið, ef ekki er hægt að koma því svo fyrir, að ríkið hafi meiri íhlutunarrjett í þessu máli en það nú hefir.