16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3300 í B-deild Alþingistíðinda. (2066)

39. mál, einkasala á síld

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

* Það áttu víst að vera nokkrar lögfræðilegar aths., sem hv. 1. þm. Skagf. kom fram með nú í síðustu ræðu sinni um 1., 3. og 8. gr. frv., sem nú er til umr. Mjer kom á óvart það, sem hann sagði um 1. gr., er hann gaf þá yfirlýsingu, að samkv. henni væri Íslendingum bannað að fiska fyrir utan landhelgi. Jeg skil ekkert í þessu. Það er alt annað, sem bannað er með 1. gr.; þar er tilskilið, að innlendir menn skuli afhenda einkasölunni alla síld, hvort sem hún er fiskuð innan eða utan landhelgi; og get jeg ekki skilið, að það sje brot á alþjóðareglum, þegar þetta á við Íslendinga og íslensk skip, því að lög landsins verða þó að ná til þeirra. Jeg er ekki lögfræðingur og vil ekki deila mikið um þau atriði en jeg skil þetta svona. Þá taldi hv. þm., að samkv. síðustu málsgrein 3. gr. frv. væri verið að vernda þjófa. Þar er ekkert á þjófnað minst; en aftur á móti er talað um, að þegar sala á síld til einkasölunnar er um garð gengin, og þó það komi upp þegar frá líður, að einhver annar en sá, sem seldi, hafi verið eigandi síldarinnar, þá geti hann ekki afturkallað eða ógilt kaupin. Ef hann kemur fram og gerir sínar kröfur á rjettum tíma, þá verður þeim vitanlega fullnægt. (MG: Það vantaði nú bara, að einkasalan mætti kaupa síld, vitandi vits um að seljandi ætti hana ekki).

Mjer fanst álíka ljettvægt það, sem hv. þm. sagði um 8. gr. Það liggur í hlutarins eðli, að þeir samningar, sem fara í bága við ákvæði þessara laga, ef þau öðlast gildi, geta ekki staðist. Við skulum taka t. d., að skrifstofuþjónar einkasölunnar hefðu gert fyrirfram samninga um söltun og sölu á síld. Finst hv. þdm. þá ekki eðlilegt, að þar sem þeim er með lagaákvæðum bannað að stunda slíkt starf, þá fall slíkir samningar úr gildi? Að öðrum kosti yrðu þeir að segja af sjer störfum, ef svo stæði á, að þeir hefðu ger; slíka samninga fyrirfram, og gæti þá eftir atvikum farið svo, að það yrði ekki með öllu vítalaust að rjúfa þannig starfssamningana. Mjer skilst að ef slíkir samningar, sem þeir kynnu að gera, brjóta í bága við það, sem lögin ákveða, þá hljóti starfsmennirnir að víkja úr stöðum sínum.

Eins og jeg tók fram við 2. umr., þá hygg jeg, eftir þeirri reynslu, sem fengin er, að nauðsynlegt sje, að þessi breyt. verði gerð á einkasölulögunum, til þess að reksturinn verði ekki alt of stirðbusalegur, heldur geti einkasalan náð tilgangi sínum.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.