13.05.1929
Neðri deild: 67. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3274 í B-deild Alþingistíðinda. (2060)

39. mál, einkasala á síld

Sigurður Eggerz:

Jeg verð að segja það, að mjer finst dálítið einkennilegum aðferðum vera beitt í þessu stóra stefnumáli, þegar stœrsti flokkur þingsins beitir sjer fyrir því, að skornar eru niður umr. Þykir mjer þetta því einkennilegra, að á þessu langa þingi hafa smámál verið tekin til meðferðar, sem takmarkalausar umr. hafa orðið um, en þegar veruleg stefnumál koma á dagskrá, þá eru umr. skornar niður. Jeg þykist vita, að meiri hl. þingsins þyki gott að bylta sjer í völdunum, en ef þeir ætla að beita valdi sínu þannig, að þeir banni öðrum kjörnum fulltrúum þjóðarinnar að láta álit sitt í ljós um slík málefni sem þessi, þá munu þeir ekki of sælir af, enda mun hyggilegra fyrir þá að misbeita ekki valdi sínu svo ákaflega. Jeg hygg, að mjer sje óhætt að fullyrða, að jeg hefi setið lengur á þingi en þeir fulltrúar, sem hjer eru staddir, og jeg hefi ávalt haft það fyrir vana, ef fram hafa komið till. um að skera umr. niður um eitthvert mál, að þá hefi jeg greitt atkv. á móti því. Jeg lít svo á, að fulltrúar þjóðarinnar hafi leyfi til að rannsaka og kryfja málin til mergjar bæði í nefndum og svo í umr. í þinginu. Ef meiri hl. ætlar að fara að slá það vopn úr hendi minni hl., að þeir megi gagnrýna þau frv., er fram koma, þá er hann tekinn að nota vald sitt illa, og það mun koma honum sjálfum í koll, þótt síðar verði. Innan núv. meiri hl. eru þó frjálslyndir menn, eins og hæstv. forseti og hv. þm. V.-Ísf., sem vilja ekki hafa slíka óhæfu í frammi sem þessa. Jeg mun nú ekki fjölyrða frekar um þetta atriði í meðferð málsins hjer á þinginu, en víkja að málinu sjálfu. Þegar jeg fer að líta á þetta mál og þær brtt., sem hjer liggja fyrir, þá vil jeg taka það fram, að með lögum frá 1926 var samlagið stofnað, og þá átti jeg sæti í Ed. Við umr. um málið benti jeg á það, að hjer væri verið að koma á einokun og að haldið væri í öfuga átt við það, sem ætti að vera, en þessar brtt., sem fyrir liggja, stefna að svipuðu og þá var stefnt. Því vil jeg taka það fram, að ef jeg á að velja á milli, mun jeg velja það, sem er minna vont, og samþ. þessar brtt. frá hv. 1. þm. Reykv., hv. 2. þm. G.-K. og hv. þm. Vestm. Þetta mál hefir þróast þannig, að fyrst var komið fram með frv. um síldarsamlagið á þingi 1926, svo komu lögin frá því í fyrra og nú eru menn farnir að nálgast svartasta einokunarmarkið með þessu frumvarpi, sem hjer liggur fyrir. Þegar svo er litið á þetta frv., hlýtur hver sæmilega skynsamur maður að sjá, að það er mjög athugavert, og það svo athugavert, að jeg hygg, að nærri stappi, að sum ákvæði þess sjeu hreint brot á stjskr. Þegar menn byrja á að lesa þetta frv., reka þeir sig strax á stóra annmarka, eins og t. d. í 1. gr., sem jeg vildi lesa hjer upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Síldareinkasala Íslands hefir einkasölu á allri síld, sem er söltuð, krydduð eða verkuð á annan hátt til útflutnings á Íslandi, svo og á allri síld, sem veidd er til útflutnings af íslenskum skipum hjer við land, hvort heldur innan eða utan landhelgi, eða verkuð í íslenskri landhelgi“.

Er það nú svo, að ef íslenskt skip hefst við fyrir utan landhelgi vora, að hægt sje að taka afla þess og leggja hann í klær síldareinkasölunnar. Jeg vildi beina því til hv. frsm., hvort nefndin hefir athugað þetta. Við getum ekki ráðið yfir Norðmönnum eða öðrum útlendingum, sem fiska fyrir utan landhelgi, og jeg hygg, að það sje jafnsjálfsagt, að við getum heldur ekki ráðið yfir íslenskum skipum, sem taka afla sinn fyrir utan landhelgi. Atriði sem þessi álít jeg, að hv. þdm. beri skylda til að kryfja til mergjar áður en þeir gefa því samþykki brtt. Þá stendur hjer ennþá í 3. gr., þar sem talað er um, hvernig 5. gr. skuli orðuð — með leyfi hæstv. forseta:

„Nú er andvirði síldar að nokkru eða öllu leyti greitt þeim, er afhenti hana til einkasölunnar, og er þá einkasalan ábyrgðarlaus, þótt síðar sannist, að síldin var annars eign eða veðsett öðrum án vitundar einkasölunnar. Greiðast þá eftirstöðvar síldarandvirðis rjettum eiganda eða veðhafa, en síldin sjálf er aldrei afturkræf“.

Með öðrum orðum, ef einhver maður á Siglufirði stelur til dæmis 10 síldartunnum og selur þær einkasölunni, og einkasalan borgar svo þjófnum andvirðið, þá hefir eigandinn, þó hann komi rjett á eftir, engan rjett gegn einkasölunni, en aðeins gegn þjófnum. Þetta er einsdæmi í íslenskri löggjöf og stappar mjög nærri því, að það sje brot á stjskr.; í það minsta munu allir sjá, að ef svona á að leika eignarrjettinn, þá er haldið inn á mjög hála braut. Þetta mál miðar að því að koma á hinni svörtu einokun.

Þegar frumvörpin eru ekki betur úr garði gerð en svo, að grundvallaratriði í íslenskri löggjöf eru brotin með þeim, þá er hart, að umr. um þau sjeu útilokaðar.

Það var einungis af tilviljun eða velvilja hæstv. forseta, að jeg fjekk að tala í þetta eina skifti. Annars hefði ekki verið vakin athygli á þessum meingöllum. Svona eru postular einokunarinnar orðnir blindaðir af meirihlutaaðstöðu sinni.

Það er hart, að þessi einokunaröfl skuli þróast svo mjög í skjóli vanþekkingarinnar og fá færi á að granda framtaki einstaklingsins, sem hefir skapað alt það besta á sviði atvinnuvega vorra.

Á síðasta þingi hjelt jeg því fram, að með einokunarleiðinni væri engin trygging fengin fyrir því, að hægt væri að takmarka síldarframleiðsluna, svo að of mikil síld kæmi ekki á markaðinn, en það dregur auðvitað úr verðinu. Þá sögðu einokunarpostularnir, að þetta væri hin mesta fjarstæða og alveg út í bláinn. En ekki voru þeir þó komnir svo langt þá, að taka fyrir munninn á þeim, sem þótti ekki einokunarfuglinn jafnfagur og þeim sjálfum. Jeg sagði þá, að ekki væri hægt að takmarka síldarmarkaðinn með einokun, því að úr því að við rjeðum því ekki, hverjir veiddu utan við landhelgi þá réðum við því ekki, hvað á markaðinn hærist. Nú er komið svo, að framkvæmdastjórar einkasölunnar semja um veiðar utan við landhelgi við erlendar þjóðir. (HG: Vitleysa. þeir hafa hvorki samið nje samið). Það hefir líka heyrst og komið í erlendum blöðum, að þeir hafi gefið undir fótinn um uppgjöf á landsrjettindum vorum í þessu sambandi. Þetta sýnir best, að síldareinkasalan er ekki einhlít, eins og postularnir sögðu í fyrra. En ef farið er að gera slíka samninga við Norðmenn, verður það auðvitað til þess, að Svíar koma á eftir, og síðan fleiri og fleiri þjóðir. Og hvað skyldi þá verða eftir af landsrjettindunum?

Þá sagði jeg einnig í fyrra, að óhugsandi væri, að hægt væri að reka svona stóra verslun án þess að hún tæki fje að láni. En einokunarpostularnir sögðu: „Mikill dæmalaus barnaskapur getur verið að tala svona“. Þeir sögðu, að hjer væri ekki um minstu áhættu fyrir ríkissjóð að ræða, og fyltust heilagri bræði, þegar talað var um, að að því hlyti að reka, að hið opinbera yrði að leggja einkasölunni rekstrarfje til. (PO: Það var gert árið sem leið). Þeir bókstaflega sóru og sárt við lögðu, að til slíks kæmi aldrei. En hvað skeður? Nú koma þeir og heimta ríkissjóðsábyrgð til handa einkasölunni. (MJ: Þeir hafa líklega svarið við nafn Pjeturs Oddssonar). Þeir eru sem sagt að ýta ríkissjóðnum út í hinn langáhættumesta atvinnuveg, sem rekinn er hjer á landi. Fyrst leggur ríkið fram 1 milj. til síldarverksmiðju og fær henni rekstrarfje, enda þótt slík fyrirtæki sjeu stórkostlega áhættumikil. En það er ekki nóg með það, heldur á ríkissjóður einnig að leggia fje til sjálfra síldveiðanna, sem er hið mesta glæfrafyrirtœki, sem þekkist hjer á landi.

Já, tímarnir breytast. Það hefir sannast hjer eins og víða annarsstaðar. Sú var tíðin, að þegar minst var á síld, skaut bændum skelk í bringu, og sá, sem hefði fyrir nokkrum árum ymprað á því að taka síldina upp á arma ríkissjóðs, hefði áreiðanlega fengið orð í eyra. Nú er tekið málfrelsi af þeim mönnum, sem ekki vilja orðalaust láta hvolfa ríkissjóði í einokunarhítina. Jeg hefi ekkert gaman af að horfa framan í þá hv. þingbændur, sem síldin hefir dáleitt, en jeg hefði gaman af að heyra hljóðið í bændum utanþings um þetta. Jeg held, að svarið yrði ekki vafasamt.

Í umr. um vinnudóminn kvað hv. þm. Mýr. svo að orði, að þm. Dal. stæði upp við og við til þess að vinna samúð íhaldsins í kjördæmi sínu. Mig langar til að minna á í tilefni af þessum ummælum, að jeg var síðast kosinn á móti báðum „stóru“ flokkunum, íhaldi og framsókn, sem bæði vildu fyrir hvern mun koma mjer út úr pólitíkinni, þó að það ekki tækist, og af því að það tókst ekki, þá stend jeg nú hjer og tala m. a. gegn einokuninni, hinni svörtu einokun, óbundinn af öllu nema sannfæringu minni.

Jeg lifi hvorki á náð framsóknar nje íhaldsins og var kosinn á þing þrátt fyrir hamrama mótstöðu þessara beggja flokka. Og hv. þm. Mýr. veit það, eins og að vísu allir, sem hjer eru, að jeg berst hjer á þingi fyrir þeim málum, sem ávalt hafa verið mín stefnumál. Íhaldið hefir ekki hreinan skjöld í einokunarmálunum, en jeg og minn flokkur höfum það, og jeg hefi þar fylgt sömu stefnu frá upphafi.

Sama er að segja um vinnudóminn. Það mál var fyrst flutt inn á þingið af sjálfstæðishetjunni Bjarna Jónssyni frá Vogi, og jeg og minn flokkur höfum verið fylgjandi málinu frá upphafi. Ummæli hv. þm. Mýr. eru því, vægast sagt, vindhögg. Jeg berst enn fyrir þeim málum, sem jeg hefi altaf barist fyrir, og á móti þeim málum, sem jeg hefi frá upphafi haft ótrú á. Jeg vil ennfr. minna á það, að jeg var andstœður íhaldinu, meðan það sat við völd, og þegar Framsókn tók við þeim, hlaut jeg líka samkv. stefnu minni og flokks míns að vera þeirri stj. andvígur. Það má vel vera, að skjólgott sje undir eik þeirra framsóknar- og jafnaðarmanna, undir stjórnareikinni, en einokunartístið í laufunum og síldarsöngurinn í greinunum hefir látið svo illa í mínum eyrum, að jeg hefi ekki getað setið þar stundinni lengur, enda þótt margir sitji undir þeirri eik aðeins til að njóta skjólsins. (BÁ: Nú gerist hv. þm. heldur of skáldlegur). En þeir eru ekki eins hrifnir af eikinni, þegar þeir eru komnir svo sem hálfa mílu frá bænum.

Jeg hefi lýst aðstöðu minni eins og hún hefir verið. Jeg var á móti íhaldinu meðan það sat að völdum, og jeg er á móti framsóknarstjórninni, sem nú situr við völd. Jeg mun hvergi leita skjóls, meðan jeg sit hjer á þingi, heldur einungis fylgja því, sem jeg veit sannast og rjettast.

Jeg veit, að ekki muni á löngu líða, uns einokunarpostularnir iðrast synda sinna gagnvart ríkissjóði. Nú er ríkið búið að taka að sjer á þessu þingi ábyrgðir á upp undir 2 milj. króna fyrir utan allar ábyrgðir þess á bönkum. Nú á að fara að byggja upp kaupstaðina fyrir ríkisfje, og í síldarmálunum á að velta fjárhag hins opinbera ofan í einokunarforaðið.

Þegar litið er á þetta í ró, getur engum dulist, að verið er að leggja grundvöllinn að því að stofna ríkissjóði í hœttu. Og þjóðin mun á sínum tíma dæma um afstöðu mína og annara í þessum málum.

Jeg hefi þá gert grein fyrir afstöðu minni. Jeg fœ ekki að tala aftur, og gæti jeg þó haft löngun til þess, en frjálslyndi einokunarpostulanna er nú einu sinni svo frábært, að andstæðingar þeirra fá ekki að tala nema einu sinni. Alstaðar annarsstaðar mundi þvílík aðferð vera kölluð hið svartasta afturhald. Og jeg vil leggja áherslu á, að jeg tel þvílíkt framferði fullkomna misbeitingu á valdi meiri hl.