16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3298 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

39. mál, einkasala á síld

Magnús Guðmundsson:

Jeg skal ekki hefja langt mál um þetta frv. Jeg hefi verið að athuga það og fundið nokkur atriði í því, sem mig furðar stórlega á. Að vísu hafa sum þeirra áður komið fram í umr., en jeg vil þó undirstrika þau nú með nokkrum orðum.

Hv. þm. Dal. benti á, að það væri undarlegt að setja í lögin ákvæði um, að íslenskir ríkisborgarar mættu ekki veiða síld fyrir utan landhelgi nema selja hana fyrir milligöngu síldareinkasölunnar. Sjórinn fyrir utan landhelgina er jafnt eign allra. Það er því alveg þýðingarlaust að setja nokkrar reglur um, að þar megi ekki veiða nema með ákveðnum skilyrðum, en þetta er gert hjer í 1. gr. frv. og er því beinlínis brot á alþjóðareglum. Utan landhelginnar er öllum heimilt að fiska, ef þeir ónáða þar ekki aðra.

Annað atriði, sem Jeg vildi minnast á, er í síðustu málsgr. 3. gr. frv. Þar er það tekið fram, að ef síldareinkasalan kaupir síld, sem er annars manns eign, þá getur hún haldið henni, þannig að ekki er hægt að rifta kaupunum, þó það komist upp, að síldin sje stolin, ef einkasalan hefir ekki verið í vitorði um það. Þetta gengur þvert ofan í landslög. Ef hesturinn minn er tekinn og seldur í óleyfi mínu, þá get jeg tekið hann hvar sem hann finst, og sá, sem keypti verður að snúa sjer að sínum heimildarmanni. Þetta þýðir ekkert annað en að vernda þjófinn, og það er ósæmilegt hverri löggjöf.

Ef gerðir hafa verið fyrirfram samningar um síldarsöltun manna í milli þá eiga þeir að falla úr gildi samkv 8. gr. frv., þegar einkasalan tekur söltunina í sínar hendur, og það jafn vel þó samningarnir hafi verið gerðir áður en þetta frv. kom fram. Þetta er alveg óvenjulegt. Reglan er sú, að löggjafarvaldið virði gerða samninga og það er tæplega hægt að fyrirskipa að gerðir samningar skuli ógildir teljast. Löggjafarvaldið á síst allra valda að halda því að mönnum að ógilda gerða samninga. Jeg sje ekki heldur, hvað það sakar, þó að samningar þeir sem kunna að hafa verið gerðir, sjeu látnir standa; þeir gilda þó ekki nema til árs. En svo mikil er áfergjan að koma á þessum ríkisrekstri, að það má ekki virða gerða samninga, þó það geti orðið til stórtjóns fyrir þá menn sem hlut eiga að máli. Jeg skal tala t. d. mann, sem á hjá öðrum stórfje og ætlast til, að hann fái það greitt samkv. síldarverkunarsamningi, sem svo verður feldur úr gildi samkv. þessum lögum. Hvaða sanngirni er nú í öðru eins og þessu? Annars skal jeg ekki fara langt út í þetta; það er nú komið að þingslitum. og jeg veit, að það þýðir ekki að ræða frekar um þetta frv.; það verður barið gegn. En þingmenn verða þó að þola, að bent sje á stórgalla eins og þessa á frv., og það fanst mjer skylt að gera. Jeg vona, að jeg þurfi ekki að taka það fram, að jeg er yfirleitt á móti frv.; jeg greiddi atkv. gegn þessum einkasölulögum í fyrra og mun gera það enn.

Það er átakanlegt að sjá, hversu fljótt þeir ætla að rætast spádómarnir, sem komu fram á síðasta þingi, um framhaldið á þessu máli. En það væri gaman að spá aftur nú, og þá vil jeg fullyrða, að Alþingi sje ekki búið að bíta úr nálinni með síldina. Þetta þing er vissulega sannkallað síldarþing. ekki síður en þingið í fyrra. Þá voru tekin fyrir öll ákvæði um síld í ísl. lögum, og nú ganga mörg þessara frv. aftur, og er yfirleitt beint í áttina til fullkomins ríkisrekstrar.