20.02.1929
Neðri deild: 3. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

17. mál, eftirlit með skipum og bátum

Pjetur Ottesen:

Með þessu frv. er gerð gagngerð breyt. á stjórn á eftirliti með framkvæmd laga um eftirlit með skipum og bátum og öryggi þeirra. Hingað til hefir verið veitt fje til þess í fjárlögum og einum manni falin yfirumsjón þessa verks, en nú á að skipa þessu með sjerstökum lögum og þar gert ráð fyrir auknum starfskröftum við þetta starf. Það er alveg óhjákvæmilegt, að þessi breyt. hafi í för með sjer allmikinn aukinn kostnað. Jeg vil ekki segja, að það sje að öllu leyti að óþörfu gert, af því að það er vitanlegt, að hjer er um mikilsvert starf að ræða, sem og hlýtur, ef það er vel af hendi leyst, að vera allumfangsmikið. En það er gefinn hlutur, að með þeirri breyt., sem frv. fer fram á, hlýtur kostnaðurinn að aukast allverulega frá því, sem nú er, Það er að vísu tekið fram í frv., að það hafi ekki aukinn kostnað í för með sjer, af því að sú fjárveiting, sem veitt er í fjárlögum í þessu skyni, 8 þús. kr., falli þá niður. En þegar þess er gætt, að gert er ráð fyrir því í frv., að skipaskoðunarstjóri hafi að launum 5000 kr., sem hækki upp í 6000 kr., og ennfremur gert ráð fyrir því, að honum sje fenginn aðstoðarmaður, einn eða fleiri, þá má fullkomlega gera ráð fyrir, að kostnaðurinn fari allmikið fram úr þeirri upphæð, sem veitt er í fjárlögum nú í þessu skyni. Og ef svo væri nú, að greiða ætti dýrtíðaruppbót af þeim launum, og máske skrifstofukostnað og ferðafje, þá er augljóst, að þessar 8000 kr. hrökkva skamt.

Í fyrra átti jeg tal við núverandi skipaskoðunarstjóra, Ólaf Sveinsson, og hann taldi óhjákvæmilegt fyrir sig eins og þá var komið að fá aðstoðarmann. Hann hafi sem sje haft með höndum ýms störf í sambandi við útgerð varðskipanna gegn ákveðinni borgun, en nokkuð af því gekk upp í kostnað við eftirlitið með skipum og bátum og öryggi þeirra. En eftir stjórnarskiftin var öðrum manni falið að hafa á hendi nokkuð af störfum við útgerð varðskipanna, en Ólafur Sveinsson hafði þó nokkuð af þeim eftir sem áður án þess að fá nokkra sjerstaka borgun fyrir það. Hann sagði mjer, að það hefði því komið til mála við stj., að hún rjetti hluta sinn á þann hátt, að hann fengi aukna borgun og aðstoð, og hann bjóst við, að bornar yrðu fram till. í þá átt á síðasta þingi.

Það er annað atriði í þessu frv., sem mjer finst orka mjög tvímælis og jeg vil vekja athygli á. Það er gert ráð fyrir því að leggja nýjan skatt á útgerðina, ákveðið gjald fyrir útgáfu og áritun haffærisskírteina, og mun tilætlunin að vinna að einhverju leyti upp hinn aukna kostnað við eftirlitið á þennan hátt. Þétta verður þannig árlegur skattur á bátaútveginum. Hann er raunar ekki ýkjahár, en þegar litið er á það, að bátaútvegurinn ber þegar nokkur gjöld vegna þessarar skoðunar — bátaeigendur borga alla skoðun —, og að útgerðin er að öðru leyti hlaðin sköttum, þá virðist mjer harla varhugavert að auka svo á útgjöld bátaútvegsins, sem hjer er ráð fyrir gert, og vil jeg því beina því til sjútvn., sem fær mál þetta til meðferðar, að rjetta hluta bátaútvegsmanna, með því að draga að minsta kosti úr þessum nýja skatti, ef hún sjer sjer ekki fært að fella hann niður með öllu.